Fyrir nokkrum árum var algegnt heildsöluverð á raforku á þýskum orkumarkaði um 60 EUR/MWst, sem þá jafngilti um 80 USD. Síðan þá hefur þýski raforkumarkaðurinn breyst mikið, m.a. vegna lokunar kjarnorkuvera og þeirrar miklu uppbyggingar sem orðið hefur í framleiðslu á raforku með endurnýjanlegum hætti. Þetta ásamt ýmsu fleiru hefur leitt til nokkuð óvæntrar þróunar á þýska heildsölumarkaðnum með raforku. Í þessari grein er athyglinni beint að því hvernig raforkuverð til stóriðju í Þýskalandi hefur á síðustu árum lækkað verulega.
Miklar breytingar á þýskum raforkumarkaði
Á undanförnum árum hefur heildsöluverð raforku á þýska orkumarkaðnum lækkað mikið og er nú einungis um helmingur þess sem var fyrir nokkrum árum síðan. Á sama tíma hefur uppspretta raforkunnar þar líka breyst mikið. Á aðeins um hálfum áratug tvöfaldaðist hlutfall endurnýjanlegrar raforku í Þýskalandi; fór úr um 15% og í um 30% raforkuframleiðslunnar. Vegna sveiflukenndrar framleiðslu í vind- og sólarorku er þetta hlutfall þó síbreytilegt.
Drifkrafturinn að baki hinni miklu uppbyggingu í endurnýjanlegri raforkuframleiðslu í Þýskalandi var fjárhagslegur stuðningur sem settur var upp af þýska ríkinu. Stór hluti þess stuðnings er svo lagður á raforkunotendur í formi sérstakra orkugjalda, þ.e. grænna skatta sem eru óafturkæfir og eru því bæði greiddir af almenningi og fyrirtækjum.
Grænir orkuskattar ollu mjög háu raforkuverði í Þýskalandi
Þessi grænu skattar eða gjöld urðu til þess að raforkuverð til notenda í Þýskalandi hækkaði mikið. Og varð um leið miklu hærra en sjálft heildsöluverðið með flutningsgjöldum og almennum sköttum. Þýskaland varð þekkt fyrir að vera með eitt hæsta raforkuverð í Evrópu. Staðan var orðin þannig að þýsk iðn- og stóriðjufyrirtæki stóðu frammi fyrir miklum áskorunum í að halda samkeppnishæfni. Mikið tók að bera á umræðu um að slík starfsemi myndi í auknum mæli flytjast frá Þýskalandi og þá einkum vestur um haf þar sem raforkuverð var og er mun lægra.
Stóriðja fékk undanþágur frá tilteknum grænum raforkusköttum
Á síðustu árum hefur sjálft raforkuverðið í Þýskalandi, þ.e. heildsöluverð á rafmagni, lækkað verulega. Vegna hárra umhverfisskatta hefur verðlækkun til notenda þó almennt ekki orðið umtalsverð og hefur verðið til neytandi nokkurn veginn staðið í stað allra síðustu árin (þar sem síauknir skattar hafa mætt lækkandi heildsöluverði á raforku). Hjá flestum þýskum iðnfyrirtækjum hafa því umræddir óafturkræfir grænir skattar valdið því að rafmagnsreikningur þeirra er áfram mjög hár, þrátt fyrir lækkun á sjálfu orkuverðinu (heildsöluverðinu).
Með sérstökum opinberum ráðstöfunum var aftur á móti dregið úr líkum á því að stóriðjustarfsemi myndi flýja hátt þýskt raforkuverð. Það var m.a. gert með því að undanþiggja tiltekna stóriðju í Þýskalandi frá nánast öllum græna orkuskattinum. Fyrir vikið er sú þýska stóriðja nú að greiða miklu minna fyrir raforkuna en iðnfyrirtæki þar í landi almennt gera. Og þess vegna hefur lækkun á heildsöluverði raforku í Þýskalandi orðið til þess að umrædd stóriðja í Þýskalandi er nú að greiða talsvert lægra verð fyrir rafmagnið en var fyrir nokkrum árum síðan.
Lækkandi stóriðjuverð í Evrópu getur dregið úr samkeppnishæfni Íslands
Landsvirkjun kynnti það réttilega á síðasta ársfundi sínum að raforkuverð til notenda í Þýskalandi hafi almennt hækkað frá því sem var, þrátt fyrir mikla lækkun heildsöluverðs þar á raforku. Í þessu sambandi vísaði fyrirtækið til þýska raforkuverðsins með öllum sköttum og grænum gjöldum. Þetta var þó ekki allskostar nákvæmt hjá Landsvirkjun. Því í reynd hefur, eins og sagði hér að framan, raforkureikningur hluta stóriðjunnar í Þýskalandi alls ekki hækkað heldur þvert á móti lækkað frá því sem var fyrir nokkrum árum. Vegna þess að hluti þýsku stóriðjunnar er að mestu undanþegin grænu gjöldunum.
Sú lækkun sem varð á raforkuverði þýskrar stóriðju kom að mestu til eftir að Landsvirkjun mótaði verðstefnu sína á árunum 2010-2011. Þetta vekur upp það álitamál hvort verðlækkunin á þýska heildsölumarkaðnum fyrir rafmagn, ásamt svipaðri verðlækkun á fleiri raforkumörkuðum í Evrópu, geri Landsvirkjun og öðrum íslenskum orkufyrirtækjum nú erfiðara fyrir að halda í óbreytta verðstefnu gagnvart stóriðju hér. Meiri upplýsingar um verðstefnu Landsvirkjunar og þróun raforkuverðs í Evrópu og á Íslandi má sjá á vefsvæði greinarhöfundar á Medium.com.
Grafið hér að ofan sýnir þróun raforkuverðs til almenns iðnaðar í Þýskalandi. Sérstök gjöld vegna grænnar orkustefnu Þjóðverja eru tilgreind sem EEG Contribution á grafinu. Sá hluti (sbr. rauði hringurinn) nemur nú nálægt 40% af raforkuverðinu til iðnfyrirtækja þar í landi. Ýmis stóriðja, eins og t.d. álver, er að mestu undanþegin því að þurfa að greiða þetta gjald og nýtur því miklu lægra raforkuverðs en iðnfyrirtækin almennt.