Um meint lúxuslíf hælisleitenda

„Fólk er ekki bara tala á blaði,“ skrifar Brynhildur Bolladóttir sem vill vandaðari umræðu um flóttafólk og hælisleitendur á Íslandi.

Auglýsing

Rauði kross­inn á Íslandi sinnir marg­vís­legu hjálp­ar­starfi inn­an­lands sem utan. Flest verk­efni Rauða kross­ins eru inn­an­lands og sinna þeim allt í allt um 3000 sjálf­boða­liða, en fram­lag þeirra jafn­ast á við um 100 stöðu­gildi á árs­grund­velli sam­kvæmt nýlegri úttekt.

Öll verk­efni Rauða kross­ins miða að því að koma til móts við þarfir þeirra sem standa höllum fæti í sam­fé­lag­inu og eiga sér fáa eða enga aðra málsvara.

Eitt af verk­efnum Rauða kross­ins er aðstoð við þá ein­stak­linga sem óska alþjóð­legrar verndar hér­lend­is. Því verk­efni hefur félagið sinnt síðan árið 1987 en árið 2014 var gerður samn­ingur við inn­an­rík­is­ráðu­neytið um umfangs­meiri aðkomu að mál­efnum þeirra sem óska alþjóð­legrar verndar hér­lend­is. Hér er um að ræða fjöl­breyttan hóp fólks sem kemur frá mörgum ríkj­um. Sum eru stríðs­hrjáð, í öðrum eru stunduð víð­tæk og skipu­lögð mann­rétt­inda­brot og í sumum er félags­leg og efna­hags­leg staða fólks þannig að það finnur sig knúið að leita tæki­færa fyrir sig og fjöl­skyldu sína ann­ars stað­ar. Almennt má segja um þá aðila sem hingað koma og óska alþjóð­legrar verndar að það sé gert í góðri trú. Stundum ber þó við að fólk hafi fengið rangar upp­lýs­ingar og stundum bein­línis vill­andi.

Auglýsing

Vegna umræðu í sam­fé­lag­inu um hvað ein­stak­lingum sem hér óska alþjóð­legrar verndar stendur til boða og hvað ekki þykir Rauða kross­inum ástæða til að benda á nokkrar stað­reyndir um þennan hluta skjól­stæð­inga sína.

Athugið að þau ganga undir nafn­inu búsetu­úr­ræði en ekki hús­næði, enda nær hús­næði ekki nógu vel utan um hvers kyns híbýli þetta eru.
Hælisleitendur sem komið hafa til Íslands fá þjón­ustu frá annað hvort sveit­ar­fé­lagi og/eða Útlend­inga­stofn­un. Sveit­ar­fé­lögin sem veita hæl­is­leit­endum þjón­ustu eru Reykja­vík, Reykja­nes­bær og Hafn­ar­fjörð­ur. Þessir aðilar útvega hæl­is­leit­endum búsetu­úr­ræði. Athugið að þau ganga undir nafn­inu búsetu­úr­ræði en ekki hús­næði, enda nær hús­næði ekki nógu vel utan um hvers kyns híbýli þetta eru. Búsetu­úr­ræðin eru t.d. þannig að um 100 manns búa sam­an, um 30 her­bergi á gangi sem 2-3 deila eða jafn­vel heil fjöl­skylda saman í her­bergi, sem er hvorki stórt né íburð­ar­mik­ið.

Tann­lækna­þjón­usta sem hæl­is­leit­endur á Íslandi fá felst í tveimur val­kost­um. Ann­að­hvort taka verkja­lyf við tann­pínu eða láta draga úr sér tenn­urn­ar. Í und­an­tekn­ing­ar­til­vikum er gert við tennur í börnum þjá­ist þau af tann­pínu.

Leigu­bíla­þjón­usta hefur ekki staðið hæl­is­leit­endum til boða nema í neyð­ar­til­vikum þar sem um alvar­leg veik­indi hefur verið að ræða, en ekki svo alvar­leg að sjúkra­bíl þyrfti til. Hluti hæl­is­leit­enda hefur fengið strætókort. Eftir að ný reglu­gerð um útlend­inga tók gildi er óljóst hvernig það verður fram­veg­is. Í búsetu­úr­ræði á Kjal­ar­nesi eru 2 km í næstu strætó­stoppi­stöð og á Ásbrú búa hæl­is­leit­endur í iðn­að­ar­hverfi og um tæpur kíló­metri er í næstu strætó­stoppi­stöð það­an.

Lesa má nánar um þau rétt­indi sem hæl­is­leit­endur (um­sækj­endur um alþjóð­lega vernd) hafa í VI. kafla reglu­gerðar um útlend­inga nr. 540/2017. Þó er enn óljóst hvernig nokkrir hlutir koma til fram­kvæmda; í reglu­gerð­inni er t.d. kveðið á um örugg leik­svæði fyrir börn sem ekki hefur komið til fram­kvæmda og er óljóst hvort og hvenær kom­ist til fram­kvæmda.

Ljóst er að hús­næð­is­vandi er mik­ill á Íslandi. Það er verk­efni okkar sem sam­fé­lags að leysa úr þeim vanda, öll saman án þess að draga fólk í dilka.
Ef umsækj­andi um alþjóð­lega vernd fær stöðu sem flótta­mað­ur, sem fæstir þeir sem hingað koma fá, þarf hann að yfir­gefa þau búsetu­úr­ræði sem honum hefur verið séð fyr­ir. Ljóst er að hús­næð­is­vandi er mik­ill á Íslandi. Margir eru í leit að hús­næði; mæð­ur, feð­ur, eldri borg­ar­ar, flótta­fólk, Íslend­ing­ar, inn­flytj­end­ur, stúd­ent­ar, ein­stak­ling­ar. Það er verk­efni okkar sem sam­fé­lags að leysa úr þeim vanda, öll saman án þess að draga fólk í dilka.

Eins og m.a. félags- og jafn­rétt­is­mála­ráð­herra hefur bent á eru hag­ræn áhrif flótta­fólks á Íslandi jákvæð fyrir íslenskt sam­fé­lag og stað­reyndin sú að þau leggja meira til sam­fé­lags­ins en þau þiggja frá sam­fé­lag­inu. En það má ekki gleyma því að á bak­við slíkar efna­hags­legar tölur er fólk af holdi og blóði sem kemur hingað til lands oft vegna afar erf­iðra aðstæðna heima fyr­ir. Hvort sem um inn­flytj­end­ur, flótta­fólk eða hæl­is­leit­endur er að ræða. Fólk er ekki bara tala á blaði og við skulum vanda okkur að ræða ekki aðeins um það á slíkum grund­velli.

Það er mjög ólík­legt að þeir þús­unda Íslend­inga sem „flýðu“ Ísland til Vest­ur­heims undir lok 19. aldar og í upp­hafi þeirrar 20. hefðu fengið hæli sem flóttamenn.
Þeir sem ákveða að rífa sig og jafn­vel fjöl­skyldu sína upp með rótum og fara til ann­ars lands og óska þar eftir hæli taka slíka ákvörðun ekki af létt­úð. Þeir hæl­is­leit­endur sem koma til Íslands hafa gjarnan flúið heima­land sitt eftir stríð, átök, andúð gegn sér og fjöl­skyldu sinni og hafa ótt­ast um líf sitt. Hingað leitar líka fólk sem ber við aðstæðum sem ekki rétt­læta veit­ingu á stöðu flótta­manns. En höfum í huga að sú skil­grein­ing er afar þröng og sem dæmi má nefna að það er mjög ólík­legt að þeir þús­unda Íslend­inga sem „flýðu“ Ísland til Vest­ur­heims undir lok 19. aldar og í upp­hafi þeirrar 20. hefðu fengið hæli sem flótta­menn. Samt erum við Íslend­ingar afar stoltir af þessum „lönd­um“ okkar í Kanada og afkom­endum þeirra.

Eng­inn þarf að horfa lengi á fréttir til að sjá ástandið víðs­vegar um heim­inn og það er óhugs­andi að ímynda sér allt sem fólk ann­ars staðar í heim­inum hefur þurft að upp­lifa. Og síðan er allt það sem frétt­irnar sýna ekki; ástandið víðs vegar um heim­inn sem heims­byggðin sýnir engan sér­stakan áhuga.

Vissir þú t.d. að stærstu flótta­manna­búðir í heim­inum eru í Kenía og Úganda og að fátæk­ustu ríki heims hýsa langstærstan hluta þeirra 65 milljón manna sem eru á flótta undan ham­förum, stríðs­á­tök­um, ofsóknum og fátækt? Við sem sam­fé­lag getum gert svo miklu betur og boðið fólk vel­kom­ið, sama hvaðan það kem­ur, hvaða tungu­mál það tal­ar, hvernig það lítur út.

Hjálp­umst að við að finna lausnir á þeim áskor­unum sem sam­fé­lagið stendur frammi fyr­ir. Það að hjálpa fólki á ekki og má ekki úti­loka aðstoð við neina aðra.

Höf­undur er upp­lýs­inga­full­trúi Rauða kross­ins á Íslandi

Meira úr sama flokkiAðsendar greinar