Stjórnmálamenn dagsins virðast vera nokkuð sammála um mikilvægi umhverfis- og loftslagsmála. Í orði ber mikið á yfirlýsingum um framfarir í umhverfismálum og í baráttu gegn vá vegna ofursnöggra loftslagsbreytinga. Á borði hafa efndir verið heldur þunnar en þó með ljósglætum hér og hvar. Markmið Íslands í loftslagsmálum miða við 2030 og þar er að finna bærilega metnaðarfullar tölur um samdrátt í losun gróðurhúsagasa og aukna bindingu kolefnis að auki. Ef á að ná þeim þarf verulegar fjárhæðir og markmiðsettar og fullfjármagnaðar áætlanir.
Aðgerðir án tafar
Nú er til umræðu á Alþingi svokölluð ríkisfjármálaáætlun en hún rammar inn fjárlög næstu 5 ára. Stjórnarandstaðan, og þá einkum VG, gagnrýna áætlunina, vegna aðhalds við tekjuöflun, of lítilla útgjalda til innviða. umhverfismála og velferðar, og vegna galla á framsetningu nærri 400 síðna tillögu til afgreiðslu þingnefnda og þingsins. Gildisár áætlunarinnar taka til 5 af þeim tæpu 13 árum sem til stefnu, þ.e. til nærri 40% af ráðstöfunartímanum. Augljóslega skiptir miklu máli að hann sé nýttur til hins ítrasta.
Þá er mikilvægt að muna að við og vísindamenn vitum nóg um loftslags- og umhverfisbreytingar vegna hlýnunar til að geta brugðist kröftuglega við. Eytt efnum og tíma í uppbyggilega umræðu, í stöðugar greiningar og loks í 10–15 áætlunargerðir sem beinast að efldum beinum aðgerðum. Endalausar umræður, ásamt orðaskaki við lítinn hóp afneitunarfólks, er ekki lengur í boði ef vel á að fara. Ég legga áherslu á aðgerðir fram yfir tal eða hugræna vinnu, vegna þess hve stutt tímabilið er og við enn langt frá ábyrgum markmiðum.
Mögur áætlun
Í ríkisfjármálaáætluninni eru mörg umhverfismál afgreidd á 10 síðum með 5 megináherslum og 10 markmiðum sem eru mörg góðra gjalda verð, enda vandséð að hægt sé lengur að syndga í þessum málaflokki þegar kemur að endamarkmiðum og jafnvel leiðunum þangað. Allt kostar peninga sem þarna er upp talið. Kostnaðardálkar í 5 töflum á síðunum 10 eru tómir og ekkert hægt að meta í fjármálum áætlunarinnar nema eina tölulínu allra aftast. Þar kemur fram að um þúsund nýjar milljónir ganga til geirans 2018. Það er gott en stóran hluta upphæðarinnar má skýra með gestastofubyggingum í þjóðgörðum en ekki með brýnu rekstrarfé, fé til landvörslu og framkvæmda við stíga, brýr og útsýnisstaði, hvað þá með öðrum framlögum til umhverfismála.
Eftir 2018 lækka framlög milli ára, næstu tvö árin, en hækka síðan tvö síðustu árin um 2–300 milljónir hvort ár. Tvö undanfarin ár hafa heildarframlög til umhverfisgeirans alls, að rekstri stofnana meðtöldum, náð 14–16 milljörðum króna. Vöxtur framlaga þá var of hægur og verður áfram of hægur. Skammt dugar að setja 3–3,5 nýja milljarða á heilum fimm árum jafnt í beinar framkvæmdir við að minnka losun og binda kolefni sem til byggingar í þjóðgörðum og landvörslu, auk reksturs ríkisstofnana er geiranum tilheyra. Þessi upphæð þyrfti að minnsta kosti að vera tvö- til þerföld, jafnvel enn hærri.
Fjármagn er til
Ef kannað er fjármagn sem var veitt til umhverfismála árið 2016 fóru 3,4 milljarðar í náttúruvernd, skóg- og landgræðslu, 3,1 í rannsóknir og vöktun, 3,5 í meðhöndlun úrgangs, varnir gegn náttúruvá hlutu 1,2 milljarða og í stjórnun fóru 3 milljarðar. Ef við leggjum allt saman, að undanþeginni stjórnuninni, eru þetta um 11–12 milljarðar. Síðan skoðum við viðbótina næstu 5 ár, samkvæmt áætluninni. Hún reynist vera um 1,3 milljarðar. Ef við deilum með fimm í upphæðina næst meðaltalið 260 milljónir króna á ári í allan málaflokkinn.
