Ég er konan sem studdi og samþykkti nýtt aðalskipulag. Ég er virkur þátttakandi í aðförinni að einkabílnum. Ég vil fleiri göngugötur og fleiri hjólastíga. Ég fæ í magann af spenningi þegar ég labba um miðborgina og sé uppbygginguna og ég er hrifin af rísandi Hafnartorgi. Ég studdi og samþykkti breytingar á Borgartúninu. Ég elska breyttan Grensásveg. Ég vil sjá borgina vaxa, stækka og dafna – ég vil þéttingu byggðar.
Þétting byggðar er flókið hugtak og á einhverjum tímapunkti hefur þetta hugtak fengið á sig neikvæða merkingu þar sem dreginn er upp mynd af kommúnista blokkum í bakgörðum marglitra timburhúsa. Í baráttunni við þéttingu byggðar er fólk tilbúið að gera sér upp söknuð á malarplönum, húsgrunnum og illa skipulögðum bílastæðum. Neikvæðu raddirnar eru oft háværar og fara mikinn í að bera út þann boðskap að verið sé að eyðileggja og rústa borginni. Ég held stundum að þeir sem eru stóryrtastir búi ekki í þessari borg – borgin var hálfkláruð og illa frágengin en fæðist nú sem fullbyggð borg. Ég sé götur rammast inn og miðborgina stækka. Ég sé þjónustu glæðast úti í hverfum. Ég sé skjól og borg sem gerir okkur kleift að njóta rýmisins á milli húsanna. Því uppbygging borgarinnar er beinn en oft dulinn ávinningur þéttingar byggðarinnar.
Ef borgin var barn og er nú á leið inn í fullorðinsár þá erum við líklega á seinni hluta gelgjunnar núna og gelgjan er öllum erfið. Lokaðar götur, sprengingar, sandfok og yfirgnæfandi byggingakranar geta verið erfiðir nágrannar. En líkt og slæm húð og skapsveiflur þá eru þetta óumflýjanlegir fylgifiskar og sem betur fer bara tímabundnir. Með því að byggja í útjaðri borgarinnar og halda áfram að þenja út byggðina þá hverfa þessi vandamál eða færast hið minnsta fjær okkur. En þroskinn hverfur með, í stað þess að sjá endurnýjun gatna í gömlum hverfum eru lagðar nýjar götur á grænni grundu. Í stað hornhúsa sem nú rísa á gömlum malarplönum verður til nýtt hverfi á öðrum stað. Þetta hverfi þarf síðan að þjónusta og byggja upp með nýjum strætóleiðum, nýjum gangstéttum, nýjum skólum og leikskólum og þessi sameiginlegi kostnaður fer á borgina.
Útþennsla borgarinnar er stefna sem hugnast mér ekki. Ég vil þéttingu byggðar og uppbyggingu borgarinnar. Ég vil efla borgina innan þeirra marka sem hún er. Endurgera götur og torg. Efla þjónustu í þegar byggðum hverfum. Halda áfram með það stórátak seinustu ára í endurgerð skólalóða. Treysta almenningssamgöngur og skála svo fyrir þessari æðislegu borg í Mathöllinni á Hlemmi sem er að mínu mati táknmynd fyrir hina nýju Reykjavík sem nú er loksins að verða stór.
Höfundur er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.