Niðurstöður stærstu rannsóknar sem gerð hefur verið á dreifingu rangra og misvísandi upplýsinga á samfélagsmiðlum var gerð af vísindamönnum MIT háskólans í Bandaríkjunum og birtust í tímaritinu Science í mars sl. Rannsakaðar voru fréttir á ensku sem dreift var á samfélagsmiðlinum Twitter á tíu ára tímabili, þ.e. 126.000 fréttir sem miðlað var af þremur milljónum notenda.
Niðurstöðurnar sýndu að staðleysur eða falsfréttir breiðast út sex sinnum hraðar, að meðaltali, en réttar upplýsingar og staðreyndar fréttir. Rangar og misvísandi fréttir ferðast hraðar, fara víðar og hafa meiri áhrif í samfélagsmiðlum en fréttir sem standast faglegar kröfur. Falsfréttir dreifast hraðar en staðreyndir í öllum málaflokkum sem skoðaðir voru. Má þar nefna viðskiptafréttir, fréttir af hryðjuverkum og stríði, tækni- og vísindafréttir og afþreyingarefni. Rannsóknin sýndi að falsfréttir um stjórnmál dreifast þó best. Jafnframt kom í ljós að Twitter-notendur kjósa heldur að dreifa falsfréttum en réttum upplýsingum. Notendur voru 70% líklegri til að dreifa falsfréttum en faglegum fréttum. Niðurstöðurnar eru taldar gefa vísbendingar um að umfang og dreifing falsfrétta geti verið sambærileg í öðrum miðlum eins og Facebook og YouTube.
Notkun yrkja (e. bots) er víðtæk og er m.a. ætlað að styrkja ákveðin sjónarmið og til að dreifa falsfréttum á Twitter. Yrkjar eru hugbúnaður sem ætlað er að framkvæma einföld og endurtekin verkefni eins og síendurtekna dreifingu efnis. Engu að síður eru notendur Twitter ennþá líklegastir til að dreifa falsfréttum þótt dreifing yrkja á slíkum „fréttum“ sé að sönnu mjög víðtæk. Líklegt er að hröð dreifing falsfrétta hafi því eitthvað með mannlegt eðli að gera.
Vísindasamfélagið hefur nú þegar brugðist við þessum sláandi niðurstöðum. Í sama tölublaði Science kölluðu 16 stjórnmálafræðingar og lögfræðingar eftir víðtækum rannsóknum með það að markmiði að endurhanna upplýsingakerfi 21. aldar. Kallað var eftir þverfaglegum rannsóknum til að draga úr útbreiðslu falsfrétta og til að takast á við undirliggjandi og skaðleg áhrif samfélagsmiðlanotkunar sem komið hafi í ljós. Spurt var hvernig hægt væri að stuðla að fréttamiðlun sem gæfi staðreyndum meira vægi en falsfréttum.
Hinn mannlegi þáttur
Með fréttaflutningi og upplýsingamiðlun er ekki aðeins staðreyndum komið á framfæri við almenning, heldur er um að ræða boðskipti þar sem ákveðnum gildum eða frásögn er jafnframt miðlað. Upplýsingar og fréttir hreyfa oft tilfinningalega við fólki. Rannsóknir sýna að sérstaklega er auðvelt að ná til fólks með því að virkja reiði og hræðslu. Einnig er auðvelt að virkja þá tilfinningu að við höfum einhvers konar yfirburði yfir aðra hópa. Því kemur ekki á óvart að upplýsingar sem tengja okkur við „ættbálkinn” geti framkallað sterkar tilfinningar. Það ræðst af gildum og lífsskoðunum hvers og eins hvort „ættbálkurinn“ tekur til ákveðins kynstofns, þjóðar, fólks með ákveðna trú eða lífsskoðun, fólks með ákveðna kynhneigð eða fólks með ákveðnar stjórnmálaskoðanir.
Rannsóknir sýna einnig að fólk túlkar staðreyndir með ólíkum hætti ef þær ógna lífsskoðunum þess, gildum eða hópnum sem það telur sig tilheyra (e. motivated reasoning). Fólk er því líklegra til að deila fréttum sem styðja við lífsskoðanir og gildi þeirra en leitar frekar staðfestingar á því að fréttir séu rangar ef þær grafa undan lífsviðhorfum þeirra og gildum.
