Í dag legg ég fram á Alþingi fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Áætlunin gerir ráð fyrir sókn í velferðarmálum, hraðri lækkun skulda og ábyrgri hagstjórn sem miðar að umhverfi lægri vaxta og stöðugra gengis.
Útgjöld til velferðarmála aukast um meira en 20% á tímabilinu og til velferðarmála annarra um 13%. Nýtt þjóðarsjúkrahús rís, greiðsluþátttökukerfi endurbætt og notendastýrð persónuleg aðstoð lögfest. Frítekjumark vegna atvinnutekna eldri borgara hækkar. Listinn er langur yfir brýn mál sem fá pláss í áætluninni, hvar sem drepið er niður.
Notum peningana betur
Fjármálaáætlunin sýnir útgjaldaaukningu. Meginatriði er þó að þeir 7-800 milljarðar sem notaðir eru á ári hverju nýtist sem best. Fjármálaáætlunin setur því fram ítarleg markmið, aðgerðir og reynt er að setja sem flest mælanleg markmið. Þannig getum við betur fetað okkur á þeirri leið að vita hvað ríkið fær fyrir peningana og meiri vissu fyrir því að þeir séu að gera það gagn sem við ætlumst til. Þetta sést í því að obbinn af blaðsíðunum 360 í áætluninni snýr að þessari stefnumörkun.
Betri virðisaukaskattur
Fyrr í vikunni var sagt frá breytingum á virðisaukaskattskerfinu til einföldunar. Helstu flokkar ferðaþjónustu fara úr lægra þrepi í almennt virðisaukaskattþrep og ferðaþjónustan býr þá við sama skattumhverfi og aðrar helstu atvinnugreinar. Þetta gerir það kleyft að lækka almennt þrep virðisaukaskatts um 1,5% og minnka bilið milli þrepanna sem því nemur. Veitingaþjónusta verður áfram í lægra þrepi til samræmis við annan mat.
Neytendur hafa af þessu mikla kjarabót, því þó matur sé í lægra þrepi er nær allt annað í almennu þrepi. Verðlagsáhrifin af aðgerðinni í heild eru talin vera lækkun um 0,4 til 0,5% og færir hún neytendum þannig aukinn kaupmátt. Þetta er innlegg ríkisstjórnarinnar til þess að stuðla að hóflegum launahækkunum og sátt sem verður að ríkja á vinnumarkaði.
Lægri vextir og stöðugra gengi
Þó áætlunin fjalli um marga þætti ríkisrekstrarins, er hún þó ekki alfa og ómega. Endurskoðun peningastefnunnar, opnun bókhalds, jafnlaunavottun og umbætur í landbúnaði og sjávarútvegi eru til dæmis unnar utan fjármálaáætlunarinnar. Þá er að hefjast vinna við að endurskoða gjaldtöku í sjávarútvegi sem hafa mun áhrif á fjármálaáætlanir framtíðarinnar. Fjármagnshöft voru losuð fyrr í mánuðinum.
Ég vinn áfram að því á öllum vígstöðvum að skapa aðstæður fyrir lægri vexti og stöðugra gengi. Áætlunin gerir ráð fyrir mun meira aðhaldi en áður og unnið er að auknum fjárfestingum lífeyrissjóðanna erlendis í samráði við þá. Nefnd um umfang peningastefnunnar hefur hafið störf.
Í þessari áætlun er fetað einstigi milli aðhalds og eðlilegrar útgjaldaaukningar. Í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar er forgangsraðað í þágu heilbrigðis- og velferðarmála, á sama tíma og skólastarf er eflt og milli 20 og 25 milljörðum króna til viðbótar er varið í samgöngumál miðað við síðustu fjármálaáætlun. Áætlunin er metnaðarfull á öllum sviðum, byggir upp til framtíðar á sama tíma og skuldir eru greiddar niður. Þannig skilum við af okkur búi sem léttir róðurinn á komandi áratugum.
Það er bjart framundan á Íslandi þegar skynsamlega er að málum staðið. Leiðarljós ríkisstjórnarinnar — jafnvægi og framsýni — bera þessu vitni, og um það fjallar þessi fjármálaáætlun.