Hver á að brúa bilið?

Formaður BSRB segir að það þurfi lengja fæðingarorlof í 12 mánuði og að tryggja óskoraðan rétt barna til leikskólavistar þar eftir. Í dag sé 11 mánaða ummönunarbil til staðar.

Auglýsing

Flestir sem þekkja fólk sem á ung börn hafa heyrt sög­urn­ar. Það gengur ekk­ert að fá inni á leik­skóla eftir fæð­ing­ar­or­lof. Það eru engin dag­for­eldri í bæj­ar­fé­lag­inu en mögu­lega kemst barnið inn hjá dag­for­eldri í öðru bæj­ar­fé­lagi eftir hálft ár. Mamman ætlar að lengja orlofið þar sem barnið kemst ekki í dag­vist­un. Hljómar þetta kunn­ug­lega?

Þetta er því miður raun­veru­leik­inn fyrir allt of marga for­eldra. Fæð­ing­ar­or­lofið eru níu mán­uðir sam­an­lagt fyrir báða for­eldra. Að því loknu eru for­eldr­arnir komnir í villta vestrið, þar sem frum­skóg­ar­lög­mál virð­ast ríkja. Sumir eru heppnir og koma sínu barni að hjá dag­for­eldri. Aðrir búa við þá þjón­ustu að bæj­ar­fé­lagið sem þeir búa í tekur við börnum á leik­skóla frá 12 mán­aða aldri og þurfa bara að brúa stutt bil frá því fæð­ing­ar­or­lofi lýk­ur.

En aðrir eru ekki jafn heppn­ir. Nýleg­ar fréttir um unga for­eldra sem sáu sér þann kost vænstan að flytja frá Akur­eyri þar sem barnið komst ekki að hjá dag­for­eldrum færa heim sann­inn um það. Aðrir for­eldrar standa frammi fyrir miklu tekju­tapi þar sem annað for­eldrið þarf að lengja fæð­ing­ar­or­lofið og í mörgum til­vikum vera heima með barnið svo mán­uðum skiptir þar sem engin dag­vist­un­ar­úr­ræði eru í boði.

Auglýsing

Þetta er fal­inn vandi sem verður til þess að annað for­eldrið, í yfir­gnæf­andi fjölda til­vika móð­ir­in, er mun lengur frá vinnu­mark­aði en nauð­syn­legt hefði ver­ið. 

Um 11 mán­aða umönn­un­ar­bil

BSRB gerði nýver­ið úttekt á dag­vist­un­ar­málum í sveit­ar­fé­lögum lands­ins. Sú úttekt leiddi í ljós að mik­ill munur er á þeirri þjón­ustu sem stendur for­eldrum til boða að loknu fæð­ing­ar­or­lofi. Stað­reyndin er sú að börn eru að jafn­aði um 20 mán­aða gömul þegar þau kom­ast inn á leik­skóla. Þar sem fæð­ing­ar­or­lofið er aðeins níu mán­uðir er staðan sú að for­eldrar þurfa að með­al­tali að brúa um 11 mán­aða umönn­un­ar­bil milli fæð­ing­ar­or­lofs og leik­skóla.

Margir eru svo heppnir að börn þeirra kom­ast til­tölu­lega fljótt að hjá dag­for­eldr­um. En það eru engar kvaðir á sveit­ar­fé­lögum að þjón­usta unga for­eldra. Dag­for­eldrar starfa sjálf­stætt og þá er ekki að finna í nema 21 af 74 sveit­ar­fé­lögum í land­inu, en í sveit­ar­fé­lög­unum 21 búa um 88% íbúa lands­ins. Það er hins vegar önnur saga hvort fjöldi dag­for­eldra sé í sam­ræmi við eft­ir­spurn for­eldra. Úttekt BSRB sýnir að sum sveit­ar­fé­lög velta því lítið sem ekk­ert fyrir sér hvernig og hvort for­eldrar nái að brúa bilið milli fæð­ing­ar­or­lofs og leik­skóla. Önnur sveit­ar­fé­lög reyna að tryggja fram­boð dag­for­eldra en segja það erfitt. 

Auð­velt að leysa vand­ann

Vand­inn er öllum ljós en ein­hverra hluta vegna virð­ist standa á því að hann sé leyst­ur. Ein­stök sveit­ar­fé­lög hafa þó tekið við sér og bjóða upp á leik­skóla­vist frá 12 mán­aða aldri. Eins og fram kemur í úttekt BSRB býr tæp­lega fimmt­ungur lands­manna, um 18,4%, í sveit­ar­fé­lögum sem tryggja leik­skóla­vist fyrir börn 12 mán­aða eða yngri.