Niðurstöður rannsókna varpa einnig ljósi á það af hverju sumar fréttir í fjölmiðlum og í samfélagsmiðlum kalla oftar á hatursfull ummæli í athugasemdakerfum en aðrar. Fréttir sem kalla á mikil og oft hatursfull viðbrögð eru m.a. fréttir af trúarbrögðum, flóttafólki, jafnréttismálum og stjórnmálum.
Svokölluðum tröllaverksmiðjum (e. troll factories) er ætlað að auka áhrifin í samfélagslegri umræðu. Hugtakið tröllaverksmiðja vísar til þess að nettröll eru ráðin til starfa á launum við að dreifa staðleysum eða haturstali með það að markmiði að hafa áhrif á almenningsálitið. Í rannsóknum hefur komið í ljós að notkun bæði yrkja og tröllaverksmiðja hefur haft veruleg áhrif á skoðanamótun almennings í aðdraganda kosninga í Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi. Einnig í opinberri umfjöllun um stefnumótun stjórnvalda í ólíkum málum og þegar um stjórnarkreppu er að ræða.
Í nýlegri danskri rannsókn var sýnt fram á að það skiptir máli hver setur ummæli fram. Í ljós kom að ummæli beinast helst að stjórnmálamönnum, múslimum og öðrum trúarhópum, ákveðnum kynþáttum og konum. Þeir hópar sem hatursorðræðan beinist gegn eru jafnframt líklegri til að stunda annað hvort sjálfsritskoðun eða hætta þátttöku í samfélagslegri umræðu.
Þeir sem hafa hagsmuni af því að breiða út falsfréttir og staðleysur vita hvort tveggja, hvers konar efni vekur sterk tilfinningaleg viðbrögð hjá almenningi og hvernig setja á fram skilaboð til að þau hafi áhrif. Þannig þurfa skilaboðin að höfða til almennings með sjónrænum hætti, búa yfir áhrifamikilli frásögn og fela í sér endurtekningu. Rannsóknir sýna að því oftar sem upplýsingar eru endurteknar því líklegra er að þeim sé trúað (e. illusory truth effect). Það sama gildir um ótrúverðugar upplýsingar. Endurtekning er því mikilvæg til að skilaboð og falsfréttir hafi tilætluð áhrif. Þá er einnig þekkt að myndir og myndbönd eru líklegri til að fá dreifingu í algóriþmum samfélagsmiðlanna en texti.
Víðtæk söfnun persónuupplýsinga
Allt sem við gerum á netinu skilur eftir sig stafræn spor. Hundruð milljóna manna skilja eftir sig gríðarlegt magn upplýsinga, svokallaða gagnagnótt (e. big data). Allt sem við leitum að í leitarvélum, allt sem við líkum við á Facebook, allt sem við kaupum á netinu eru gögn sem hægt er að nota og greina. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum geyma fyrirtæki eins og Google og Facebook einnig upplýsingar um staðsetningu notenda á hverjum tíma, hvaða smáforrit notuð eru, hvaða símtöl og SMS send hafa verið, til hverra, hvenær og hversu lengi símtölin stóðu yfir. Þá er einnig líkleg að fyrirtækin hafi upplýsingar um tölvupósta sem skrifaðir hafa verið, hvenær notandi vaknar og hvenær hann fer að sofa.
Segja má að aldrei í sögunni hafi verið safnað svo umfangsmiklum upplýsingum um jafn margt fólk. Netnotendur vita almennt að allt sem þeir gera skilur eftir sig stafræn spor, en þeir gera sér sjaldnast grein fyrir því hvernig þessar upplýsingar er nýttar og af hverjum.
Í nýlegum fréttum The New York Times og The Guardian kom í ljós að fyrirtækið Cambridge Analytica eyddi tæplega einni milljón Bandaríkjadala til kaupa á gögnum 50 milljóna Facebook-notenda sem notuð voru til að smíða gagnagrunn sem ætlað var að spá fyrir um stjórnmálaskoðanir og kosningaþátttöku. Upplýsingarnar sem fengust frá notendum voru notaðar til að smíða algóriþma sem greindi Facebook-síður einstaklinganna með tilliti til persónuleikaeinkenna þeirra. Flókin greiningaraðferðin gat að jafnaði spáð fyrir um kynþátt með 95% vissu, hægt var að segja til um stjórnmálaskoðanir með 85% vissu og greina trúarskoðanir með 82% vissu. Rannsakendur leituðu einnig eftir því að greina m.a. kynhneigð, gáfnafar og notkun áfengis og vímuefna. Algóriþmanum og gagnagrunninum var ætlað að vera öflugt tæki í kosningum þar sem markmiðið var að finna óákveðna kjósendur og sníða skilaboð sem líkleg voru til að hafa áhrif á þá á grundvelli persónuleikaeinkenna þeirra.
Aðferðin sem notuð var fól í sér að bera saman Facebook „like“ notenda við niðurstöður persónuleikaprófsins OCEAN (sem stendur fyrir Openness, Conscientiousness, Extraversion, Agreeableness, and Neuroticism). Í prófinu er m.a. athugað hvort fólk er opið fyrir nýrri reynslu, er vinnusamt, skipulagt, félagslynt, hefur samúð með öðrum eða hvort það er áhyggjufullt. Þannig gátu vísindamenn spáð fyrir um m.a. kyn, persónuleikaeinkenni og stjórnmálaskoðanir með nokkuð nákvæmum hætti. Vísindamennirnir sem stóðu að verkefninu telja að með upplýsingum um tíu „like“ notanda á Facebook geti módelið „þekkt“ notandann betur en samstarfsmaður hans. Með því að hafa upplýsingar um 70 „like“ geti módelið „þekkt“ Facebook-notanda betur en vinur. Með því að greina 150 „like“ geti módelið „þekkt“ Facebook-notanda betur en foreldrar viðkomandi. Með 300 „like“ geti módelið betur spáð fyrir um Facebook-notandann en maki hans og með enn fleiri „like“ geti módelið spáð betur fyrir um notandann en hann geti gert sjálfur.
Með sama hætti og gögnin sýndu að þeim sem líkuðu við MAC snyrtivörurnar væru líklegir til að vera samkynhneigðir, þá voru karlar, sem líkaði við bandaríska bílaframleiðendur á Facebook, líklegir til að vera repúblíkanar. Gögnin sýndu einnig að yngri Facebook notendur eru íhaldsamari en þeir eldri.
Þó að búið sé að safna gögnum um fólk í áratugi með það að leiðarljósi að greina markhópa til að markaðsetja vörur og þjónustu með nákvæmari hætti hefur ýmislegt breyst með tilkomu gagnagnóttar og notkunar samfélagsmiðla. Í fyrsta lagi hefur aldrei verið safnað jafn miklum gögnum, þ.m.t. viðkvæmum persónuupplýsingum. Til slíkra upplýsinga teljast m.a. upplýsingar um uppruna, litarhátt, kynþátt, stjórnmálaskoðanir og trúar- eða aðrar lífsskoðanir. Einnig upplýsingar um kynlíf manna og kynhegðan, svo og lyfja-, áfengis og vímuefnanotkun.
Í öðru lagi virðast bergmálsherbergi (e. echo chambers) og síubólur (e. filter bubbles) hafa mikil áhrif á samfélagsumræðu og hvernig almenningur mótar sér skoðun. Þetta ástand hefur skapast þar sem algóriþmi samfélagsmiðlanna er þannig úr garði gerður að hann færir notendum efni sem þeim líkar best í fréttaveitur þeirra og þannig myndast síubólur. Fréttirnar og skilaboðin sem birtast almenningi staðfesta því ákveðna heimsmynd og geta fest hana enn frekar í sessi. Bergmálsherbergi gefa notendum öryggi. Þau veita öruggt rými til að deila viðhorfum og heimsmynd án þess að notendur eigi á hættu að lenda í árekstrum við þá sem eru á öndverðum meiði. Rannsóknir sýna jafnframt að upplýsingar sem staðfesta gildi fólks og lífsviðhorf framkalla dópamín áhrif í líkamanum sem veita vellíðan.
Í þriðja lagi er erfiðara að afhjúpa rangfærslur þegar um myndir eða myndbrot er að ræða sem birtast og dreifast aðeins hjá tilteknum notendum. Endurteknar upplýsingar virðast styrkja heimsmynd þeirra sem skilaboðunum er beint að. Því virðist dreifing slíkra upplýsinga geta stuðlað að „pólaríseruðu“ samfélagi.
Nýleg rannsókn sýnir að auglýsendur fá 63% fleiri smelli á auglýsingar sínar og allt að 1400% meiri umfjöllun á Facebook með því að sníða auglýsingarnar að persónuleika viðkomandi á grundvelli OCEAN greiningarinnar. Slíkar niðurstöður eru ekki aðeins ánægjulegar fyrir fyrirtæki sem vilja selja vörur og þjónustu, heldur eru þær einnig áhugaverðar fyrir stjórnmálaflokka, ríkisstjórnir erlendra ríkja, hagsmunaaðila og aðra sem vilja hafa aukin skoðanamótandi áhrif í samfélaginu.
