Borgarlínan svokallaða hefur verið mikið í umræðunni þessa dagana enda gríðarlega mikilvægt mál, samgöngumáti sem mun gjörbreyta landslagi höfuðborgarsvæðisins og mun skapa mun skilvirkari og betri samgöngur en þær sem við notum í dag. Landsvæðin í kringum línuna verða verðmæt, aðsókn í íbúðir nálægt línunni verður mikil og hún mun skapa aukin lífsgæði fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu með því að bjóða uppá skilvirkar, hraðar og öruggar samgöngur.
Nú í dag erum við með ágætt og efnilegt strætókerfi miðað við hversu dreifð byggðin er í raun. Kerfið flytur u.þ.b. 45 þúsund manns daglega og því er nokkuð ljóst að samgöngur á höfuðborgarsvæðinu myndu ekki virka án strætókerfisins. Þetta kerfi má auðvitað bæta en til þess þarf bæði aukna fjármuni í kerfið og bílaumferð þarf að lúta lægra höfði varðandi akreinapláss. Tæplega 50% alls landsvæðis í Reykjavík fer undir umferðarmannvirki fyrir bíla sem er einfaldlega óhagkvæmt fyrir borgina og óhollt fyrir íbúa þess. Nú munu bílaeigendur verða alveg æfir úti mig því þetta er „aðför“ gegn einkabílnum. En þetta er bara staðreynd, ef við ætlum að eiga vistvæna og góða borg sem á að vera í samkeppni við aðrar borgir þá verðum við að minnka bílaumferð með skilvirkum og góðum samgöngum sem einkabílinn er ekki.
Það er nokkuð ljóst ef að þetta á að virka að þá þarf línan að vera skilvirk, umhverfisvæn og ekki síst þarf hún að vera töff og falleg. Því tel ég léttlestarkerfi vera mun meira heillandi og mun betri kostur en hraðvagnar. Það lítur allt út fyrir það að kostnaður muni verða ráðandi í ákvörðuninni og að hraðvagn verði niðurstaðan, það þykir mér miður. Léttlestir mun skapa meiri verðmæti og vera mun meiri „game changer“ heldur en aðeins stærri og aðeins betri strætó eins og hraðvagnakerfi er.
Bæði sveitastjórnir á höfuðborgarsvæðinu sem og þingmenn þess eiga að standa í lappirnar og gera þetta almennilega, setja lestarteina og standa að alvöru uppbyggingu samgöngukerfis í Reykjavík og nágrenni. Ef það er hægt að eyða yfir tug milljarða í ein göng út á landi þá hljótum við að geta eytt 100 milljörðum í bæði vistvænari og skilvirkari samgöngur á höfuðborgarsvæðinu þar sem yfir sjöfalt fleiri íbúar búa og margfalt fleiri ferðamenn fara þar um.
Léttlest er ekki bara skynsamleg ákvörðun gagnvart mengunar- og umhverfissjónarmiðum, heldur einnig aðgerð sem mun minnka útgjöld heimilanna í samgöngum og hagkvæm fyrir sveitarfélögin sem munu þurfa minna pláss og minni pening fyrir dýr gatnakerfi og plássfrek bílastæði.
Við á höfuðborgarsvæðinu verðum að vera hugrökk og krefjast þess að stjórnmálamenn og yfirvöld hætti að fara ódýru leiðina í þessum mikilvæga málaflokki. Þess vegna eigum við að berjast fyrir nýjum og endurbættum almenningssamgöngum á borð við léttlest með strætókerfi sem styður við það, en ekki enn ein mislægu gatnamótin sem gera ekkert annað en að auka bílaumferð, auka mengun og taka dýrmæt landsvæði sem annars gætu verið nýtt í eitthvað betra.
Kommon Ísland gerum þetta almennilega, svona í eitt skipti.