Önnur sveit­ar­fé­lög hafa lýst vilja til að taka inn yngri börn á leik­skóla en ekki stigið skref­ið. Því er aug­ljóst að ekki ríkir jafn­ræði í þjón­ustu við börn að loknu fæð­ing­ar­or­lofi.

Hér þarf Alþingi að stíga inn í og taka tvö afger­andi skref í þágu jafn­réttis á vinnu­mark­aði til að eyða umönn­un­ar­bil­inu:

  1. Lengja fæð­ing­ar­or­lofið í 12 mán­uði, eins og starfs­hópur um fram­tíð­ar­skipan í fæð­ing­ar­or­lofs­málum gerði að til­lögu sinni til félags­mála­ráð­herra.

  2. Tryggja óskor­aðan rétt barna til leik­skóla­vistar við 12 mán­aða ald­ur, strax að loknu fæð­ing­ar­or­lofi.

Þetta eru hvorki flókin skref né óyf­ir­stíg­an­leg enda hafa þegar sam­bæri­leg skref þegar verið tekin á hinum Norð­ur­lönd­unum þar sem er tryggð sam­fella milli fæð­ing­ar­or­lofs og dag­vist­un­ar­úr­ræð­is. 

Síð­asta heild­stæða umræðan um umönn­un­ar­vanda átti sér stað upp úr 1990. Um það leyti breytt­ist veru­lega þjón­usta gagn­vart barna­fjöl­skyldum og nær öllum börnum var gef­inn kostur á leik­skóla­vist frá tveggja ára aldri. Flestir telja þetta vera eina af meg­in­á­stæðum auk­innar atvinnu­þátt­töku kvenna og þess að þar stöndum við fremst í alþjóð­legum sam­an­burði. Þess vegna er stór­merki­legt að nærri 20 árum síðar hafi þetta kerfi ekki tekið neinum breyt­ing­um, ekk­ert þroskast, í þágu sama mark­miðs. Og það þrátt fyrir að lengi hafi verið ljóst að áhrif þessa fyr­ir­komu­lags séu þau að konur hverfi mun lengur af vinnu­mark­aði en karlar með til­heyr­andi nei­kvæðum áhrifum á stöðu þeirra á vinnu­mark­aði. 

Jöfnum hlut kynj­anna á vinnu­mark­aði

Vanda­málið er ekki bara for­eldr­anna sem þurfa að brúa bilið og sætta sig við enn meira tekju­tap en ella vegna fjar­vista frá vinnu. Við vitum að fæð­ing­ar­tíðni hér á landi hefur minnkað mikið und­an­farið enda ekki allir sem hafa það fjár­hags­lega svig­rúm sem þarf til að eign­ast börn, eða bæta við fleiri börn­um.

Það er vanda­mál fyrir sam­fé­lagið í heild að for­eldrar þurfi að brúa þetta umönn­un­ar­bil. Rann­sóknir sýna að það eru nær ein­göngu mæð­urnar sem taka á sig vinnu­tap þegar börn þeirra kom­ast ekki að hjá dag­for­eldrum eða á leik­skólum að loknu fæð­ing­ar­or­lofi. 

Raunar sýna tölur frá Fæð­ing­ar­or­lofs­sjóði að feður taka síður fæð­ing­ar­or­lof nú en fyrir hrun, og þeir sem taka orlof eru styttra frá vinnu en áður. Með stöð­ugum breyt­ingum á fæð­ing­ar­or­lofs­kerf­inu í kjöl­far hruns­ins voru tekin fjöl­mörg skref aftur á bak hvað þetta varðar og ekki verður séð að smá­vægi­legar hækk­anir á þak­inu yfir margra ára tíma­bil muni færa okkur á sama stað og áður og þaðan af síður að það skili okkur jafnri fæð­ing­ar­or­lofstöku feðra og mæðra. Þegar sem flestir feður tóku fæð­ing­ar­or­lof og lengsta orlofið árið 2008 var það nefni­lega raunin að feður tóku um þrjá mán­uði en mæður tóku 6 mán­uði og eftir þann tíma tók við að brúa umönn­un­ar­bil­ið. Svo þrátt fyrir að taka fæð­ing­ar­or­lofs hafi verið jafn­ari áður meðal kynj­anna hefur hún aldrei verið full­kom­lega jöfn. 

Þessi kyn­bundni munur á fjar­veru frá störfum vegna barn­eigna bitnar á mæðr­un­um, sem fá lægri laun á vinnu­mark­aði, eru álitnar síðri kostur en karlar þegar ráðið er í stöður og eiga minni mögu­leika á fram­gangi í starfi og stjórn­un­ar- og ábyrgð­ar­stöðum en karl­kyns sam­starfs­menn. Þess vegna er það sam­fé­lags­legt verk­efni að breyta fyr­ir­komu­lagi sem nú tryggir að litlu eða engu leyti að báðir for­eldrar fái jafna mögu­leika til þátt­töku á vinnu­mark­aði að loknu fæð­ing­ar­or­lofi. 

