Eftirfarandi spurningu er beint til Lífar Magneudóttur, borgarfulltrúa og oddvita VG í Reykjavík.
Í grein sinni sem birt var á Kjarnanum þann 14. apríl staðfestir Líf að undir stjórn Vinstri Grænna hafi myndast alvarlegur vandi hjá leikskólum borgarinnar. Raunar voru VG í Reykjavík meðvitaðir um vandann í aðdraganda kosninga til borgarstjórnar árið 2014 og minntust til dæmis á hann í stefnu flokksins:
„Starfskjör og starfsaðstæður hafa verið skert og viðkvæmar einingar sem sinna mikilvægu starfi hafa verið skornar allt of mikið niður.“
Að auki voru stjórnarflokkarnir í núverandi meirihluta allir sammála um það markmið en eftirfarandi setning kemur fyrir í samstarfssáttmála núverandi meirihluta frá árinu 2014:
„Við viljum vinna með kennurum að því að gera kennarastarfið eftirsóknarverðara, með tilliti til kjara, starfsþróunar og vinnuumhverfis.“
Fjórum árum síðar segir Líf bætt kjör leikskólakennara enn vera stærsta pólitíska verkefnið. Þennan vanda ætla Vinstri Grænir skyndilega að leysa, en í ljósi þess að þeir hafa verið við stjórnvölinn síðastliðin fjögur ár er spurningin: Á hve mörgum kjörtímabilum hyggjast Vinstri Grænir leysa vandann og af hverju eru þeir ekki búnir að því?
Eins og Líf bendir á í grein sinni eru leikskólarnir einn mikilvægasti burðarás velferðarþjónustu borgarinnar og ekki síður mikilvægur hluti félagslegra innviða íslensks samfélags. Það er því mikilvægt að framangreindum spurningum sé svarað með skýrum hætti.
Líf nefnir einnig að á síðasta kjörtímabili hafi núverandi meirihluti horfið af braut niðurskurðar til málaflokksins og nefnir því til stuðnings tvö atriði. Annars vegar hafi leikskólagjöld verið lækkuð á kjörtímabilinu sem nemi nærri 85.000 krónum á ári fyrir fjölskyldu með eitt barn í átta tíma vistun. Ágóðinn af þeirri fjárhæð er hins vegar fljót að hverfa ef foreldrar þurfa að vera heima með börn sín marga daga á ári vegna manneklu á leikskólum með tilheyrandi fórnum á leyfi frá vinnu, vinnuframlagi og tekjum eftir atvikum. Með lækkun á leikskólagjöldum er heldur ekki verið hverfa frá niðurskurði þar sem lækkun leikskólagjalda skilar þvert á móti engu aukafjármagni til málaflokksins.
Hins vegar bendir Líf á að framlög til málaflokksins hafi verið aukin um tvo milljarða króna á kjörtímabilinu. Spyrja má hversu stór hluti af þeirri fjárhæð sé raunveruleg aukning til málaflokksins, sem er til þess fallin að bæta kjör starfsfólks á leikskólum, því bæði hafa komið til lögbundnar launahækkanir samkvæmt kjarasamningum og þá hefur meirihlutinn áður kynnt leiðréttingu á hagræðingarkröfum sem stórsókn í skólamálum.
Á síðasta kjörtímabili tókst núverandi meirihluta hins vegar eitt: Að kortleggja hluta vandans. Reiknað hefur verið út að það þarf þrjá milljarða króna og 750 til 800 ný pláss. Miðað við það, og aðgerðir hvað þetta varðar á kjörtímabilinu, er ljóst að núverandi meirihluti komst ekki einu sinni nærri því að leysa vandann. Félagar Lífar í Samfylkingunni sem hafa stýrt skólamálum Reykjavíkurborgar síðastliðinn átta ár hefðu ennfremur átt að vera komnir með ágætis mynd af vandanum eftir kjörtímabilið 2010 til 2014.
Það er eitt af helstu forgangsmálum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík að leysa leikskólavandann, meðal annars með því að hækka laun þeirra lægst launuðu á leikskólum borgarinnar. Til viðbótar er markmiðið að ganga hratt og skipulega til verks.
Höfundur skipar 9. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.