Auglýsingar á samfélagsmiðlum
Í lok árs 2017 var áætlað að um 25% af auglýsingatekjum á heimsvísu rynnu til Facebook og Google. Á meðan sjálfstæðir fjölmiðlar sem sinna faglegri blaðamennsku og eru grundvöllur hvers lýðræðisríkis eiga undir högg að sækja vegna minnkandi auglýsingatekna þá auglýsa sífellt fleiri fyrirtæki og stofnanir hjá stóru bandarísku upplýsingarisunum. Ástæðurnar eru einkum þær að notendur Facebook og Google skipta milljörðum og hægt er að beina auglýsingum að mjög afmörkuðum hópum sem byggja á greiningu þeirra upplýsinga sem miðlarnir hafa safnað um notendur sína. Auk þess geta auglýsendur prófað sig áfram með mismunandi tegundir af sömu auglýsingu á Facebook til að kanna hver þeirra hefur tilætluð áhrif.
Facebook býður upp á sérstaka tegund auglýsinga sem kölluð er „dark posts“. Þessar auglýsingar birtast ekki á Facebook síðu þess sem auglýsir og gefur auglýsendum kost á að höfða til mjög afmarkaðra hópa með skilaboð sín. Auglýsingin birtist aðeins hjá fyrirfram skilgreindum markhópum og eftir birtingu hverfur auglýsingin sporlaust. Facebook lenti í nokkurri orrahríð á árinu 2016 þegar í ljós kom að auglýsendur útilokuðu ýmsa hópa þegar þeir birtu húsnæðis- og atvinnuauglýsingar og auglýsingar um lánakjör. Hóparnir sem voru útilokaðir voru m.a. svartir og spænskumælandi Bandaríkjamenn en slík mismunun á grundvelli litarháttar eða uppruna er ólögleg í Bandaríkjunum og víðar.
Stjórnmálamenn hafa löngum reynt að höfða til kjósenda með ólíkum hætti. En með tilkomu samfélagsmiðla er auðveldara að búa til klæðskerasniðin skilaboð, sem ekki eru ætluð öllum almenningi, heldur ætluð hópum sem eru sérstaklega móttækilegir fyrir þeim. Tæknin er einnig áhugaverð fyrir hagsmunaaðila, erlend ríki og aðra sem vilja hafa áhrif á almenningsálitið.
Annar mikilvægur möguleiki á Facebook er að auglýsendur geta búið til ólíkar útgáfur af sömu auglýsingu (e. A/B testing) til að kanna áhrif þeirra á ákveðna markhópa. Kosningateymi Trump forseta prófaði um 40.000 – 50.000 mismunandi útgáfur af auglýsingum og skilaboðum á dag á Facebook í aðdraganda bandarísku kosninganna. Kannað var hvaða útgáfur kæmu best út og væru líklegastar til að vekja viðbrögð og hafa áhrif á notendur. Skoðað var m.a. hvort texti ætti að fylgja skilaboðunum, hvort myndbrot hefðu meiri áhrif en myndir, hvaða litir, leturgerð og aðrir þættir hefðu tilætluð áhrif. Kosningateymi Trump prófaði 175.000 mismunandi útgáfur af auglýsingum á dag þegar mest var.
Gervigreind notuð til búa til og dreifa falsfréttum
Gervigreind er notuð með fjölbreyttum og margvíslegum hætti í daglegu lífi. Verið er að þróa sjálfkeyrandi bíla og flestir þekkja Siri og Alexu sem hafa verið hannaðar til að aðstoða iPhone og Amazon notendur. Sumir segja að notkun gervigreindar muni hafa svo mikil áhrif í náinni framtíð að hún muni hrinda af stað nýrri samfélagslegri byltingu.
Gervigreind er ekki hættuleg í sjálfu sér en við ákveðnar aðstæður getur hún haft neikvæð samfélagsleg áhrif. Nú er t.d. hægt að taka upp rödd manneskju og láta röddina segja eitthvað allt annað án þess að hægt sé að merkja muninn. Verið er að þróa tækni sem gerir það að verkum að hægt verður að breyta því sem einstaklingar segja í beinum útsendingum á rauntíma. Bráðlega verður jafnframt hægt að að setja saman myndbrot af atburðum með trúverðugum hætti líkt og atburðurinn hafi raunverulega átt sér stað. Spyrja má hvernig notendur muni geta greint rétt frá röngu og vitað hvað eru falsfréttir þegar slík tækni hefur hafið innreið sína að fullu. Bent hefur verið á að þess konar falsfréttir eru nú þegar farnar að sjást og muni væntanlega dreifast á ógnarhraða í síubólum og bergmálsherbergjum notenda samfélagsmiðla.
