Í bókinni Af sifjafræði siðferðisins setur heimspekingurinn Firedrich Nietzsche fram þá hugmynd að það sem hafi einkennt samfélög manna þegar þau tóku að þróast og aðgreina sig frá frumstæðum uppruna sínum hafi verið getan til þess að ala upp mannfólk sem var fært um að lofa því að endurgreiða öðrum og þar með viðurkenna skuld sína gagnvart hópnum. Annar heimspekingur, hinn slóvenski Slavoj Zizek, tekur þetta upp í bók sinni Vandræði í paradís frá árinu 2014 og bendir á að hugmyndin um hinn skulduga mann feli í sér eins konar minningu sem á rót sína í framtíðinni. Ég man og ég mun muna að ég skulda þér svo ég mun haga mér á þann hátt sem gerir mér kleift að endurgreiða þér.
Þessi framtíðarminning, ef svo má að orði komast, var um leið dýrmætt tæki til þess að stýra lífi venjulegs fólks og gera hegðun þess fyrirsjáanlega. Kristnidómurinn fullkomnaði að mörgu leyti þetta fyrirkomulag. Almáttugur Guð á himni fól um leið í sér eilífa skuld þar sem sektarkenndin og samviskubitið yfir því að geta aldrei borgað til baka blómstraði hið innra með hverri manneskju. Skuldin sem í senn hafði völd yfir fortíð og framtíð og hafði svo mikinn siðferðilegan slagkraft varð að mikilvægu og samfélagslegu stjórntæki. Það var aðeins tímaspursmál hvenær hugmyndin um hinn skulduga mann yrði gerð veraldleg og það er engin tilviljun að samfélagið sem við búum í er eins og það er.
Við lifum í samfélagi þar sem það þykir sjálfsagður hluti af lífinu að vera skuldugur og það er svolítið áhugavert að láta hugann reika um hvers vegna það þykir svona sjálfsagt. Bílalán, neytendalán, námslán, bankalán, húsnæðislán. Hvers vegna er það svona algjörlega sjálfsagt að í þessu samfélagi, þessu þróaða og framfarasinnaða velferðarsamfélagi sem við erum svo stolt af, sé hver manneskja víðsfjarri því að eiga fyrir grundvallaratriðum tilvistar sinnar? Hvers vegna er það eðlilegt að líf hverrar manneskju snúist fyrst og fremst um að borga skuldir? Ég skulda, þess vegna er ég.
Markmiðið með lánveitingum er í raun ekki að fá endurgreitt með hagnaði heldur að viðhalda skuldafyrirkomulaginu sem festir skuldarann í fjötrum og tryggir þannig völd lánardrottins yfir honum. Hvað er t.d. uppgreiðslugjald á húsnæðislánum annað en vitnisburður um að bankinn vill helst ekki að þú borgir niður lánið? Í stað þess að gleðjast yfir því að endurheimta peninginn, rukkar hann sérstaklega fyrir að taka við honum aftur. Skuldaranum er refsað fyrir að inna af hendi hlutverk sitt. Hvers vegna? Af því raunverulegt hlutverk skuldunauts er ekki að borga lánardrottni heldur að vera háður honum. Lánakerfið snýst ekki um endurgreiðslu og hagnað heldur völd. Skuldir gera hegðun fólks fyrirsjáanlega. Hin skulduga manneskja þarf að vinna myrkanna á milli í þágu endurgreiðslunnar, drifin áfram af samviskubiti og sektarkennd skuldarans, og hefur þar með minni tíma til þess gera það sem hana lystir til, hugsa um gjörðir sínar og kannski ekki síst kerfið sem umfaðmar líf hennar. Með öðrum orðum, hún er meðfærilegri og meinlausari en annars.
Byrjaðu strax að leggja drögin að eymd þinni
Mér var hugsað til þessa þegar ég sá auglýsingu frá banka í vikunni sem var miðuð að ungu fólki sem vill komast inn á húsnæðismarkað. Eins og allir vita er ástandið á húsnæðismarkaði stjórnlaust þar sem margir af þeim opinberu aðilum — til dæmis lífeyrissjóðir og Reykjavíkurborg — sem ættu með réttu að beita sér fyrir því að ungt fólk geti eignast húsnæði án þess að hneppa sig í rammgert skuldafangelsi hafa þvert á móti stuðlað að hækkun verðs með aðgerðum sínum. Í auglýsingunni stóð „Ekki gefast upp. Það er hægt. Ef þú ert með plan.“ Síðan fylgdu með sögur af fólki sem tókst einhvern tímann í allt að því heiðinni forneskju að kaupa sér íbúð, meðal annars viðtal við mann sem hafði keypt sér sína fyrstu íbúð árið 2001. Bankinn hefði alveg eins getað fjallað um fólk sem keypti sér sitt fyrsta húsnæði á Sturlungaöld eða heyrt í einum af fyrstu eigendum þjóðveldisbæjarins Stangar og spurt hvaða „plan“ viðkomandi var með þegar hann keypti torfbæinn.
