Á Alþingi liggur fyrir frumvarp frá þingmönnum sex flokka um að aldursmörk kosningaréttar í sveitarstjórnarkosningum verði við 16 ára aldur í stað 18 ára eins og nú er. Ef frumvarpið verður að lögum fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar árið 2018 munu nærri því 9.000 manns í viðbót fá tækifæri til að hafa með atkvæði sínu áhrif á mikilvægar ákvarðanir sem varða líf þeirra og umhverfi.
Í síðustu kosningum hefur þátttaka ungs fólks verið dræmari en eldri kynslóða. Þetta er sérstakt áhyggjuefni, ekki síst vegna þeirra áskorana sem bíða þessa unga fólks, til dæmis á sviði umhverfismála svo nærtækt dæmi sé nefnt. Til að tryggja að sjálfbærni verði leiðarljós í öllum ákvörðunum þurfa stofnanir samfélagsins að efla samráð sitt við ungt fólk og það er mikilvægt að ungt fólk hafi áhrif á allar ákvarðanir samfélagsins.
Dræm þátttaka ungs fólks var sérstaklega áberandi í síðustu sveitarstjórnarkosningum 2014 þar sem kosningaþátttaka fólks undir þrítugu var 47,5% en meðalkjörsókn 66,5%. Þátttaka var betri bæði í forsetakosningum og alþingiskosningum 2016 enda mikið starf unnið í aðdraganda síðustu þingkosninga til að glæða áhuga ungs fólks. Landssamband æskulýðsfélaga og Samband íslenskra framhaldsskólanema stóðu til dæmis fyrir vitundarvakningu með því að halda fundi ungs fólks um allt land með frambjóðendum og skipuleggja skuggakosningar í framhaldsskólum.
Allvíða hafa verið stigin skref í þá átt að lækka kosningaaldur en misjafnt er eftir ríkjum hversu langt hefur verið gengið. Austurríki var fyrsta landið til að stíga það skref að lækka kosningaaldur í 16 ár í öllum kosningum árið 2007 og kjörgengisaldur í 18 ár nema í forsetakosningum þar sem hann er 35 ár. Annað dæmi um lækkun kosningaaldurs var við þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands árið 2014. Almennt þótti hún takast prýðilega með tilliti til lýðræðislegra sjónarmiða og á grundvelli þessarar jákvæðu reynslu samþykkti skoska þingið með stórauknum meirihluta árið 2015 að lækka kosningaaldur í þing- og sveitarstjórnarkosningum úr 18 árum í 16 ár. Mörg önnur Evrópuríki hafa stigið skref í þessa átt en þing Evrópuráðsins samþykkti árið 2011 ályktun um aukið lýðræði þar sem því er beint til aðildarríkja að gera ráðstafanir til að efla þátttöku ungmenna á vettvangi samfélagsins, m.a. með því að kanna hvort rétt sé að lækka kosningaaldur almennt í 16 ár.
Lýðræði þarf stöðugt að þroska og efla og það er mikilvægt að festast ekki í gömlum aðferðum eða reiða sig á einhverja eina aðferð til að efla lýðræði. Kosningaaldur er eitt en það eru mörg önnur atriði sem skipta máli. Þess vegna var ákveðið að leggja sérstaka áherslu á lýðræðismenntun í aðalnámskrá frá árinu 2011 en þar eru lýðræði og mannréttindi meðal sex grunnþátta aðalnámskrár. Þar er gert ráð fyrir að nemendur kynnist lýðræðislegum vinnubrögðum og lífi og starfi í lýðræðissamfélagi. Mörg dæmi eru um frábær verkefni á þessu sviði á öllum skólastigum, í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum. Það er hins vegar ekki óeðlilegt að þessari auknu áherslu á lýðræðismenntun ungs fólks fylgi líka tæki til aukinnar ábyrgðar og áhrifa með því að lækka kosningaaldurinn. Í frumvarpinu er lagt til varfærið skref, að aldurinn verði lækkaður í 16 ár í sveitarstjórnarkosningum og að mörgu leyti fer vel á því að miða kosningaaldurinn við skil skólastiga.
Um leið stuðlum við vonandi að aukinni þátttöku ungs fólks í stjórnmálum og lýðræðislegri ákvarðanatöku sem er lykilatriði í samfélagi sem þarf á því að halda að við tökum öll þátt og tökum öll ábyrgð.