Í gær óskuðu 11 þingmenn eftir skriflegri skýrslu utanríkisráðherra, í samvinnu við samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, um framkvæmd og ábyrgð á alþjóðlegum skuldbindingum Íslands er varða leyfisveitingar eða undanþágur vegna vopnaflutninga. Þingmennirnir óskuðu eftir því að dregin yrði fram framkvæmd, ábyrgð og verkferlar ráðuneytisins, og annarra ráðuneyta og stofnana, um veitingar á leyfum og undanþágum til vopnaflutninga um íslenska lofthelgi eða til íslenskra aðila sem starfa á alþjóðavettvangi. Auk þess óskuðu þeir eftir að skýrt yrði hvernig stjórnvöld framfylgja því þegar Ísland undirgengst alþjóðlegar skuldbindingar varðandi vopnaviðskipti eða vopnaflutninga, svo sem viðskiptabann alþjóðastofnana, alþjóðlega samninga og sáttmála, ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og ályktanir Evrópuráðsins.
Í því samhengi vill undirritaður vekja athygli á fjórum atriðum er koma ekki fram með beinum hætti í skýrslubeiðninni. Undirritaður er þeirrar skoðunar að taka verði þessi fjögur atriði til skoðunar, ef Alþingi ákveður að ráðast í skýrslugerðina, til að fá sem skýrustu mynd á málið.
Eftirlitsskylda - Vopnasamningurinn
Í viðtali við fjölmiðla um vopnaflutninga Air Atlanta, í kjölfar umfjöllunar fréttaskýringaþáttsins Kveiks, kom fram í máli forstjóra Samgöngustofu, sem hefur farið með stjórnsýslu umræddra leyfisveitinga, að stofnunin hefði hvorki þekkingu á vopnum né alþjóðamálum. Það eru nokkuð áhugaverð ummæli m.a. vegna þess að samkvæmt 5. mgr. 5. gr. Vopnasamningsins hvílir sú skylda á aðildarríkjum hans að setja á laggirnar hæf og valdbær innlend stjórnvöld til að hafa skilvirkt og gegnsætt innlent eftirlitskerfi sem setur reglur um flutninga á hefðbundnum vopnum (e. conventional arms), skotfærum og búnaði í samræmi við ákvæði samningsins þar um. Í 14. gr. samningsins er svo ákvæði sem kveður á um að aðildarríkin skuli grípa til viðeigandi aðgerða til að framfylgja innlendri löggjöf og reglugerðum sem innleiða ákvæði samningsins í landsrétt. Íslensk ríkið varð fyrst allra ríkja til að gerast aðili að samningnum og öðlaðist hann gildi í lok árs 2014. Vegna ummæla forstjóra Samgöngustofu hlýtur efi að vera til staðar um hvort íslenska ríkið hafi staðið við umræddar skuldbindingar.
Genfarsáttmálarnir
Markmið Genfarsáttmálanna frá árinu 1949 er að tryggja einstaklingum lágmarks mannréttindi á ófriðartímum. Allir fjórir sáttmálarnir innihalda samskonar upphafsákvæði sem er svohljóðandi: „Hinir háttvirtu samningsaðilar skuldbinda sig til þess að virða samning þennan og tryggja að hann sé virtur í hvívetna.“ Í ráðgefandi áliti Alþjóðadómstólsins í hinu svokallaða Veggjarmáli (e. Legal Consequences of the Construction of a Wall in the Occupied Palestinian Territory) útskýrði dómstóllinn ákvæðið svo að aðildarríki að sáttmálunum, hvort sem það á í vopnuðum átökum eður ei, er skuldubundið til að tryggja að skyldur þær sem sáttmálarnir kveða á um séu virtir. Ísland gerðist aðili að sáttmálunum árið 1965 sem þýðir að það hvílir skylda á íslenskum stjórnvöldum að reyna sjá til þess að þeir séu virtir óháð því hvort Íslandi eigi beina aðild að stríðsátökum. Þegar kemur að leyfisveitingum vegna vopnaflutninga verða íslensk stjórnvöld, sem og önnur, að hafa þessa skuldbindingu í huga enda viðurkennd regla að norrænum rétti að skýra skuli lög til samræmis við alþjóðasamninga, sem ríki hefur staðfest eftir því sem kostur er.
