Alþjóðasamvinna er stórmerkilegt fyrirbæri. Fylgjumst með viðbragðinu við ákvörðun Trumps. Er líklegt að alþjóðasamfélagið taki yfirlýsingu og hugmyndum Trumps vel: að endursemja um loftslagsmál? Í þeim tilgangi að ná fram hagfelldari samningum fyrir mengandi bandarískan iðnað?
Leita má vísbendinga um hver viðbrögðin geta orðið. Ein sú mikilvægasta getur talist forvarnir og fyrirbyggjandi viðbrögð alþjóðasamfélagsins löngu fyrr. Einkum í Parísarsamkomulaginu um skuldbindingar í loftslagsmálum til ársins 2030, sem er haganlega skrifað í samvinnu þjóða heims.
Spólum örstutt til baka: Um það leyti sem Trump mældist með 35 prósenta fylgi meðal kjósenda Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum komu fulltrúar þjóða heims saman í París. Þetta var í desember 2015. Þá var ljóst að mögulegt væri að Trump yrði forsetaefni flokks síns.
Á þeim tíma hafði Trump tjáð og ítrekað þá skoðun sína að loftslagsbreytingar væru blekking. Fundin upp af Kínverjum til að knésetja bandarískan efnahag. Þau orð dæma sig sjálf. Á þeim tíma sem liðinn er hafa skoðanir Trumps lítið sem ekkert breyst.
Skoðum samhengið: Samkvæmt úrsagnarákvæði Parísarsamkomulagsins (28. grein) geta aðildarríki samkomulagsins í fyrsta lagi tilkynnt um úrsögn frá því þremur árum eftir gildistöku þess.
Svo skemmtilega vill til að Parísarsamkomulagið tók gildi 4. nóvember 2016. Það þýðir að bandarísk stjórnvöld geta í fyrsta lagi tilkynnt formlega um úrsögn 4. nóvember 2019.
Til viðbótar líður heilt ár, samkæmt úrsagnarákvæðinu, þar til úrsögn tekur gildi að alþjóðalögum. Hvenær sem er á tímabilinu geta bandarísk stjórnvöld því afturkallað úrsögnina, en gæti það orðið vænlegur valkostur fyrir Trump?
Bandarísk stjórnvöld munu lagalega geta slitið sig frá Parísarsamkomulaginu 4. nóvember 2020. En viti menn: næstu forsetakosningar í Bandaríkjunum verða haldnar 3. nóvember 2020!
Hvað þýðir þetta? Ákvörðun Trumps er gildislaus enn sem komið er. Lagaleg aðild Bandaríkjanna að Parísarsamkomulaginu breytist ekki að alþjóðarétti fyrr en daginn eftir næstu forsetakosningar í Bandaríkjunum.
Þrátt fyrir að áhrif til skamms tíma geti orðið gríðarleg, tryggir ákvörðun Trump fyrst og fremst eftirfarandi: Heimsbyggðin mun í aðdraganda forsetakosninga í Bandaríkjunum 2020 verða vitni að kosningabaráttu sem mun öðrum þræði snúast um loftslagsmál, útblástur, samkeppnishæfni Bandaríkjanna og hvað telst „Great Business“.
Dagsetning formlegrar úrsagnar úr Parísarsamkomulaginu um skuldbindingar í loftslagsmálum til ársins 2030 tryggir það.
Heimsbyggðin hefur orðið vitni að fordæmalausri embættisfærslu Bandaríkjaforseta undir forystu Donalds Trump. Varla var úr háum söðli að falla, en eftir ákvörðun Trumps um úrsögn Bandaríkjanna frá Parísarsamkomulaginu má telja að Trump standi enn veikar fyrir í embætti.
Sagan mun svo leiða í ljós hvort þetta veðmál Trumps hafði áhrif á kjörþokka hans.
Höfundur er stjórnmálafræðingur.