Grafið hér að neðan sýnir þróun raforkuverðs Landsvirkjunar til álveranna þriggja s.l. tíu ár. Eins og sjá má hækkaði raforkuverðið 2017 nokkuð frá árinu á undan. Ástæðan er fyrst og fremst hækkandi álverð. Álverið í Straumsvík greiðir hæsta orkuverðið. Árið 2019 mun raforkuverðið til Norðuráls í Hvalfirði breytast töluvert og sennilega hækka verulega. Álver Fjarðaáls á Reyðarfirði mun aftur á móti njóta mjög lágs orkuverðs enn um sinn og þá vafalítið verða það álver í heiminum sem greiðir eitthvert allra lægsta verð fyrir raforkuna.
Hækkandi álverð hækkaði raforkuverðið
Verð á áli var hærra árið 2017 en næstu árin þar á undan. Raforkusamningar Landsvirkjunar og annarra íslenska orkufyrirtækja við álver Norðuráls (Century Aluminum) og Fjarðaáls (Alcoa) eru tengdir álverði. Árið 2017 fengu orkufyrirtækin því hærra verð fyrir hverja selda raforkueiningu þar en næstu árin á undan. Sömuleiðis hækkaði raforkuverðið til álvers ÍSAL í Straumsvík (Rio Tinto) lítillega, en þar er orkuverðið tengt við bandaríska neysluvísitölu (CPI).
Grundvallarbreyting árið 2010
Bóluárið 2008 var verð á áli einstaklega hátt og Landsvirkjun naut þess í formi óvenju hárra tekna fyrir hverja selda MWst til álveranna. Þetta sést vel á grafinu, þar sem 2008 sker sig úr. Síðan lækkaði álverð og um leið tók raforkuverðið dýfu. En með nýjum orkusamningi við álverið í Straumsvík árið 2010 hækkaði raforkuverðið þar verulega eins og glögglega má sjá á grafinu (græna súlan). Og hefur síðan þá hækkað rólega í takt við bandaríska neysluvísitölu.
Hækkandi verð framundan fyrir Norðurál
Árið 2019 gengur í gildi nýr samningur Landsvirkjunar og Norðuráls. Þá mun raforkuverðið til Norðuráls taka mið af markaðsverði á norræna raforkumarkaðnum (Elspot á NordPool Spot). Ekki er unnt að vita fyrirfram hvert orkuverðið verður í norrænu raforkukauphöllinni þá, en ólíklegt er að það verði mikið undir jafngildi 35 USD/MWst. Það er því fremur líklegt að verðið til Norðuráls (rauða súlan) muni þá nálgast verðið sem ÍSAL greiðir. Sem verður mjög mikil hækkun frá núverandi orkuverði Norðuráls.
Endurskoðun á orkuverði Fjarðaáls 2028 gæti orðið mikilvæg
Norðurál er reyndar einungis með raforkusamning við Landsvirkjun fram á 2023 og því ekki mjög langt í að þar þurfi að endursemja. Árið 2028 kemur svo að endurskoðun á raforkuverðinu til Alcoa, en samningurinn um magn raforkusölunnar þar gildir fram á 2048. Miðað við þróun raforkuverðs til álvera má gera ráð fyrir einhverri og jafnvel umtalsverðri hækkun við endurskoðunina 2028. Loks gildir raforkusamningur Landsvirkjunar og ÍSAL til 2036, en endurmeta á raforkuverðið skv. þeim samningi árið 2024.
Óvissa um verð á áli er ennþá verulegur áhrifaþáttur
Líklegt er að á komandi árum muni álverssamningarnir oftast skila Landsvirkjun vaxandi tekjum. Þarna hefur þróun álverðs þó ennþá veruleg áhrif á raforkuverðið og því er töluverð óvissa um hvernig tekjur Landsvirkjunar þróast frá einu ári til annars. Og ennþá er mikil offjárfesting fyrir hendi í kínverska áliðnaðinum og því alltaf nokkur hætta á niðursveiflu álverðs.
Sveiflur á álverði hafa líka mikil áhrif á hin tvö orkufyrirtækin sem selja rafmagn til álveranna, þ.e. Orku náttúrunnar (Orkuveita Reykjavíkur) og HS Orku. Þess má geta að raforkuverðið sem þau fá frá Norðuráli er sennilega örlítið hærra en það sem Landsvirkjun hefur verið að fá, en talsvert mikið lægra en meðalverðið sem álverin nú greiða Landsvirkjun. Þarna er staða Landsvirkjunar því sterk og fyrirtækið með mikla yfirburði gagnvart öðrum raforkufyrirtækjum á Íslandi.