Sáttmálinn um ráðstafanir gegn og refsingar fyrir hópmorð
Árið 1949 gerðist Ísland aðili að Sáttmálanum um ráðstafanir gegn og refsingar fyrir hópmorð (í daglegu tali nefnt þjóðarmorð) frá árinu 1948. Tilurð hans má rekja til þeirra voðaverka sem áttu sér stað í síðari heimsstyrjöldinni. Þegar grunsemdir eru til staðar um að verið sé að fremja hópmorð, þ.e. að verið sé að drepa fólk af því að það tilheyrir tilteknum hópi, þá verður að hafa ákveðnar skuldbindingar samningsins í huga. Samkvæmt 1. gr. hans skuldbinda aðildarríkin sig til að reyna að koma í veg fyrir slík voðaverk. Í dómi Alþjóðadómstólsins í Haag í hinu svonefnda Hópmorðsmáli Bosníu Hersegóvínu gegn Serbíu og Svartfjallalandi (e. Application of the Convention on the Prevention and Punishment of the Crime of Genocide) er umrædd skylda útskýrð. Í dóminum er bent að á aðildarríkjunum hvíli sú skyld að grípa til þeirra aðgerða sem þau geta gripið til, með skynsamlegu móti, til að reyna afstýra hópmorði óháð landfræðilegri legu þeirra. Umrædd skylda kviknar um leið og ríki fær vitneskju um að miklur líkur séu á að hópmorð sé í uppsiglingu, eða þegar ríki hefði átt að gera sér grein fyrir að slíkt væri í uppsiglingu. Sú athöfn að synja um leyfi til flutninga á vopnum sem hugsanlega enda á svæði þar sem grunsemdir eru uppi um að verið sé að fremja hópmorð hlýtur að falla í flokk þeirra aðgerða sem ríkjum er skylt að grípa til í slíkum aðstæðum.
Íslenski vopnaflutningaiðnaðurinn
Ljóst er að tilefni skýrslubeiðnar þingmannanna tengist umfjöllun um vopnaflutninga Air Atlanta frá Austur-Evrópuríkjum til Sádi Arabíu. Þeir flutningar eru toppurinn á ísjakanum. Það er vel þekkt, innan ákveðinna hópa, að íslenskir aðilar hafi stundað vopnaflutninga um áratugaskeið og í einhverjum tilfellum til átakasvæða. Sem dæmi má nefna að 12. janúar 1982 birtist frétt í Tímanum um meinta flutninga Arnarflugs á vopnum frá Frakklandi til Líbýu án samþykkis Flugráðs. Flutningarnir voru taldir brot á þágildandi vopnalögum, sem kváðu á um, líkt og núgildandi loftferðalög, að ekki mætti flytja hergögn í flugvélum nema með leyfi þar til bærs stjórnvalds. Um málið hafði Tíminn eftirfarandi eftir deildarstjóra í Samgönguráðuneytinu:
„Ráðuneytið mun að sjálfsögðu rita Arnarflugi bréf um þessi mál en þar sem íslenskar skilgreiningareglur liggja ekki fyrir er erfitt að taka einhvern fyrir og hengja hann. Þannig má gera ráð fyrir því að regluleysið muni takmarka viðbrögð ráðuneytisins en viðvörun mun ganga út frá því.“
Svo virðist sem að lítil framþróun hafi orðið á stjórnsýslu málaflokksins á síðustu áratugum. Með yfirfærslu leyfisveitinga vegna vopnaflutninga frá samgöngu- til utanríkisráðuneytis kemst málaflokkurinn vonandi í betra horf. Það hljóta allir að geta verið sammála um að stjórnsýslan í kringum vopnaflutninga þurfi að vera í lagi. Sérstaklega hjá ríki sem hefur virðingu fyrir réttarríkinu og alþjóðalögum sem grunngildi utanríkisstefnu sinnar.
Höfundur er dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík.