Saleh, er fjögurra mánaða gamall drengur. Hann þjáist af næringarskorti og berst fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi í Al Hudaydah í Jemen. Nora, móðir hans, er tuttugu og tveggja ára gömul sex barna móðir. Vegna átakanna í landinu hefur hún hvorki getað útvegað hreint drykkjarvatn né brauðfætt börn sín.
Sannkölluð vargöld ríkir í Jemen, þar sem átök, kólera og hungursneyð ógna lífi tuttugu og einnar milljónar manna. Ekki er nóg með að íbúar Jemen þjáist af völdum einnar skæðustu hungursneyðar heims, heldur einnig af mesta kólerufaraldri á byggðu bóli, sem bitnar á hálfri milljón manna.
Hryllingurinn í Jemen er af mannavöldum. Neyðarástandið má rekja til átaka, þar sem þjáningar íbúanna eru vopn í valdatafli og stofnanir sem bjarga mannslífum eru lagðar í rúst. Kólera nær nú til allra stjórnsýslueininga landsins og hefur þegar kostað tvö þúsund mannslíf, þar af eru 40% börn. Lamað heilbrigðiskerfið, kiknar undan álaginu nú þgar glíman við farsóttina er í algleymingi. Sjúkrahús og heilsugæslustöðvar líða fyrir skort á starfsfólki, lyfjum og tækjum.
Óbreyttir borgarar þjást
Í þessum átökum, eins og svo oft áður, eru það óbreyttir borgarar sem verða mest fyrir barðinu á ofbeldi. Frá því í mars 2015 hefur Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna skrásett 13.829 fórnarlömb, þar af eru 5.110 látnir og 8.719 særðir. Líklegar eru tölurnar miklu hærri. Milljónir manna hafa þurft að horfa upp á heimili sín, skóla, markaðstorg og heilu bæina verða eyðileggingu að bráð í sprengju- og stórskotaliðsárásum og þurft að bjarga lífi sínu á flótta á vit óvissrar framtíðar. Helmingur sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva Jemen hefur verið eyðilagður.
Hagkerfi Jemen er í lamasessi og valda óþarfa takmarkanir á neysluvarningi og neyðaraðstoð til landsins þungum búsifjum. Samgöngumannvirki, sem nauðsynleg eru vöruflutningum, hafa verið stórskemmd. Sjötíu af hundraði fyrirtækja hafa orðið að hætta starfsemi. Ein milljón opinberra starfsmanna hefur verið launalaus í meir en tíu mánuði, jafnvel þótt fé hafi verið tilbúið til greiðslu í Seðlabankanum. Tvær milljónir barna hafa flosnað upp úr skóla, og er hætta að sú kynslóð glatist. Og kynferðislegt- og kynbundið ofbeldi hefur aukist til muna.
Þrátt fyrir þennan tröllaukna vanda, hafa 122 mannúðarsamtök – tveir þriðju hlutar innlend almannasamtök- aukið starfsemi sína og teygja nú anga sína til allra stjórnsýslueininga Jemen, og útvega 4.3 milljónum manna matvælaaðstoð.
Ekki nóg að gert
En þetta er ekki nóg. Við hvetjum til þess að aðstoð verði aukin við Jemen og til þess að tryggja að aðstoð berist til nauðstaddra og binda enda á þjáningar, leggjum við áherslu á fjögur atriði.
Í fyrst lagi verður að tryggja mannúðarsamtökum óháðan aðgang til þess að þau geti náð til þeirra sem eiga um sárast að binda, verndað fólk, og bjargað mannslífum.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur ítrekað ákall til stríðandi fylkinga um að binda enda á átökin í Jemen til þess að tryggja örugga og viðvarandi mannúðarastoð og virða alþjóðleg mannúðarlög, eins og fram kom í yfirlýsingu forseta ráðsins 15. júní. Og meðlimir öryggisráðsins lögðu áherslu á í samþykkt 12. júlí að allar fylkingar leggist á eitt til þess að þetta verði að veruleika. Þá er óásættanlegt að hugrakkir sjálfboðaliðar, hjálparstarfsmenn og heilbrigðisstarfsmenn séu skotmörk stríðandi fylkinga. Jafnvel styrjaldir lúta reglum og leiðtogar styrjaldaraðila verða að leggja sig fram við að fylgja þeim.
Kólerufaraldurinn eykur á vandann
Í öðru lagi verða veitendur alþjóðlegrar aðstoðar að standa við fyrirheit sín. Í apríl 2017 héldu ríkisstjórnir Sviss og Svíþjóðar, og Samræmingarskrifstofa mannúðaraðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNOCHA) söfnunarráðstefnu í þágu Jemen, að viðstöddum aðalframkvæmdastjóra SÞ, António Guterres. Alls voru gefin fyrirheit um aðstoð að andvirði 1.1 milljarðs Bandaríkjadala. Þremur fjórðu hlutum þessa fjár hefur verið úthlutað Hins vegar hefur fjárþörfin aukist til muna og nú er talið að það þurfi 2.3 milljarða Bandaríkjadala til að stemma stigu við kostnaði af kólerufaraldrinum og vantar 60% þess fjár.
Þessi fjárskortur þýðir að um líf og dauða er að tefla. Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) sem útvegar 7 milljónum hungraðra matvæli, verður að skera niður matvælasendingar innan mánaðar ef meira fé safnast ekki. Hjálparstofnanir verða að taka fé frá öðrum brýnum og fjársveltum málaflokkum til að mæta kólerufaraldrinum en slíkt gæti grafið undan baráttunni gegn hungurvofunni. Mannslíf eru í veði – það má engan tíma missa.
Mannskæðar hindranir
Í þriðja lagi verða allir deilendur að sjá til þess að hindrunum fyrir innflutningi lífsnauðsynlegs varnings til Jemen, sé rutt úr vegi. Hér skipta matvæli, næringarefni og lyf mestu máli. Halda verður Al Hudaydah-höfn opinni og tryggja öryggi, því þangað berst stærstur hluti innflutnings og mannúðaraðstoðar Jemen. Afnema ber takmarkanir á ferðafrelsi almennings sem leitar sér aðstoðar. Opna ber tafarlaust alþjóðaflugvöll Sana og flugrými yfir Jemen. Þessar lokanir hafa kostað mannslíf því sú aðstoð sem fólkið hefur þurft á að halda hefur verið ófáanleg í landinu.
Koma verður á friði
Þegar öllu er á botninn hvolft mun þjáningum íbúa Jemen ekki ljúka fyrr en byssurnar þagna. Aðalframkvæmdastjóri og Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafa einróma ítrekað þörfina á friði. Við hvetjum alla hlutaðeigandi til þess að leita friðsamlegra lausna með víðtækri þátttöku, þar sem konur eiga fulltrúa frá upphafi til enda. Íbúar Jemen haf þjáðst nóg og við megum ekki láta deigan síga til þess að bjarga mannslífum og vernda tuttugu og eina milljón nauðstaddra – eða meir en þrjá fjórðu hluta alls íbúafjölda Jemen. Það er brýn, sameiginleg siðferðileg skylda okkar, að gera allt sem í okkar valdi stendur til að binda enda á þjáningar þeirra.
Stephen O’Brien er framkvæmdastjóra mannúðarmála Sameinuðu þjóðanna, Margot Wallström er utanríkisráðherra Svíþjóðar og Didier Burkhalter er utanríkisráðherra Sviss.