Þingsályktunartillaga ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartar framtíðar er í merkisberi pólitískrar hagfræði þar sem auðvelt er að láta skerast í odda milli andstæðra hugmyndafræðikerfa, milli hægri og vinstri og kapítalisma og sósíalisma, en þau hugtök heyrast sjaldan á Alþingi en eru samt óskaplega raunveruleg. Fjármálastefnan á, skv. 6. gr. laga um opinber fjármál, að standa á grunni hugtaka eins og sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gegnsæi. Þetta eru ekki vísindaleg eða strangfræðileg hugtök heldur gildishlaðin eftir því hvaða pólitísku gleraugu eru á manns nefi. Ég ætla að velta fyrir mér fjórum hugtakanna sem að mörgu leyti mynda lykilinn að fjármálastefnunni.
Fyrst er það sjálfbærni...
Sjálfbærni í ríkisfjármálum, hvað merkir það? Ef við speglum þrjár meginstoðir sjálfbærni yfir á fjármálastefnuna, eru þær einfaldlega með þeim hætti að:
1. Náttúruauðlindir verði nýttar þannig að þær beri nytjarnar.
2. Samfélög dafni og jöfnuður aukist milli þjóðfélagshópa og milli samfélaga utan og innan höfuðborgarsvæðisins.
3. Efnahagslífið skili góðu búi til þegnanna almennt. Til allra íbúa, þannig að samfélagið þróist til almennrar velsældar, en ekki fyrst og fremst velsældar sumra.
Sitt sýnist hverjum í þessum efnum og víst er að skilgreiningar á sjálfbærni eru fleiri en ein. En ég tel þó morgunljóst að íslenskt efnahagslíf er ekki sjálfbært. Það er gengið á margra auðlindir, gríðarlegt vistspor er staðreynd, linnulitlar, hraðar og miklar gengisbreytingar skekja heimili og minni fyrirtæki, heil samfélög eru í vanda, ósjálfbær vegna þess að sjálfsbjörgin er tekin af þeim. Misskipting auðs og eigna vex en minnkar ekki.
Ég geri alls ekki lítið úr andspyrnu gegn þessari þróun og viðleitni til bóta, líka fyrir atbeina flokka sem mér hugnast ekki. Samfélagið er nefnilega að vakna til vitundar um aðra starfshætti og annars konar hagkerfi; hagkerfi með önnur viðmið en stanslausa leitni eftir hámarkshagnaði og stöðugum hagvexti á grunni nýrra auðlinda en ekki endurnýtingar. Lög og landsstjórn lætur undan æ þyngri kröfum um breytta hagstjórn og önnur viðmið, ekki bara græn viðmið heldur líka með merkjum jöfnuðar. Félagslegar lausnir verða æ útbreiddari í hugum fólks sem selur vinnuafl sitt sér til framfærslu. Við viljum samhjálp en ekki sérgæsku, segja menn, og horfa æ oftar til þess flokks sem setur slíkt á oddinn, sbr. tilhneigingu sem sést í skoðanakönnunum um aukið fylgi félagshyggjuflokka. Minna má þá um leið á að hér á landi nást seint félagslegar lausnir í landsmálum án þess að félagshyggjuöflin og -flokkarnir vinni saman. Í raun og sann er hugtakið sjálfbærni í ríkisfjármálastefnunni að sjá sem innihaldslítill orðaleppur, hafður með því að enginn vill sleppa hugtakinu í nútímastjórnmálum.
Svo kemur að varfærni...
Varfærni í þessari stefnumótun, hvað merkir hún? Varla óheftan vöxt, varla stóru bónusana, varla stöðuga samþjöppun í helstu atvinnugreinum, varla niðurskurð í góðæri sem byggir aðallega á þotuvexti einnar atvinnugreinar sem er ekki rekin á sjálfbærum nótum? Varla snýst varfærnin um varðstöðu um áframhaldandi stórhagnað banka og stærstu útgerðanna, samanber. HB Granda sem hefur skilað 40 milljarða króna hagnaði frá 2008 að telja? Og þó. Er varfærni stjórnarinnar ekki einmitt til þessa gerð, ef vel er að gáð? Jú, varfærnin í stefnuskránni merkir í raun að ekki skuli afla fjár til umbóta í samfélaginu nema þegar sjálfvirkar tekjur aukast. Varfærnin snýst ekki um hvernig megi auka við framlag þeirra sem eru mjög vel aflögufærir til samneyslunnar. Varfærni ætti að merkja, þveröfugt við hægri stefnuna, að þensla í tekjum velhafandi atvinnugreina og aukinn ójöfnuður verði haminn með virkum hætti.
Komið að stöðugleika...
Stöðugleiki, hvar er hann í raun í stefnu stjórnarinnar? Til dæmis sýnist hann merkja þá gömlu þulu sem réttlætir víxlverkun launahækkunar og verðlags, sem verður að halda aftur eftir þulunnar hljóðan. Þá er látið líta svo út að þar fari sjálfvirkt og eðlilegt lögmál en í raun felur þulan í sér tilraunir til að halda aftur af launaþróun sem er flestum bæði nauðsynleg og hagfelld. Samtímis er klifað jafngamalli kökukenningu sem allir þekkja. Í henni er látið líta svo út að forráðamenn atvinnuveganna skuli réttilega reikna út það sem kallast greiðslugeta og launafólki látið eftir að berjast um kökuna. Hún er rétt fram eftir útreikningana. Hið rétta er jafngamall sannleikur, nefnilega sá að launafólk verður að sækja út fyrir sneiðina. Hagnaður margra fyrirtækja er mikill og eignamyndun enn meiri. Blessuð kökusneiðin getur orðið jafn stór og almennir launamenn ná með sínum kökuhníf án tillits til skömmtunar fyrir fram. Stöðugleiki ríkisfjármálaáætlunar stjórnarinnar merkir í raun: Ekki skattleggja auðmagn, ekki skattleggja hæstu tekjur, ekki skattleggja miklar eignir. Afleiðingin er jafn skýr: Ójöfnuður eykst, fátækt verður æ meira áberandi en hinir vel stæðu verða enn betur stæðir. Ekki er hægt að vísa til meðaltalsaukningar tekna eða kaupmáttar til að afneita slíkri sviðsmynd. Meðaltölin fela skörpu og dapurlegu drættina, fela misréttið. Stöðugleikinn ætti að merkja aukinn jöfnuð, hægari hagvöxt, minni samkeppni, aukinn sparnað með samneyslu og hægari uppgreiðslu lána svo að fólk flest hafi það betra um allt land.
Loks er það festa...
Festa, hvað má lesa úr því hugtaki? Festu í þá veru að tryggja margboðaðar úrbætur velferðar og samgangna í landinu? Nei. Festu þegar kemur að því að hvergi megi leita leiða til að auka við tekjur ríkissjóðs til samneyslunnar, nema þegar hagsveiflan er upp á við og tekjur aukast? Einmitt. Festu við að skera enn frekar niður ef verr árar en nú? Já, það er einmitt þess konar festu sem má lesa úr stefnuplagginu. Hvar er þá sveigjanleiki þeirra hagsýnu í ríkisfjármálum þegar kemur að því að draga úr þensluáhrifum sem snaraukin lúxusneysla og vöxtur ferðaþjónustunnar knýja fram? Getum við náð 2,5% hagvexti sem Seðlabankinn mælir með án þess að tempra vöxt spúttnikk-greina? Nei, við getum það ekki enda hvatt til frekari vaxtar þeirra og boðuð skattalækkun í þenslu og svokölluðu góðæri. Festa ríkisstjórnarinnar felst greinilega í því að hlífa hópi fjármagnseigenda með mestu tekjurnar, hlífa stórnotendum auðlinda og tiltölulega litlum hópi stóreignafólks við meiri framlögum til samfélagsins. Í þess stað ætti að ákvarða hæfileg gjöld á atvinnuvegi sem mest mega sín, á stórútveginn, orkuframleiðslu, orkufrekan iðnað og ferðaþjónustu með ýmsu móti, þar með talið á ferðamennina sjálfa, umfram boðuð bílastæðagjöld. Margrædd komugjöld koma til greina, hlutfallsleg og hærri gistináttagjöld og ýmsar breytingar á öðrum gjaldstofnum. Allt væri það augljóslega til þess fallið að bæta tekjuöflun ríkisins.
Ábyrg og alþýðleg hagstjórn
Eftir hugleiðingar um þessi fjögur lykilhugtök má greina andstæðuna: Félagslegar lausnir, vinstri áherslur. Með skattheimtu til jöfnuðar er unnt að auka sjálfbærni og stöðugleika, kalla fram minni óánægju tugþúsunda með kjör sín og samfélagslega stöðu. Með festu og varfærni má stýra auðlindanýtingu betur en nú og auka á festuna og varfærnina einmitt með því að finna jafnvægi tekna og gjalda eftir að nýrra tekna hefur verið aflað með jöfnuðarsköttum. Það er ábyrg og alþýðleg hagstjórn. Fjármálaráð veifar nokkrum rauðum flöggum í sínu áliti. Hvers virði eru þær fánasýningar ríkisstjórninni? Hún tekur ekki mark á þeim. Áhættugreining fjármálaráðuneytisins við skoðun fjárlaga sýnir nú þegar fram á hættu á 11 milljarða yfirkeyrslu einmitt að hluta vegna krafna samfélagsins gegn frjálshyggjumarkmiðum ríkisstjórnarinnar sem lætur undan síga, t.d. með 1,2 milljarða kr. viðbót til samgönguáætlunar sem allt í einu er ekki einu sinni pínulítið siðlaust, svo að vitnað sé í fleyg orð fjármálaráðherra um "næstum siðleysi" fyrrum fjárlaganefndar. Þarf svo ekki auknar tekjur til fleiri málaflokka, í anda kosningastefnu flokkanna þriggja? Jú. Hvar á að taka þær, undir lágu þaki hagsveiflu, eða ef fjármálin reynast í járnum vegna hagrænu kjaranna?
Fallin... með 4,5
Það er ekki unnt að yfirgefa ríkisfjármálastefnuna án þess að máta hana við loftslagsmálin. Hvað sagði hæstv. forsætisráðherra ekki um þau mál? Þau væru mikilvægustu mál samtímans, ekki satt? Það er ljóst að Ísland nær ekki markmiðum sínum án verulegs viðbótarfjár í allar lauslegu og ósamstæðu áætlanirnar sem stjórnvöld hafa búið til. Marga milljarða mun vanta í orkuskipti og aðrar fjölbreyttar leiðir til að minnka losun gróðurhúsagasa, um leið og binding kolefnisgasa er aukin með ólíkum aðgerðum. Þessar aðgerðir þola enga bið og geta ekki verið háðar uppsveiflu í hagkerfinu árum saman. Röng stefna frjálshyggjunnar í tekjuöflun ríkisins má ekki stýra framtíð komandi kynslóða. Hvað um menntamálin? Þar er t.d. háskólanámsstigið stórlega vanfjármagnað? Hvað með heilbrigðiskerfið, götótt og undir alltof miklu álagi, sem allir segjast vilja efla? Hvað með fjárhagsumhverfi tækniþróunar og nýsköpunar þar sem við erum stödd vel undir viðmiðunarlöndum þegar kemur að hlutfalli fjárveitinga af vergri landsframleiðslu? Hvar er þá sjálfbærnin og varfærnin? Hver er framtíðarsýnin þá önnur en að sennilega verði aukið í fjárveitingar seinna á kjörtímabilinu ef vel árar? Allt ber að sama brunni. Hvað sem einhverjum ljósum punktum kann að líða í stefnuplagginu mótast stefnan ekki af hagsmunum fjöldans heldur sérhyggju og vörn fyrir sömu vegferð og við höfum kynnst í áratugi með fáum undantekningum. Hún fær falleinkunn þegar menn horfa til baka.
Framsækna ríkisfjármálastefnu vantar
Mjög mörg okkar viljum miklu framsæknari ríkisfjármálastefnu, betur rökstudda og rædda fjármálastefnu, fjármálastefnu sem virðir vilja mjög stórs hluta þjóðarinnar. Sá stóri hópur, 90%, ræður aðeins yfir 40% eigna hér á landi á móti hinum 60% eignanna sem 10% íbúanna hafa í höndum sínum. Við viljum fjármálastefnu sem er mótuð að nothæfum og sanngjörnum aðhaldslögum en gefur svigrúm með vandaðri aukatekjuöflun til að fullnægja þörfum mikils meiri hluta samfélagsins. Þörfum fólksins sem kallar á raunhæft velferðar-, mennta- og samgöngukerfi, kallar á allt þetta venjulega og nútímalega sem það sama fólk á skilið og þarfnast til að lifa eins og ríkt samfélag getur best boðið upp á. Þá verður að vera réttlátlega skipt og hámarksgróðasókn látin víkja fyrir ... hverju? Ég ætla að láta lesanda eftir að botna greinina.
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.