Talsvert hefur borið á umræðu um lífeyrissjóði og hvaða breytingar þurfi að gera á þeim, bæði á vettvangi stjórnmála en einnig innan verkalýðshreyfingarinnar. Í þessari umræðu hefur verið áberandi skortur á rödd ungs fólks. Það er e.t.v. ekki skrítið, lífeyrismál eru hagsmunamál aldraðra og órafjarri hversdagslífi yngstu kynslóðanna. Rödd ungs fólks hlýtur þó að skipta máli í þessari umræðu enda munu þær breytingar sem helst eru til umræðu hafa víðtæk áhrif á kjör þeirra.
Söfnunarkerfi eða gegnumstreymiskerfi?
Á Íslandi er og hefur verið svokallað söfnunarkerfi við fjármögnun á ellilífeyri. Það þýðir í grófum dráttum að hver einstaklingur borgar hluta af laununum sínum í lífeyrissjóð á meðan viðkomandi er á atvinnumarkaði, þessi hluti launa er svo tekinn saman í fjárfestingasjóð sem ávaxtar hann. Þegar einhver hættir svo að vinna, vanalega í kringum 67 ára aldur, fær sá einstaklingur greiddan lífeyri úr sjóðnum í samræmi við hve mikið hann hefur lagt til sjóðsins (sem aftur er í samræmi við hversu háar tekjur viðkomandi hafði á lífsleiðinni). Í stærra samhengi þýðir þetta að hver kynslóð fjármagnar sinn eigin lífeyri.
Það að söfnunarsjóðsleiðin varð fyrir valinu í upphafi er merkilegt fyrir þær sakir að þetta er hugsanlega eina skrásetta tilvikið þar sem Íslendingar hafa sýnt meiri fyrirhyggju en nágrannaþjóðir okkar í Evrópu. Þar er á mörgum stöðum svokallað gegnumstreymiskerfi, en eins og nafnið gefur til kynna er þá ellilífeyrir hverrar kynslóðar fjármagnaður með peningum frá þeim sem eru þá á vinnumarkaði, oftast með skattlagningu og greiðslum úr almannatryggingakerfi hverrar þjóðar. Þetta er að mörgu leyti óheppilegt, aðallega vegna þess að sú kynslóð sem nú fer að nálgast lífeyrisaldur er ógnarstór miðað við aðrar kynslóðir, og það mun reynast komandi kynslóðum æ þyngri baggi að standa undir mannsæmandi lífeyriskerfi með hækkandi meðalaldri.
Á Íslandi er jafnframt öllum á ellilífeyrisaldri tryggður lágmarkslífeyrir úr almannatryggingakerfinu. Það þýðir að þeim sem af einhverri ástæðu náðu ekki að leggja nóg inn í sjóðina á lífsleiðinni er tryggt lágmarkslífsviðurværi með greiðslum frá Tryggingastofnun ríksins, s.s. gegnumstreymiskerfi. Hinsvegar er það þannig að lágmarkslífeyrinn skerðist ef sá sem þiggur hann fær samtímis greitt úr lífeyrissjóðum eða greidd laun. Þessi skerðing hefur verið tilefni til mikillar umræðu síðustu misseri, sumir hafa jafnvel lagt það til að skerðingin verði afnumin í heild sinni.
Afnám allra skerðinga innleiðir í raun gegnumstreymiskerfi ofan á söfnunarkerfið. Aðgerðin yrði dýr núna, en kostnaðurinn kæmi til með að aukast talsvert þegar stóru kynslóðirnar sem nú eru á vinnumarkaði setjast í helgan stein. Ábatinn af þeirri fyrirhyggju sem Íslendingar eitt sinn sýndu myndi þurrkast út á einu bretti, með gríðarlegum kostnaði fyrir okkur sem nú erum í námi eða að stíga okkar fyrstu skref á vinnumarkaði. Greiðslur frá almannatryggingum eru ekki, og eiga ekki að vera borgaralaun fyrir ellilífeyrisþega, heldur eiga að tryggja þeim sem ekki fá greiddan ellilífeyri með öðrum leiðum framfærslu á ævikvöldi. Séu allar skerðingar afnumdar mun það gerast að fólk sem er í sterkri fjárhagslegri stöðu fengi greiðslur úr almannatryggingakerfinu, ofan á háar lífeyrisgreiðslur eða laun.
Að stelast í kökukrukkuna
Önnur krafa sem haldið hefur verið á lofti er að nota það fjármagn sem bundið er í lífeyrissjóðum í eitthvað annað en að ávaxta það með markvissum hætti. Það er erfitt að sjá allan þennan pening án þess að freistast til að nota hann í ýmis þjóðþrifamál, t.d. til að byggja íbúðir án hagnaðarsjónarmiða eða borga út ungu fólki fyrir innborgun á íbúð. Þá erum við þó komin á hálan ís, enda alveg klárt að lífeyrissjóðirnir sinna nú þegar samfélagslegu verkefni: að tryggja öllum tekjur á eldri árum. Til þess að það sé raunhæft að sjóðirnir sinni sínu hlutverki þurfa þeir að ávaxta fé sitt með fullnægjandi hætti, en sé fjármagninu beitt til að t.d. byggja upp húsnæði án gróðasjónarmiða í of miklum mæli getur það gerst að sjóðirnir eiga ekki nóg til greiða út lífeyri þegar þar að kemur. Raunvextir hafa farið lækkandi á Íslandi undanfarna áratugi og bitnar það á ávöxtun lífeyrissjóða, en vegna þess er ljóst að ef eitthvað er nú minna rými til að stelast í kökukrukkuna en nokkurn tímann áður.
Sjálfbær, mannsæmandi ellilífeyrir
Íslenska lífeyrissjóðakerfið er ekki fullkomið. Ýmislegt má bæta, og er hávær krafa eldri borgara vísbending um að kerfið er ekki að virka sem skyldi. Staðreyndin er þó að heilt yfir standa eldri borgarar nokkuð vel, en árið 2016 var miðgildi eigna í aldurshópnum 67 ára og eldri 34,4 milljónir en miðgildi skulda fyrir sama aldurshóp 400 þúsund. Almennt má því segja að eldri borgarar eiga mikið af eignum en lítið af skuldum. Þó er ljóst af málflutningi eldri borgara að hluti ellilífeyrisþega býr ekki við fullnægjandi framfærslu enda er hún ekki tryggð með því einu að eiga skuldlausa fasteign. Að tryggja öllum lífeyrisþegum fullnægjandi framfærslu er gert með því að hækka fjárhæð lágmarkslífeyrisins, ekki með að afnema skerðingu á honum. Það er jafnframt sjálfbært að því leyti að þá eru stóru kynslóðirnar enn á vinnumarkaði til að aðstoða við að standa undir kostnaðinum þar til að okkar unga lífeyriskerfi hefur tekið út fullan þroska og getur staðið fyllilega undir sínu verkefni.
Það er okkar skylda sem samfélag að tryggja öllum áhyggjulaust ævikvöld. Við gerum það með því að taka á vandanum þar sem helst kreppir í skóinn, með aga og framsýni, en ekki með því að senda reikning dagsins í dag til framtíðarinnar.
Greinarhöfundur er laganemi og verður fundarstjóri á fundi Bandalags háskólamanna og Landssamtaka íslenskra stúdenta á Litla-Torgi í Háskóla Íslands í hádeginu á morgun, þriðjudag 6. mars. Fundurinn ber yfirskriftina „Og hvað svo? Fyrstu skrefin á vinnumarkaði“.