Nema hvað, þetta allt saman þýðir auðvitað aðeins eitt. Fjármálakerfið er komið með raunverulegar áhyggjur, ekki af því að ungt fólk geti ekki eignast húsnæði, heldur að ungt fólk geti ekki sett sig í skuldir gagnvart fjármálakerfinu. Í augum fjármálakerfisins er alls ekkert vandamál að fólk skuldi sem mest, þvert á móti er það hið ákjósanlegasta fyrirkomulag, en það stefnir auðvitað í kapítalískt óefni ef ástandið er orðið svo slæmt að fólk getur ekki einu sinni skuldsett sig, það eigi ekki fyrir útborgun, að það sé hreinlega orðið of dýrt að fá að setja sig í skuldir. Kerfið vill að við lifum einmitt á þessum landamærum, að það eins óhagstætt og hugsast getur að eignast húsnæði svo lengi sem það er mögulegt. Það kannski veldur því að venjuleg manneskja getur áratugum saman ekki blásið úr nös vegna álagsins sem felst í því að borga fyrir litla steypuklumpinn sem hún kúldrast í milli vinnudaga, en hún getur að minnsta kosti staðið í skilum og mildað þannig hina kristilegu sektarkennd sem hún gengur með í brjósti gagnvart þeim sem hún skuldar. Hún er hin skulduga manneskja.
En nú á greinilega að fara að gera eitthvað og eins og svo oft þegar kapítalisminn er annars vegar mun vandamálið sjálft færa fram arðbæra lausn á sjálfu sér. Fasteignafélög sem keyptu fjölda íbúða í borginni og snarhækkuðu leiguverðið eru núna að byggja íbúðir. Bjuggu semsagt til vandamál, ómögulegan leigumarkað, og stórgræddu á því og færa svo fram lausnina á vandamálinu og stórgræða á því sömuleiðis. Bankar sem gefa það út að íbúðaverð muni hækka um 30% á næstu þremur árum og stuðla þannig að því að þeir sem vilja eignast íbúð hugsa með sér að það sé best að kaupa núna og þeir sem eru að hugsa um að selja íbúðir hugsa með sér að það sé best að selja ekki núna, semsagt stuðla að því að eftirspurn eykst og framboð minnkar, ætla núna að sannfæra ungt fólk um að ekki sé ennþá öll nótt úti, það geti ennþá fengið að setja sig í skuldir og sannfæringin mun felast í einhverju sem kallast „Plan“, sem er auðvitað ekkert annað en annars konar skuld, einhvers konar táknræn forskuld gagnvart kerfinu þar sem hinn efnilegi skuldari helgar líf sitt því að komast í þá aðstöðu að geta loksins skuldsett sig, semsagt hagar sér eins og hann skuldi til þess að geta fengið að skulda.
Það var eitthvað dásamlega abstrakt og dulið við þessa lausn eins og hún var sett fram. Það kom auðvitað hvergi fram hvað slíkt plan fæli í sér, enda er slíkt plan ekkert plan í raun og veru, heldur er það fyrst og fremst tákn um það hvaða augum við eigum að líta okkur sjálf og eigin tilveru samkvæmt ríkjandi hugmyndafræði. Planið sem bankinn vill setja saman með okkur er áminning um að við séum öll sömul fædd inn í þennan heim sek af öllum ákæruliðum og hlutverk okkar hér á jörðinni sé að endurgreiða tilvistarlega skuld okkar á táknrænan hátt með fjármagni. Það hefur aldrei verið erfiðara að uppfylla þetta hlutverk eins og bankinn bendir á, en lausnin felst að sjálfsögðu ekki í kerfisbreytingum eða róttækum lausnum frekar en venjulega, heldur í vandamálinu sjálfu. Ungt fólk getur ekki sett sig í skuldir á húsnæðismarkaði, en það er ekkert mál, það er einfaldlega fundin upp önnur tegund af skuld til þess að gera þeim það kleift. Líf þess verður hvort sem er ferðlag frá einni skuld til annarrar í tilvistarfljótinu.
Þessi pistill er byggður á útvarpspistli sem fluttur var í þættinum Lestinni á Rás 1, þriðjudaginn 11. apríl síðastliðinn.