Rauði krossinn á Íslandi sinnir margvíslegu hjálparstarfi innanlands sem utan. Flest verkefni Rauða krossins eru innanlands og sinna þeim allt í allt um 3000 sjálfboðaliða, en framlag þeirra jafnast á við um 100 stöðugildi á ársgrundvelli samkvæmt nýlegri úttekt.
Öll verkefni Rauða krossins miða að því að koma til móts við þarfir þeirra sem standa höllum fæti í samfélaginu og eiga sér fáa eða enga aðra málsvara.
Eitt af verkefnum Rauða krossins er aðstoð við þá einstaklinga sem óska alþjóðlegrar verndar hérlendis. Því verkefni hefur félagið sinnt síðan árið 1987 en árið 2014 var gerður samningur við innanríkisráðuneytið um umfangsmeiri aðkomu að málefnum þeirra sem óska alþjóðlegrar verndar hérlendis. Hér er um að ræða fjölbreyttan hóp fólks sem kemur frá mörgum ríkjum. Sum eru stríðshrjáð, í öðrum eru stunduð víðtæk og skipulögð mannréttindabrot og í sumum er félagsleg og efnahagsleg staða fólks þannig að það finnur sig knúið að leita tækifæra fyrir sig og fjölskyldu sína annars staðar. Almennt má segja um þá aðila sem hingað koma og óska alþjóðlegrar verndar að það sé gert í góðri trú. Stundum ber þó við að fólk hafi fengið rangar upplýsingar og stundum beinlínis villandi.
Vegna umræðu í samfélaginu um hvað einstaklingum sem hér óska alþjóðlegrar verndar stendur til boða og hvað ekki þykir Rauða krossinum ástæða til að benda á nokkrar staðreyndir um þennan hluta skjólstæðinga sína.
Athugið að þau ganga undir nafninu búsetuúrræði en ekki húsnæði, enda nær húsnæði ekki nógu vel utan um hvers kyns híbýli þetta eru.Hælisleitendur sem komið hafa til Íslands fá þjónustu frá annað hvort sveitarfélagi og/eða Útlendingastofnun. Sveitarfélögin sem veita hælisleitendum þjónustu eru Reykjavík, Reykjanesbær og Hafnarfjörður. Þessir aðilar útvega hælisleitendum búsetuúrræði. Athugið að þau ganga undir nafninu búsetuúrræði en ekki húsnæði, enda nær húsnæði ekki nógu vel utan um hvers kyns híbýli þetta eru. Búsetuúrræðin eru t.d. þannig að um 100 manns búa saman, um 30 herbergi á gangi sem 2-3 deila eða jafnvel heil fjölskylda saman í herbergi, sem er hvorki stórt né íburðarmikið.
Tannlæknaþjónusta sem hælisleitendur á Íslandi fá felst í tveimur valkostum. Annaðhvort taka verkjalyf við tannpínu eða láta draga úr sér tennurnar. Í undantekningartilvikum er gert við tennur í börnum þjáist þau af tannpínu.
Leigubílaþjónusta hefur ekki staðið hælisleitendum til boða nema í neyðartilvikum þar sem um alvarleg veikindi hefur verið að ræða, en ekki svo alvarleg að sjúkrabíl þyrfti til. Hluti hælisleitenda hefur fengið strætókort. Eftir að ný reglugerð um útlendinga tók gildi er óljóst hvernig það verður framvegis. Í búsetuúrræði á Kjalarnesi eru 2 km í næstu strætóstoppistöð og á Ásbrú búa hælisleitendur í iðnaðarhverfi og um tæpur kílómetri er í næstu strætóstoppistöð þaðan.
Lesa má nánar um þau réttindi sem hælisleitendur (umsækjendur um alþjóðlega vernd) hafa í VI. kafla reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Þó er enn óljóst hvernig nokkrir hlutir koma til framkvæmda; í reglugerðinni er t.d. kveðið á um örugg leiksvæði fyrir börn sem ekki hefur komið til framkvæmda og er óljóst hvort og hvenær komist til framkvæmda.
