Allt frá því að nútíma þjóðríkið hóf að þróast á 16. og 17. öld, með Upplýsingunni og þróun hennar, hefur hugtakið ríkisvald verið fyrirferðarmikið í umfjöllun um sögu og stjórnmál Vesturlanda. Þá helst hversu mikið að umfangi ríkisvaldið eigi að vera og hvert hlutverk þess skuli vera. Margir fræðimenn hafa fjallað um þetta, meðal annars John Locke í víðfrægri bók sinni „Ritgerð um ríkisvald“ þar sem hann setur fram hugmyndir sínar um samfélagssáttmálann, á milli þegna og valdhafa.
Önnur fræg kenning er kenningin um þrískiptingu ríkisvaldsins eftir hinn franska Montesquieu. Hún gerir ráð fyrir því að innan hvers ríkis sé valdinu í raun skipt upp í; löggjafar, dóms og framkvæmdavald. Löggjafinn sér um að gera lög, dómsvaldið dæmir og framkvæmdavaldið framkvæmir vilja löggjafans. Um það bil svona hefur þetta verið hjá flestum ríkjum sem vilja telja sig til vestrænna lýðræðisríkja.
Innan ríkisvaldsins eru svo ýmsa stofnanir sem fá allskyns hlutverk og fara eftir vilja löggjafans, t.d. Vegagerð Ríkisins, sem sér um að gera vegi og halda þeim við.
Sé litið yfir sögu hinna ýmsu ríkja er hægt að sjá umfang ríkisins með því að skoða ýmsa hagfræðilega þætti, til dæmis fjölda opinberra starfsmanna. Sovétríkin sálugu (1922 – 1991) dæmi um ríki þar sem Ríkið var allt í öllu – á öllum sviðum samfélagsins, allir vinnandi þegnar þar voru í raun opinberir starfsmenn. Eins og sést hér á ártölunum að framan þá stóð hins sovéska tilraun yfir í tæp 70 ár, eða þar til Sovétríkin voru formlega leyst upp í desember 1991. Sú tilraun gekk ekki upp, en ríkisvald hélt engu að síður að vera áfram til í arftaka Sovétríkjanna, Rússlandi.
Stór opinber kerfi í kringum okkur
Ef við lítum okkur nær, þá er Svíþjóð ef til vill það ríki sem við miðum okkur gjarnan við sem hefur verið með hvað umfangsmestan ríkisrekstur. Það kerfi komst í mikil vandræði í kringum 1990 og raunin varð mikill niðurskurður á opinberum útgjöldum næstu árin. Sem stendur er Svíþjóð með sjötta stærsta opinbera geirann í ESB og lönd eins og Danmörk og Finnland eru einnig með stóran opinberan geira, eða meira en 50% af þjóðarframleiðslu. Hjá Finnum er talan reyndar nær 60% (Europortalen.se).
Ísland hefur einnig fylgt þessu munstri og verið með stóran opinberan geira, þar sem bæði menntakerfi og heilbrigðiskerfi hafa verið að stærstum hluta í umsjón og rekstri hins opinbera. Ef til vill má segja að það sé vegna óformlegs samfélagssáttmála sem gerður var einhvern tímann á 20. öldinni, en dagsetning hans er óljós.
Í grundvallaratriðum er það þannig að vinstrimenn í stjórnmálum eru fylgjandi umfangsmeiri ríkisrekstri en hægri menn. Margir hægri menn líta hins vegar á hið opinbera og hlutverk ríkisvaldsins með efasemdum og í eyrum margra þeirra er orðið „ríkisvald“ og frasinn „hið opinbera“ nánast skammaryrði. Að mati sumra á hægri vængnum á ríkisvaldið í raun bara að halda úti lágmarks þjónustu, halda uppi öryggi og verja íbúana fyrir innrásum erlendra afla, svo dæmi séu tekin. Jafnvel hefur heyrst sú hugmynd hjá sumum hægri mönnum að einkavæða ætti löggæslu.
Um þriðjungur einkavæddur
Á Íslandi er um þessar mundir talið að um einn þriðji hluti heilbrigðiskerfisins sé og hafi verið einkavæddur. Árið 2016 voru framkvæmd um 1.6 milljarður læknisverka og af þeim var um hálf milljón framkvæmd af einkaaðilum, eða um 32% (heimild; DV). Kostnaðarþátttaka almennings hefur einnig stóraukist, en í grein sem birtist eftir Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur árið 2016, stjórnsýslufræðing, kemur fram að kostnaðarþátttaka sjúklinga í kostnaði við sérfræðiþjónustu sé kominn upp í allt að 40%. Í grein í Kvennablaðinu, þar sem vitnað var í skýrslu frá ASÍ frá árinu 2016, kom fram að kostnaðarþátttaka sjúklinga í heilbrigðiskerfinu hefur tvöfaldast á um 30 ára tímabili.
Í grein Sigurbjargar kom einnig fram að frá 1990 hefur hlutur sérfræðinga í heilbrigðiskerfinu vaxið stöðugt. Um helmingur sérfræðinga nú starfar utan ríkiskerfisins, sem allt frá árinu 2000, eða jafnvel fyrr, hefur þurft að lifa við nánast stöðugan niðurskurð. Kröfur almennings um aukið fjármagn til málaflokksins, meðal annars undirskriftir 85.000 manna, hafa að stórum hluta verið hunsaðar. Það dugði einu sinni ekki til og segir þetta ansi mikið um ástandið á íslensku lýðræði og afstöðu stjórnvalda til óska almennings.
Þarf hundruð milljarða í innviði
Samtök Iðnaðarins birtu fyrir skömmu tölur um þörfina á fjárfestingum og viðhaldi í svokölluðum innviðum samfélagsins (vegakerfi, dreifi og fráveitukerfi, flugvellir og slíkt). Þar kemur fram að þörfin er rúmlega þrjú hundruð milljarðar króna. Hvernig gat þetta farið svona?
Það er nánast sama hvar borið er niður í „kerfum“ landsins, alls staðar virðist sagan vera sú sama; niðurskurður og grotnun kerfa. Vel má vera að settir hafi verið „plástrar“ hér og þar, t.d. með fyrirhugaðri byggingu nýs hátæknisjúkrahúss, en það reiknast samt ekki sem aukin þjónusta, því þjónustan er veitt af vinnandi fólki. Löggæsla er gott dæmi, en í skýrslu frá Innanríkisráðuneytinu frá 2012 um stöðuna í málefnum löggæslu segir meðal annars:
„Mannfæð og fjárskortur lögreglu hefur leitt til þess að lögreglan er hætt að sinna fjölmörgum verkefnum og möguleikar á að skipuleggja sérstök átaksverkefni og þjálfun eru nánast engir. Frumkvæðislöggæsla hefur því dregist verulega saman og störf lögreglunnar við að halda uppi allsherjarreglu, gæta almannaöryggis og stemma stigu við afbrotum hefur skerst verulega.“ Þar kemur einnig fram að á árunum 2007-2012 hefur lögreglumönnum fækkað um 81 lögreglumann. Heildar ársverk við löggæslu voru á árinu 2007 um 730, en voru komin niður í 643 árið 2011. Þá kemur einnig fram að búnaður til að taka á alvarlegum glæpum og fleiru sé mjög takmarkaður.
Eitt fremsta og mikilvægasta hlutverk ríkisvalds er að gæta öryggis íbúanna. Árið 2016 voru 643 starfandi lögreglumenn á landinu, en þyrftu að vera um 840 samkvæmt mati Landssambands lögreglumanna. Í nýrri skýrslu um skipulagða glæpastarfsemi kemur einnig fram að verkefnum lögreglu hefur fjölgað, að skortur sé á rannsóknarlögreglumönnum og að lögreglan glími við aukið álag.
Annað kerfi sem hefur svo undanfarin ár er menntakerfið, en það er í raun efni í aðra grein. Nægir að nefna að rektor eftir rektor hjá Háskóla Íslands hefur kvartað á opinberum vettvangi yfir fjármögnun skólans, en það er eins og talað sé fyrir daufum eyrum.
Brostið ríkisvald
Saga ríkisvalds hér á landi virðist því vera saga um brostið ríkisvald, hvers virkni hefur verið að gera líf borgaranna og þegnanna verra heldur en betra. Þetta er einnig saga ríkisvalds sem hefur verið að koma af sér verkefnum, t.d. rekstri grunnskólanna yfir á lítil og vanmáttug sveitarfélög. Og vill koma af sér fleiri verkefnum, til dæmis öldrunarþjónustu, en þjónusta við fatlaða hefur nú þegar verið færð frá ríki til sveitarfélaga.
Á sama tíma eru skattar ekki lækkaðir í samræmi við minni þjónustu og samdrátt, en af hverjum 100 krónum borga Íslendingar 34 í skatta, samkvæmt OECD. Þá vaknar sú spurning; hvað verður um peningana? Ef sífellt er verið að skera niður opinbera þjónustu og kostnaður almennings að aukast, ætti þá ekki að lækka skatta á móti? Hvers vegna á fólk að vera að borga sömu skattana, en svo í sífellu að vera að borga fyrir þjónustu?
Öflugt ríkisvald – hví ekki?
Hvers vegna er ekki hægt að hafa öflugt og stöndugt ríkisvald sem veitir þegnunum gott líf, eða að minnsta grundvöll fyrir góðu lífi? Hvers vegna þarf sífellt að vera að mylja utan úr ríkisvaldinu, veikja það og gera það vanmáttugt um að sjá um verkefnin? Er það gert til þess að geta hvatt til leiks riddara einkavæðingarinnar? Þannig að skattfé almennings geti runnið í prívat vasa? Landlæknir sendi frá sér yfirlýsingu síðastliðið vor þar sem hann varar við aukinni einkavæðingu og segir hana auka hættuna á stjórnleysi í ráðstöfun almannafjár til heilbrigðismála og að hún geti leitt til stefnuleysis í málaflokknum.
Hvernig væri að snúa vörn í sókn og styrkja ríkisvaldið á Íslandi, í stað þess að vera sífellt að mylja það sundur? Það er ekkert sem í raun ætti að vera að styrkingu þess, svo lengi sem það beitir þegnana ekki ofbeldi. Íslendingar vilja opinbera þjónustu á helstu sviðum samfélagsins, þetta sýna kannanir, meðal annars frá BSRB og Félagsvísindastofnun, en þar kom fram í nýrri könnun að um 92% landsmanna vilja setja meira fé í heilbrigðismál (ruv.is).
Sögur um að fólk hafi ekki efni á lyfjum, læknis og tannlæknisheimsóknum eru sögur sem við viljum ekki heyra. Og almenningur er orðinn verulega þreyttur á sífelldum niðurskurði. Ísland er lítið land þar sem nándin er mikil, en Ísland er líka ríkt land þar sem til er nóg af peningum, en kökunni er ranglega skipt. Því þarf að breyta.
Höfundur er stjórnmálafræðingur og starfar sem kennari við Fjölbrautaskólann í Garðabæ.