Í samræmi við opinber markmið Íslands er þetta einfaldlega allt of lítið. Það er alveg sama hvernig menn snúa þessum peningum fyrir sér - fárhæðin dugar ekki til. Þar með ganga heldur ekki upp þau markmið sem við höfum sett okkur í loftslags- og umhverfismálum. Bera má þessar tölur upp að svokölluðu útgjalda- eða kostnaðarþaki sem ríkisstjórnin hefur ákveðið, þ.e. 41,5% af vergri landsframleiðslu. Þá er svigrúmið lítið sem ekkert. Sennilega aðeins 0,5% vegna þessað hagspár benda til hámarks hagssveiflunnar um þessar mundir. Hvernig má þá raungera skuldbindingar landsins samkvæmt Parísarsamkomulaginu?
Hvernig sem á er litið verður að finna leiðir til þess að afla fjár til umhverfis- og loftslagsmála. Það er hægt að gera með skattheimtu - skynsamlegri útgjaldaaukningu. Umhverfisráðherra minnist á 100% hækkun kolefnisgjalds en það dugar afar skammt. Til eru fleiri leiðir. Ein felst í að skattleggja auðlindanýtingu t.d. með hærri veiðgjöldum útgerðar yfir vissu aflamarki og hefja slíka innheimtu hjá orkuframfyrirtækjum. Fé til góðra verka er líka hjá ákveðnum þjóðfélagshópum; fólki sem á eignir yfir háum mörkum, eða tekur við um helmingi allra fjármagnstekna (um 1% fjármagnstekjuhafa) o.fl. Peningar til aflögu eru fyrir hendi hjá þeim best settu í samfélaginu. Skattlagning mesta auðs veldur ekki þenslu ef þeim er eytt í innviði og velferð. Hægt er að ná í þessa peninga ef hægri stefnunni er hafnað. Það er engrar undankomu auðið.
Nýsköpun án umtalsverðs vaxtar
Við stjórnmálamenn minnum oft á hve mikilvæg nýsköpun er, hve miklu hún varðar við framvindu samfélagsins. Við tölum af þunga um rannsóknir svo ýta megi undir þróun atvinnuveganna og segjum að þær verði að efla með öllum ráðum. Í ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem er hennar pólitíska hagfræði, er eitt af málefnasviðunum nefnt rannsóknir, nýsköpun og þekkingargreinar. Þar undir eru meðal annars helstu sjóðir sem koma við sögu.
Líka þarna eru sett fram markmið, raunar ein af þeim bólgnu hliðstæðum sem við höfum séð á nokkrum sviðum undanfarin ár. Nú á að gilda að Ísland verði leiðandi á sviði rannsókna og þekkingar. Hvar ætluðum við ekki að vera leiðandi á þessari öld? Undir markmiðið er svo felld aukin framleiðni (!) á þessu sviði, aukin hagnýting og ný störf í þekkingargeiranum. Í töflum um aðgerðir á málasviðinu eru engar fjárhæðir en þeim mun oftar stendur: - Verður forgangsraðað innan ramma. Þá er að skoða rammann aftast í kaflanum um nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar Þar sést að framlög til ársins 2018 lækka um 120 milljón krónur - en eftir það, öll næstu ár til 2022, er meðalhækkun framlaga milli ára 120 milljón krónur, eða sem svarar einbýlishúsi á dýrum stað í höfuðborginni.
Hverju á að forgangsraða og hvar? Hvernig rímar þessi sérkennilega fjárhagsáætlun á umræddu málefnasviði við þarfir samfélagsins - hvað þá þetta undarlega markmið um leiðandi stöðu á heimsvísu? Og hvernig ríma fjársveltir háskólar við markmiðið? Í þessum tölum öllum, og í þeirri stefnu að loftslagsmarkmið og bætt umhverfi náist með tálguhnífinn á lofti, felst kyrkingur, örlagaríkur misskilningur og röng hugmyndafræði. Þvert gegn henni ber að halda því fram með rökum að nýsköpun, rannsóknir og menntun þurfi að stórefla til að ná árangri í sjálfbærum rekstri samfélagsins og í andófi gegn, og aðlögun að, hlýnun jarðar. Í þessum hlutum ríkisfjármálaáætlunarinnar blasir við hve fjarri hún er þörfum samfélagsins og laus við að endurspegla skilning á samtímanum.