Ljóst er að húsnæðisvandi er mikill á Íslandi. Það er verkefni okkar sem samfélags að leysa úr þeim vanda, öll saman án þess að draga fólk í dilka.Ef umsækjandi um alþjóðlega vernd fær stöðu sem flóttamaður, sem fæstir þeir sem hingað koma fá, þarf hann að yfirgefa þau búsetuúrræði sem honum hefur verið séð fyrir. Ljóst er að húsnæðisvandi er mikill á Íslandi. Margir eru í leit að húsnæði; mæður, feður, eldri borgarar, flóttafólk, Íslendingar, innflytjendur, stúdentar, einstaklingar. Það er verkefni okkar sem samfélags að leysa úr þeim vanda, öll saman án þess að draga fólk í dilka.
Eins og m.a. félags- og jafnréttismálaráðherra hefur bent á eru hagræn áhrif flóttafólks á Íslandi jákvæð fyrir íslenskt samfélag og staðreyndin sú að þau leggja meira til samfélagsins en þau þiggja frá samfélaginu. En það má ekki gleyma því að á bakvið slíkar efnahagslegar tölur er fólk af holdi og blóði sem kemur hingað til lands oft vegna afar erfiðra aðstæðna heima fyrir. Hvort sem um innflytjendur, flóttafólk eða hælisleitendur er að ræða. Fólk er ekki bara tala á blaði og við skulum vanda okkur að ræða ekki aðeins um það á slíkum grundvelli.
Það er mjög ólíklegt að þeir þúsunda Íslendinga sem „flýðu“ Ísland til Vesturheims undir lok 19. aldar og í upphafi þeirrar 20. hefðu fengið hæli sem flóttamenn.Þeir sem ákveða að rífa sig og jafnvel fjölskyldu sína upp með rótum og fara til annars lands og óska þar eftir hæli taka slíka ákvörðun ekki af léttúð. Þeir hælisleitendur sem koma til Íslands hafa gjarnan flúið heimaland sitt eftir stríð, átök, andúð gegn sér og fjölskyldu sinni og hafa óttast um líf sitt. Hingað leitar líka fólk sem ber við aðstæðum sem ekki réttlæta veitingu á stöðu flóttamanns. En höfum í huga að sú skilgreining er afar þröng og sem dæmi má nefna að það er mjög ólíklegt að þeir þúsunda Íslendinga sem „flýðu“ Ísland til Vesturheims undir lok 19. aldar og í upphafi þeirrar 20. hefðu fengið hæli sem flóttamenn. Samt erum við Íslendingar afar stoltir af þessum „löndum“ okkar í Kanada og afkomendum þeirra.
Enginn þarf að horfa lengi á fréttir til að sjá ástandið víðsvegar um heiminn og það er óhugsandi að ímynda sér allt sem fólk annars staðar í heiminum hefur þurft að upplifa. Og síðan er allt það sem fréttirnar sýna ekki; ástandið víðs vegar um heiminn sem heimsbyggðin sýnir engan sérstakan áhuga.
Vissir þú t.d. að stærstu flóttamannabúðir í heiminum eru í Kenía og Úganda og að fátækustu ríki heims hýsa langstærstan hluta þeirra 65 milljón manna sem eru á flótta undan hamförum, stríðsátökum, ofsóknum og fátækt? Við sem samfélag getum gert svo miklu betur og boðið fólk velkomið, sama hvaðan það kemur, hvaða tungumál það talar, hvernig það lítur út.
Hjálpumst að við að finna lausnir á þeim áskorunum sem samfélagið stendur frammi fyrir. Það að hjálpa fólki á ekki og má ekki útiloka aðstoð við neina aðra.
Höfundur er upplýsingafulltrúi Rauða krossins á Íslandi