Í nýlegri rannsókn Jonathan Albright við Columbia háskóla kom í ljós að efni sem unnið er með notkun gervigreindar er í auknum mæli farið að birtast á YouTube. Niðurstöðurnar sýndu að gervigreind er í auknum mæli notuð til að búa til YouTube myndbönd með það að markmiði að framleiða áróðursmyndbönd og dreifa þeim. Með notkun gervigreindar er hægt að greina þær fréttir og það efni sem er efst á baugi á samfélagsmiðlum hverju sinni. Gervigreind er jafnframt notuð til að para saman myndbönd og texta á netinu við tölvustýrða talsetningu. Albright komst að því að ein slík áróðursvél bjó til og hlóð upp 80.000 myndböndum á 19 mismunandi YouTube rásum á aðeins nokkrum dögum. Niðurstöðurnar sýndu að slíkar áróðursvélar hlaða upp falsfréttum í formi myndbanda að meðaltali á nokkurra mínútna fresti á YouTube. Það kemur því ekki á óvart að slíkar áróðursvélar gangi undir nafninu „FakeTube“.
Hvernig hafa fyrirtæki og stjórnvöld brugðist við?
Mikil umræða hefur verið á síðustu misserum um dreifingu falsfrétta, áhrif samfélagsmiðla og nýtingu persónuupplýsinga til að hafa áhrif á almenning. Lengst af hefur verið fjallað um hvern afmarkaðan þátt fyrir sig og vangaveltur verið um hvernig hægt er að sporna gegn neikvæðri þróun á tilteknu sviði. Það er ekki fyrr en nýlega að farið var að skoða þróunina í samhengi. Ástæðan er sú að með því að samþætta falsfréttir, persónuupplýsingar, notkun yrkja og tröllaverksmiðja, gervigreind og samfélagsmiðla virðast áhrifin margfaldast. Í raun er ómögulegt að segja til um hvaða áhrif þetta hefur á lýðræði og samfélagsþróun til lengri tíma.
Þegar tilteknum skilaboðum er beint að einstaklingum á samfélagsmiðlum má segja að vegið sé úr launsátri. Skilaboðunum er ætlað að vekja sem mest áhrif og birtast á þeim tíma þegar fólk er móttækilegast. Sjaldnast áttar almenningur sig á því að skilaboðin eru klæðskerasaumuð.
Mikill þrýstingur er nú á forsvarsmenn samfélagsmiðla að breyta algóriþmum sínum til að minnka dreifingu falsfrétta. Þá vinna samfélagsmiðlar að því með fjölmiðlum að greina falsfréttir og koma á framfæri réttum upplýsingum og staðreyndum. Verið er að ráða fleira starfsfólk til að yfirfara fréttir og fylgjast með athugasemdakerfum miðlanna. Facebook hefur tilkynnt að óskað verði eftir ítarlegri upplýsingum um kaupendur pólitískra auglýsinga. Einnig hafa verið boðaðar breytingar á því hvernig persónuupplýsingum er safnað og hverjir fái aðgang að slíkum upplýsingum.
Stjórnvöld, bæði vestan hafs og austan, hafa einnig brugðist við. Í október 2017 lögðu þrír öldungadeildarþingmenn á Bandaríkjaþingi fram lagafrumvarp sem felur í sér að upplýsa þurfi um hverjir standi að baki pólitískum auglýsingum á samfélagsmiðlum og í leitarvélum (e. Honest Ads Act). Ástæðan er einkum sú að nettröll á vegum rússneskra yfirvalda keyptu auglýsingar á Facebook fyrir andvirði 100.000 dala í aðdraganda forsetakosninganna 2016. Alvarlegt þykir að stjórnvöld erlendra ríkja reyni að hafa áhrif á kosningar í lýðræðisríkjum.
