„Tálmi það foreldri sem barn býr hjá hinu foreldrinu eða öðrum sem eiga umgengnisrétt samkvæmt úrskurði, dómi, dómssátt foreldra eða samningi þeirra staðfestum af sýslumanni að neyta umgengnisréttar, eða takmarki hann, varðar það fangelsi allt að fimm árum.“
Þessi málsgrein er úr hinu svokallaða „tálmunafrumvarpi“ sem nú liggur fyrir alþingi og er ætluð sem viðbót við barnaverndarlögin. Í 98. grein barnaverndarlaga kemur meðal annars fram að þeir sem að „beita barn kynferðisofbeldi, vanrækja, misþyrma, misbjóða því andlega eða líkamlega geti verið dæmt í allt að fimm ára fangelsi.“ Í frumvarpinu er lagt að jöfnu að tálmun sé jafn alvarlegt og líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi gegn börnum.
Áður en lengra er haldið er gott að hafa eitt á hreinu. Að vera vont við barn er ömurlegt. Ekkert fólk á að vera vont við barn. Í þeirri umræðu sem skapast hefur um tálmunarfrumvarpið hefur engin gengið svo langt að reyna að réttlæta það að vera vont við barn. Þvert á móti, það vilja allir barnið fyrir bestu. En þau sem styðja frumvarpið fara því miður mikinn í yfirlýsingum um að hver sá sem hindri samskipti barns og blóðforeldris sé með því sjálfkrafa að beita barnið „ofbeldi.“
Tálmunarfrumvarpssinnar hafa fram til þessa ekki minnst einu orði á algengustu ástæðuna fyrir beitingu tálmunar. En tálmun er örþrifaráð foreldris sem leitast við að vernda barnið sitt fyrir því sem það telur vera vanræksla eða ofbeldi. Nú á að leitast við að skilgreina það sem refsivert ofbeldi að vernda barnið gegn allskyns ofbeldi.
Það eru mögulega til foreldrar sem eru svo eigingjörn eða jafnvel illgjörn að hindra barnið frá því að hitta ástríkt blóðforeldri vegna einhverra frumstæðra hvata, svo sem hefnigirni eða afbrýðisemi. Hjá þeim möguleika verður ekki litið.
En þegar tálmunarmál eru betur skoðuð kemur í ljós að á baki yfirgnæfandi meirihluta ákvörðunina að tálma annað foreldrið liggur oft ótti, örvænting og vanmáttur umsjárforeldris og, í mörgum tilfellum, barnsins líka. Umsjárforeldrið telur barnið bíða virkilegan skaða af samskiptum við umgengnisforeldri.
Í sumum tilfellum má vissulega reikna með að þær áhyggjur séu óþarfar eða á misskilningi byggðar, og því vænlegra að leita sátta. Í öðrum tilfellum eru áhyggjurnar á rökum reistar og þá er lítið annað til ráða en að beita þeim aðferðum sem í boði er til að verja barnið frá skaða. Tálmun er langt í frá að vera ofbeldi. Tálmun getur verið andsvar við næstum því óviðráðanlegum aðstæðum sem virðist hafa skaðleg áhrif á alla aðila. Þetta er eins og að skólabullan fari að kalla það einelti þegar fórnarlambið hans segir frá eineltinu.
Dómskerfi Íslendinga er því miður ekkert sérstaklega upptekið af því að huga að réttindum barna og umsjárforeldra, sem í flest öllum tilfellum eru konur. Það heyrir til undantekninga að ofbeldi gegn konum og börnum endi í dómum, hvað þá tilfelli vanrækslu.
Það væri betra fyrir alþingi og sérfræðinga að eyða tíma og kröftum í að finna leiðir til að auðvelda umsjárforeldrum að tryggja öryggi barna sinna og til að koma á sáttaferli á milli umsjárforeldar og umgengnisforeldra í tilfellum þar sem slíkt er vænlegt. Það er algjört glapræði að reyna koma á fangelsisrefsingu við einhverju sem í nær öllum tilfellum er lítið annað en örvæntingarfull tilraun til að gæta hagsmuna barnsins.