Kominn er upp svipuð staða og í Njálu, en þar er venjan að allt er leynt átti að fara var á allra vitorði. Sama gildir um það þegar Afhausunarbankinn (Hauck & Aufhäuser) keypti ekki Búnaðarbankann. Allt vitiborið fólk vissi að um var að ræða samkomulag milli stjórnarflokka um helmingaskipti, þar sem framsókn fengi Búnaðarbankann en Íhald Landsbankann. Þetta hefur raunar Steingrímur Ari staðfest. Nú steðjar fram fólk sem þykist ekkert hafa vitað, sérstaklega þeir sem báru ábyrgð sem ráðherrar eða eftirlitsaðilar og eru óskaplega hissa eftir 14 ár, hér er um takmarkalausa undrun að ræða, stundum í opna skjöldu. Ekki er því úr vegi að rekja hvernig þetta blasti við okkur Sigurði G Tómassyni þegar við fórum að fjalla um þetta mál fyrstir manna.
Vinstri grænir báðu um skýrslu Ríkisendurskoðunar og var hún birt 2003, en svo virðist sem VG hafi hins vegar ekki lesið hana og tókum við Sigurður okkur til og lásum valda kafla úr henni í útvarp, sem fer hörðum orðum um einkavæðingu bankanna (ekki síst bls. 72 og 73). Skýrslan kom okkur mjög á óvart fyrir heiðarleg og vönduð vinnubrögð. Fljótlega fórum við að efast um hlutverk Afhausunarbankanns og fjölluðum ýtarlega um það mál. Upp úr því bættist Vilhjálmur Bjarnason í hópinn ásamt Svani Kristjánssyni og Þorvaldi Gylfasyni, sem gagnrýndu einnig einkavinavæðinguna. Könnuðum við efnahagsreikninga þess þýska og var þar hvergi minnst á eignakaup á Íslandi fyrir milljarða. Fréttablaðið hafði þá snör handtök og sendi blaðamann, Hjálmar Blöndal, á skrifstofu þýska bankans og sat hann í þrjá daga og bað um viðtal við bankastjóra, en fékk ekki. Þá vorum við vissir um að þýski bankinn væri yfirvarp. Svo þegar viðskiptaráðherra Valgerður Sverrisdóttir stytti tímann sem þýski bankinn átti að eiga Búnaðarbankann úr tveim árum í þrjá mánuði, þá var ljóst að um samsæri var að ræða.
Valgerður reyndi að gera lítið úr Vilhjálmi og sagði hann „bara aðjúnkt“. Á þessum tíma var ég lektor í Viðskiptadeild og var reynt að stugga við mér þar. Deildin fékk þau skilaboð frá Sigurði Einarssyni, stjórnarformanni Kaupþings, að hætt yrði að styrkja rannsóknir og kennslu við deildina ef menn á borð við Guðmund og Vilhjálm yrðu ekki látnir fara. Þetta kom lítið við mig, stjórnmálamenn höfðu margoft reynt að fá mig rekinn úr starfi og allir vita hvar Vilhjálmur er staddur nú. Eitt er víst að við sáum til þess að allir vissu eða máttu vita um samsærið.
Þáttur gömlu konunnar í Keflavík kemur hins vegar ekki við sögu fyrr en í Al Thani málinu, en sú gamla hafði verið með hinum rétta Al Thani á heilsuhæli í Sviss og var þeirra kynning góð og ástúðleg. Hún fullyrti að sá maður sem fenginn var til að leika Al Thani á hluthafafundi hafi ekki verið hinn rétti, heldur leigubílstjóri frá Lundúnum, enda var hann drifinn á braut mjög skyndilega án þess að koma í Kastljós. Þessar uppljóstranir urðu þó til þess að málið var rannsakað og lögum komið yfir rétta menn sem máttu sitja sér til hressingar í 4 til 6 ár á Kvíabryggju. Þökk sé þeirri gömlu.
Nú er verið að selja annan banka, stórum hluthöfum sem eru undir nafnleynd. Nú ætla stjórnvöld að selja grímuklæddum mönnum stofnun sem getur haft mikil áhrif á íslenskt samfélag. Maður spyr sig, ætla stjórnvöld að láta þetta yfir sig ganga, ætlar Vilhjálmur Bjarnason að vera með í þetta sinn?
Höfundur er lektor í hagfræði.