Það eru gömul sannindi og ný að lífsbaráttan hér á landi er hörð. Ein birtingarmyndin er sú að við vinnum fleiri stundir á viku en flestar aðrar þjóðir í norður Evrópu. Á Alþingi liggur nú fyrir frumvarp til laga um styttingu vinnuvikunnar úr 40 klukkustundum í 35. Í frumvarpinu felst að í hverri viku verði ekki fleiri en 35 dagvinnustundir og að þær verði unnar á dagvinnutíma á virkum dögum. Frumvarp um þetta mikilvæga hagsmunamál launþega er nú lagt fram í þriðja sinn og nauðsynlegt er fyrir þingmenn að kynna sér vel hvaða áhrif frumvarpið gæti haft til þess að stytta heildarvinnutíma launafólks. Við viljum á góðum stundum bera okkur saman við önnur Evrópulönd og hér er gott tækifæri til þess að tryggja launafólki betri samningsstöðu og því mikilvægt að þingmenn sameinist um að frumvarpið verði að lögum. Fjölmargir hagsmunahópar hafa sent þinginu umsögn og bent á að stytting vinnuvikunnar muni hafa margvísleg jákvæð áhrif á samfélagið. Vísbendingar eru um að stytting vinnutíma leiði af sér meiri framleiðni þar sem ánægja starfsfólks eykst, skrepp og veikindi minnka og starfsmannavelta dregst saman.
Nauðsynlegt að stytta vinnutíma á Íslandi
Á næstu árum verða miklar breytingar á vinnumarkaði með aukinni sjálfvirkni sem nefnd er fjórða iðnbyltingin. Hún mun leiða af sér miklar breytingar á eðli og samsetningu starfa og mögulega gera fyrirtækjum kleift að auka framleiðni sína. Það er eðlilegt að umræða fari fram um með hvaða hætti réttur starfsmanna verður tryggður til þess að fá hluta að þeim ábata í bættum kjörum. Stytting vinnuvikunnar gæti þar verið mikilvægt innlegg.
Hér á landi er yfirvinna mjög algeng hjá stórum hópum launafólks og við vinnum mest af öllum löndum Evrópu miðað við samanburð síðustu 10 árin. Helsta skýringin er að á Íslandi er samsetning launa þannig hjá mörgum stéttum að dagvinnulaun eru lág og til að reyna að ná endum saman þurfa því margir að bæta við sig yfirvinnu eða taka að sér aukastarf.
Á næstu mánuðum mun fram fram mikil vinna við undirbúning næsta kjarasamnings VR og fleiri stéttarfélaga innan ASÍ við samtök atvinnurekenda en samningar eru lausir um næstu áramót. Fjölmargir þættir skipta máli við gerð kjarasamninga en ljóst er að stærsta áskorun verkalýðshreyfingarinnar í næstu kjarasamningum verður að tryggja félagsmönnum sínum mannsæmandi lágmarkslaun fyrir dagvinnu.
Höfundur bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og varaformaður VR.