Í mörgum ríkjum Austur-Evrópu og í Finnlandi hafa verið settar á laggirnar sérstakar verkefnastjórnir sem ætlað er að vinna gegn dreifingu falsfrétta og efla vitund almennings um þá þróun sem á sér stað. Ástæðan er ekki síst sú að komið hefur í ljós að rússnesk stjórnvöld starfrækja tröllaverksmiðlur víða í Evrópu, m.a. í Finnlandi, Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Er nettröllunum ætlað að sá fræjum tortryggni gagnvart lýðræði á Vesturlöndum og eru þau talin ógna þjóðaröryggi ríkjanna.
Sett voru tímamótalög í Þýskalandi á síðasta ári (þ. Netzwerkdurchsetzungsgesetz). Samkvæmt lögunum þurftu allir samfélagsmiðlar frá og með 1. janúar 2018 að hafa aðlagað sig löggjöfinni sem er ætlað að fækka hatursfullum ummælum og dreifingu falsfrétta. Jafnframt tilkynnti Emmanuell Macron, forseti Frakklands, um það í áramótaávarpi sínu nú í janúar að sett verði lög sem ætlað er að draga úr dreifingu falsfrétta í landinu. Svipuð löggjöf er í bígerð á Írlandi. Áætlað er að ný reglugerð um persónuvernd sem tekur gildi á EES-svæðinu í maí hafi áhrif á það hvernig gögnum er safnað og unnið er úr þeim. Á það hefur jafnframt verið bent að áhrif reglugerðarinnar ráðist af því hvort stjórnvöld í aðildarríkjunum verði nægilega tilbúin til að fylgja henni eftir.
Evrópusambandið hefur sett í forgang verkefni til að greina stöðuna og vinna að tillögum sem hafa það að markmiði að minnka dreifingu falsfrétta og áróðurs í aðildarríkjunum. Í janúar á þessu ári tilkynnti forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven, að fyrirhugað væri að setja á laggirniar nýja stofnun sem ætlað er að styrkja sálfræðilegar varnir ríkisins og koma í veg fyrir að hægt verði með kerfisbundnum hætti að hafa áhrif á sænskan almenning (s. Myndigheten för psykologiskt försvar). Stofnuninni er ætlað að verja hið opna sænska samfélag og lýðræðið.
Til umhugsunar fyrir kosningar
Almennt er litið svo á að í opnu lýðræðissamfélagi móti almenningur sér skoðun með því að vera þátttakandi í upplýstri og opinni umræðu. Þar gegna fjölmiðlar mikilvægu hlutverki. Lýðræðið byggist á þeirri hugmynd að ákvarðanir séu teknar á upplýstum grundvelli. Í því sambandi skipti mestu máli staðreyndir, rannsóknir, rök og skynsemi. Hefur svo verið allt frá dögum upplýsingarinnar. Í aðdraganda kosninga setja frambjóðendur og flokkar því fram stefnumál sín sem almenningur getur tekið afstöðu til og þannig gert upp hug sinn.
Með tilkomu falsfrétta og auglýsinga á samfélagsmiðlum sem sniðnar eru að gildum og lífsviðhorfum einstaklinga hættir lýðræðisumræðan að verða opin. Fólk byggir afstöðu sína í auknum mæli á upplýsingum sem beint er að því. Hætta er á því að viðhorf manna til málefna fari að byggjast á tilfinningalegri afstöðu fremur en staðreyndum. Auðvelt er að koma á framfæri mismunandi skilaboðum til ólíkra hópa, skilaboðum sem ekki er víst að séu rétt eða byggð á staðreyndum. Vera kann að aðferðir sem notaðar eru í kosningabaráttu verði ekki kunnar fyrr en að loknum kosningum.
Sú spurning er áleitin hvort kosningaúrslit munu í auknum mæli ráðast af aðgangi frambjóðenda að sérfræðingum sem geta sérsniðið auglýsingar og áróður. Eins er spurt hvort kosningaúrslit muni einnig ráðast af gervigreind og tröllaverksmiðjum sem ætlað er að hafa áhrif á ákveðna hópa og þagga niður í öðrum.
Margt bendir til að samþætting samfélagsmiðla, falsfrétta og gervigreindar sé eitruð blanda fyrir lýðræðið og okkar opna samfélag. Því eru margvíslegar ástæður fyrir því að sífellt fleiri kalla eftir því að upplýsingakerfi 21. aldar verði endurhannað. Kominn er tími til að stjórnvöld og almenningur á Íslandi átti sig á þeirri hröðu þróun sem orðið hefur og hvaða áhrif hún getur haft á allt samfélagið.
Höfundur er framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar.