Frétt um að Íslendingar eigi engin einkaleyfi á sviði jarðvarmavinnslu á meðan erlendir aðilar eiga skráða nokkra tugi einkaleyfa og umsókna um einkaleyfi hér á landi hefur vakið mikla athygli. Þarf að hafa áhyggjur af þessu? Fyrst ber þess að geta að þau einkaleyfi sem hér um ræðir eru einkaleyfi á tilteknum uppfinningum („patent”) en ekki einkaleyfi á jarðvarmavinnslu sem slíkri. Til að fá einkaleyfi þarf uppfinning að vera áður óþekkt og frumleg þegar umsókn um einkaleyfið er lögð fram.
Einkaleyfi sem fást samþykkt eru tímabundin réttindi og geta gilt að hámarki í 20 ár, en þarf að skrá í hverju landi fyrir sig. Einkaleyfi veita ekki sjálfkrafa rétt til nýtingar á uppfinningu heldur veita þau rétt til að stöðva aðra frá því að nýta uppfinninguna án leyfis einkaleyfishafans.
Einkaleyfi útlendinga
Erlend fyrirtæki sækja um og skrá einkaleyfi hér á landi fyrir nýjungum og uppfinningum sem þau telja að geti komið að gagni hér. Alveg með sama hætti og fyrirtæki eins og Marel og Össur vernda sínar vörur með einkaleyfum á mikilvægum mörkuðum vilja fyrirtæki sem þróa tæki og aðferðir til orkuvinnslu vernda slíkt á Íslandi, þar sem hér er mikilvægur markaður fyrir þau. Ef þau myndu ekki verja sínar uppfinningar hér væri íslenskum aðilum frjálst að nota þeirra uppfinningar, smíða sér eftirlíkingar af tækjum og nýta aðferðir sem e.t.v. nytu einkaleyfaverndar annars staðar.
Þrátt fyrir að erlendir aðilar sæki í auknum mæli um einkaleyfi hér ættu íslensk jarðvarmaorkuver að geta stundað orkuframleiðslu eins og verið hefur, án þess að einhver geti krafist leyfisgjalda. En ef orkuverin vilja tileinka sér nýjungar þarf að gæta að því hvort þær njóti verndar, og jafnvel þótt nýjar aðferðir hafi verið þróaðar hér getur annar aðili hafa þróað það sama áður eða samhliða og sótt um vernd hér á landi.
Ættu Íslendingar að sækja um einkaleyfi í jarðorkugeira?
Íslensk fyrirtæki þurfa ekki frekar en þau vilja að sækja um einkaleyfi fyrir nýjungum sem hér verða til, það er hverjum frjálst sem stundar rannsóknir og þróun. Einkaleyfi geta hins vegar nýst til að auka verðmæti þeirra nýjunga og afurða sem rannsóknir og þróun skila og gefið samkeppnisforskot á keppinauta. Þó svo orkuvinnsla úr jarðhita sé flókin og sérhæfð er orkan sem slík ekki hátækniafurð og hver kílóvattstund verður bara seld einu sinni. Íslenskar verkfræðistofur hafa vissulega vaxið og dafnað í krafti eftirsóttrar þekkingar og samkeppnishæfni, en þeirra hugvit hefur fyrst og fremst skilað þeim tekjum í formi útseldrar vinnu.
Til að hámarka þau verðmæti sem felast í hugviti og nýsköpun þarf meira til. Fyrirtæki sem standa framarlega í þessum geira og stunda rannsóknir og þróun eða leysa tæknileg vandamál með nýjum hætti ættu að íhuga vel möguleika á að vernda sín hugverk. Það getur skapað grundvöll fyrir því að slíkar uppfinningar séu nýttar úti í heimi og skili að auki arði hingað heim. Það gildir ekkert síður um opinber fyrirtæki og stofnanir sem hljóta að hafa að markmiði að fjárfesting í rannsóknum og þróun skili sem mestum samfélagslegum og fjárhagslegum ábata.
Höfundur starfar sem einkaleyfaráðgjafi.