Þegar við hugsum til Kvennalistans, sem var og hét, sjáum við fyrir okkur sterkar konur sem stóðu fyrir breytingum. Breytingum sem juku jafnrétti kynjanna á tímum þegar virkilega var þörf á því. Á þeim tíma voru konur með mun lægri laun, lítið hlutfall kvenna í stjórnsýslunni, lægra hlutfall kvenna í stjórnum og öðrum áhrifastöðum í samfélaginu. Síðast en ekki síst voru yfirgnæfandi meirihluti flokkslista byggðir upp af karlmönnum. Vinnan byggði á jafna stöðu kynjanna því bæði kynin hefðu ákveðna styrkleika fram að færa sem átti heima á öllum sviðum. Eftir kröftuga baráttu náðist mikill árangur, svo mikill árangur að ekki var þörf á sérstökum kvennalista vegna þátttöku þeirra innan annarra flokka. Þá tók við baráttan um að jafna hlutfall kynjanna innan flokkanna, valddreifingu sem hefur tekið sinn tíma. Dæmi um hversu vel sú vinna gekk þá er forsætisráðherrann í dag kvenmaður. Mig langar að stoppa smá hér og endurtaka hversu langt við höfum náð. Í dag er Ísland með kvenkyns forsætisráðherra. Þetta tel ég flott skref í rétta átt.
Umræðan um kvennalista kom fram vegna kynjaskiptingu á Alþingi. Ég get alveg tekið undir að eðlilegt sé að nokkuð jafnt kynjahlutfall sé þingi og á framboðslistum. Eðlilegt er að þetta geti hliðrast aðeins í báðar áttir. Við viljum að í samfélaginu ríki jafnrétti og á það sé litið sem eitt af grunngildum þess. Stöndum við framarlega í jafnréttismálum og kemur það fram í þeim könnunum og rannsóknum sem hafa verið gerðar. Það pólitíska landslag sem er í dag byggir á því sama og gildi samfélagsins og vilji til jafnréttis.
Þegar við vinnum hluti út frá kyni, alveg sama í hvaða samhengi það er, vinnum við ekki að jafnrétti heldur jöfnun annars kynsins. Það er oftast gert til að ná jafnrétti en tryggir það þó ekki. Gott dæmi er jafnlaunavottun. Ef áherslan á henni hefði eingöngu verið að ekki mætti greiða konum lægri laun þá hefði ennþá mátt greiða körlum lægri laun fyrir sömu störf og konur væru að gera. Hún var unnin út frá kynleysi í huga, að ekki mætti greiða öðru hvoru kyninu meira fyrir sama starf. Þetta er eingöngu hluti af þeim rökstuðningi sem ég hef en treysti því að boðskapurinn komist til skila. Líta ber á jafnrétti sem kynlausa baráttu því hún snertir bæði kynin á öllum stöðum.
Að mínu mati er viss afturför að fara aftur til baka og leggja áherslu á að berjast eingöngu fyrir annað kynið, það er ekki skref í áttina að jafnrétti. Með því að setja kvennalista aftur á laggirnar er búið til fordæmi fyrir því að búa til karlalista sem afl á móti. Þegar núverandi flokkar byggjast upp á blöndun kynjanna og kvennalista svo bætt við er eðlilegt að á móti komi afl til að jafna aftur leikborðið. Önnur verri útgáfa fyrir jafnrétti væri ef stóru fjórflokkarnir tækju það í sínar hendur að jafna kynjahlutföll. Fækka konum á listum til að stemma af kynjahlutfallið með þeim rökstuðning að sér listi kvenna væri til staðar. Að stofna kvennalista getur haft slæmar afleiðingar fyrir þá jafnréttisbaráttu sem nú þegar hefur átt sér stað. Telja má líklegt að það búi til mótafl í einhverri mynd til að jafna aftur leikvöllinn þar sem núverandi flokkar skipa fólki af báðum kynjum á lista.
Því spyr ég: Í því samfélagi og pólitíska landslagi sem er á Íslandi í dag er kvennalisti nauðsynlegt afl eða tímaskekkja?
Höfundur er nemi við Háskólann á Bifröst í B.A. í miðlun og almannatengslum.