Rjúfum þögn­ina og grípum til aðgerða

Alþjóð­legar mæl­ingar sem raða Íslandi í efsta sæti varð­andi jafn­rétti kynj­anna mega ekki verða þess vald­andi að við sofum á verð­inum og teljum stöð­una svo góða að ekki sé þörf á neinum breyt­ing­um. Það er löngu tíma­bært að stjórn­völd rjúfi rúm­lega tveggja ára­tuga þögn um þennan umönn­un­ar­vanda og grípi til aðgerða með því að lengja fæð­ing­ar­or­lofið og eyða umönn­un­ar­bil­inu. 

Höf­undur er for­maður BSRB.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Anna Dóra Antonsdóttir
Rammaáætlun sem sáttargjörð
Kjarninn 17. maí 2022
Tekjur ríkisins af kolefnisgjaldi aldrei verið jafn miklar og í fyrra
Ríkið hefur milljarðatekjur af losun gróðurhúsalofttegunda, bæði frá uppboðum á losunarheimildum og af kolefnisgjaldi. Féð er ekki eyrnamerkt loftslagsaðgerðum en fjármálaráðherra áætlar að framlög til loftslagsmála nemi yfir 15 milljörðum í ár.
Kjarninn 17. maí 2022
Helga Þórðardóttir varaþingmaður Flokks fólksins.
„Stjórnvöld hafa svikið leigjendur“
Leigjendur eru jaðarsettir og algerlega berskjaldaðir fyrir hentistefnu leigusala, segir varaþingmaður Flokks fólksins. Stjórnvöld verði að koma með beinar aðgerðir sem stöðva brjálsemi óhefts markaðar sem stjórnist af græðgi einstaklinga.
Kjarninn 17. maí 2022
Jón Gunnarsson er dómsmálaráðherra.
Ráðherra svarar engu um Samherjamálið þar sem það eigi ekki að lúta „pólitískum afskiptum“
Dómsmálaráðherra segir að embætti sem rannsaki sakamál fái ekki auknar fjárveitingar til að sinna rannsókn tiltekins sakamáls. Á ríkisstjórnarfundi í nóvember 2019 var hugað sérstaklega að fjármögnun rannsóknar héraðssaksóknara á Samherjamálinu.
Kjarninn 17. maí 2022
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri mætti á opinn fund í allsherjar- og menntamálanefnd um fræðslu og menntun lögreglumanna um fjölmenningu og fordóma.
Segir að ekki hafi verið um kynþáttamiðaða löggæslu að ræða
Ríkislögreglustjóri segist harma það að ungur drengur skyldi hafa ítrekað orðið fyrir áreiti við leit lögreglunnar að strokufanga í síðasta mánuði. Þó sé í þessu tilviki ekki um kynþáttamiðaða löggæslu eða afskipti að ræða.
Kjarninn 17. maí 2022
Viðmiðunarverðið á bensínlítra yfir 300 krónur í fyrsta sinn
Hlutur olíufélaga í hverjum seldum bensínlítra er með lægsta móti um þessar mundir þrátt fyrir mjög hátt verð. Það bendir til þess að þau séu ekki að skila hækkunum á heimsmarkaðsverði nema að hluta út í verðlagið.
Kjarninn 17. maí 2022
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lagði fram fjármálaáætlun fyrir árin 2023-2027 í mars.
Spyrja hvort framlögð fjármálaáætlun sé í samræmi við stjórnarsáttmála
ASÍ bendir á það í umsögn sinni við fjármálaáætlun að mjög takmarkað svigrúm sé til aukinna útgjalda næstu árin sem þó er fyrirséð að muni aukast mikið. Vilja efla tekjustofna ríkisins, meðal annars með komugjaldi og hækkun fjármagnstekjuskatts.
Kjarninn 17. maí 2022
Guðmundur Ingi Kristinsson þingflokksformaður Flokks fólksins.
„Á ekki að skila þessum ólöglega ránsfeng?“
Þingflokksformaður Flokks fólksins segir að álag gangi nærri heilsu fólks sem hefur lent í skerðingum á greiðslum. „Er einhver hissa að kvíði, þunglyndi, streita, svefnleysi sé að hrjá þennan hóp í boði ríkisstjórnarinnar?“ spurði hann á þingi í dag.
Kjarninn 16. maí 2022
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar