„Heildsöluverð á raforku í Norður-Evrópu hefur verið að lækka á síðustu árum. Á sama tíma hafa orkufrekar atvinnugreinar í flestum löndum á þessu svæði verið undanþegnar sköttum á raforku. Verð raforku Landsvirkjunar hefur ekki fylgt þessari þróun en fyrirtækið er ráðandi á raforkumarkaði hér á landi með yfir 70% hlutdeild markaðarins. Það hefur leitt til þess að samkeppnisforskot Íslands á sviði raforkuverðs hefur tapast. “
Textinn hér að ofan er úr nýlegri skýrslu Samtaka iðnaðarins (SI). Umrædd samtök álíta sem sagt að samkeppnisforskot Íslands m.t.t. raforkuverðs hafi tapast. Og ekki er annað að sjá en að samtökin kenni Landsvirkjun um þetta meinta tapaða samkeppnisforskot; að ástæðan sé sú að raforkuverð Landsvirkjunar hefur ekki lækkað líkt og gerst hefur víða í N-Evrópu. Í þessari grein verður sjónum beint að íslenska raforkumarkaðnum m.t.t. til þess sem vikið er að í skýrslu SI. Og reynt að meta hvernig samkeppnisstaðan þarna sé og hvort ástæða sé til að huga að breyttum leikreglum á þessum mikilvæga markaði.
Mjög ólíkir raforkumarkaðir á Íslandi og í Evrópu
Þegar raforkuverð Landsvirkjunar (LV) er borið saman við raforkuverð í N-Evrópu eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga. Raforkumarkaðurinn hér er gjörólíkur þeim í N-Evrópu. Í N-Evrópu eiga mestöll raforkuviðskipti sér stað í raforkukauphöll eða á verðum sem eru með einhverjum hætti tengd kauphallarverðinu. Þar er orkuverðið síbreytilegt á s.k. skyndimarkaði (spot market) og getur sveiflast mjög mikið í takt við framboð og eftirspurn hverju sinni. Raforkuverð LV er aftur á móti samningsatriði í hverjum einasta samningi.
Oftast og jafnvel alltaf hvílir leynd yfir orkuverðinu í samningum LV. Þó er ýmislegt vitað um verðstefnu LV og þ.á m. að fyrirtækið býður mjög stöðugt verð til margra ára. Um leið er það rétt sem SI hafa bent á, að síðustu árin hefur dregið úr verðmuninum milli LV og raforkumarkaða í N-Evrópu. Á tímabili hækkaði reyndar raforkuverð mjög í N-Evrópu og þá sá LV tækifæri í að verð LV myndi líka hækka. Sú verðstefna var orðuð þannig að verðmunurinn þarna á milli skyldi ekki aukast. Þegar svo evrópska verðið lækkaði, minnkaði verðmunurinn. Og á tímabili var skyndiverðið í N-Evrópu orðið mjög lágt og jafnvel lægra en verðið í sumum samningum LV. Það er væntanlega þessi þróun sem hefur gefið SI tilefni til að tala um tapað samkeppnisforskot Íslands á sviði raforkuverðs.
Um leið er mikilvægt að minnast þess að raforkuverð í N-Evrópu hefur nú hækkað nokkuð á ný og gæti mögulega og fyrirvaralaust hækkað miklu meira. Við vitum reyndar ekki hvernig verðið þar mun þróast. En af skrifum SI má ráða að samtökin myndu vilja sjá það betur tryggt að íslenskt samkeppnisforskot væri örugglega ávallt fyrir hendi m.t.t. raforkuverðs. Um leið vilja SI bersýnilega sjá aukna samkeppni á íslenskum raforkumarkaði.
Ógagnsæi íslenska raforkumarkaðarins og skortur á samkeppni
Um leið og SI segja að raforkuverð LV hafi ekki fylgt lækkandi raforkuverði í N-Evrópu, taka þau fram að LV sé „ráðandi á raforkumarkaði hér á landi“ og að raforkumarkaðurinn hér „einkennist af fákeppni“. Í skýrslunni er líka fullyrt að meðan gagnsæi raforkumarkaðarins hafi verið að aukast í flestum löndum N-Evrópu hafi slík þróun ekki orðið hér á landi.
Með þessum skrifum eru Samtök iðnaðarins væntanlega að kalla eftir meira gagnsæi í raforkuverði á Íslandi og að virkari samkeppni myndist á íslenskum raforkumarkaði. Og að þannig yrðu meiri líkur á að raforkuverð LV myndi fylgja lækkunum eða breytingum á raforkuverði í N-Evrópu. SI ætti þó að hafa í huga að einmitt vegna ráðandi markaðsstöðu LV þarf fyrirtækið m.a. að gæta þess mjög að undirverðleggja ekki vörur sínar með ólögmætum hætti. Engu að síður er sjálfsagt að velta fyrir sér hvaða leiðir séu mögulegar til að auka samkeppni á íslenskum raforkumarkaði, eins og SI virðast áhugasöm um.
Landsvirkjun er ráðandi aðili
Það má reyndar segja að sá hluti umræddrar skýrslu SI sem fjallar um raforkumarkaðinn sé helst til snubbóttur og lítt studdur talnagögnum. Það er þó óumdeilt að LV nýtur mikilla yfirburða á heildsölumarkaðanum hér og má álíta fyrirtækið ráðandi aðila á íslenskum raforkumarkaði. Enda hefur Samkeppniseftirlitið t.a.m. sagt að LV sé ráðandi aðili „á markaði fyrir framleiðslu, heildsölu og á markaði fyrir smásölu til stórnotenda“. Aftur a móti hefur enginn sýnt fram á að LV hafi með einhverjum hætti misbeitt eða notað þessa ráðandi stöðu sína með ólögmætum hætti.
Það þarf heldur varla að rökræða það hvort íslenskur heildsölumarkaður með rafmagn sé ógegnsær. Því það er hann svo sannarlega. Og það er sennilega líka eðlilegt að segja að hér sé lítil samkeppni á raforkumarkaðnum. Þó liggur ekki annað fyrir en að LV starfi að öllu leyti í samræmi við það viðskiptaumhverfi sem mælt er fyrir um (samkvæmt t.a.m. samkeppnislögum). Fyrir vikið er verðstefna LV varla vandamál. Eða hvað?
Landsvirkjun virðist bjóða samkeppnishæft stóriðjuverð
Stærstur hluti raforkuviðskipta LV er við örfá stóriðjufyrirtæki. Stóriðjan er í eðli sínu alþjóðleg og þarna má segja að LV sé að keppa á alþjóðlegum markaði. Og þar virðist verðstefna LV fela í sér samkeppnishæft verð. A.m.k. ákvað PCC að reisa kísilverksmiðju sína á Íslandi og kaupa allt rafmagnið af LV. Og bæði Norðurál (Century Aluminum) og Elkem hafa nýlega ákveðið að framlengja raforkuviðskipti sín við LV. Þá hefur LV líka nýlega gert stóran gagnaverssamning.
Allt eru þetta dæmi sem gefa vísbendingar um að LV bjóði samkeppnishæf verð.
Í þessu ljósi kemur nokkuð á óvart að SI skuli halda því svo ákveðið og fyrirvaralaust fram að samkeppnisforskot Íslands á sviði raforkuverðs hafi tapast. Þar að auki mættu SI að huga betur að því að hér á landi býðst a.m.k. sumum fyrirtækjum raforka í langtímasamningum á föstu verði í erlendri mynt . LV auglýsir slíka samninga til allt að 12 ára (samkvæmt upplýsingum frá LV er þá miðað við samninga sem fela í sér lágmarkskaup sem jafngilda a.m.k. 10 MW). Annars staðar í N-Evrópu virðast engin dæmi um sambærilega langtímasamninga, enda starfar raforkumarkaðurinn þar með gjörólíkum hætti frá því sem tíðkast hér.
Greinarhöfundur hefur töluverða reynslu af samskiptum við fyrirtæki sem hafa áhuga á raforkukaupum hér. Af þeim samskiptum er bersýnilegt að þessir langtímasamningar sem LV býður vekja oft mikinn áhuga fyrirtækja sem velta fyrir sér starfsemi á Íslandi. M.ö.o. þá virðast þessir samningar óvenjulegir og veita Íslandi dágott samkeppnisforskot. Þó vissulega séu þeir ekki í boði fyrir öll iðnfyrirtæki.
Landsvirkjun vinnur að lækkun skulda og bættu lánshæfi
Það er líka áhugaverð viðmiðun að bera arðsemi og lánakjör LV saman við svipuð norræn raforkufyrirtæki. Þegar sá samanburður er gerður sést t.a.m. að þarna hefur staða LV verið lakari en annarra slíkra norrænna fyrirtækja. Og svo er ennþá, þó svo staða LV fari batnandi. Og til að svo verði vinnur LV markvisst að því að lækka skuldir sínar og bæta lánshæfi fyrirtækisins.
Meðan LV er ennþá svo skuldsett sem verið hefur og lánshæfi fyrirtækisins ekki betra en raun ber vitni, er varla raunhæft að búast við því að LV hafi mikinn vilja eða getu til að lækka raforkuverð; hvorki til stóriðju eða annarra. Enda er slíka tillögu svo sem ekki að finna í umræddri skýrslu SI, þó samtökin virðist gagnrýnin á verðstefnu LV eða a.m.k. vonsvikin yfir því að LV hafi ekki hógværari verðstefnu.
Sérstaða Landsvirkjunar á íslenska raforkumarkaðnum er mikil
Fjárhagsleg staða LV er sem sagt ekkert sérstaklega sterk í samanburði við ámóta orkufyrirtæki á hinum Norðurlöndunum. En vissulega hefur LV mikla sérstöðu og yfirburði á íslenska raforkumarkaðnum. Þar skiptir miklu sú sérstaða LV að vera eina raforkufyrirtækið á landinu sem ræður yfir einhverju umtalsverðu varaafli. LV er því í lykilaðstöðu þegar t.d. önnur orkufyrirtæki þurfa að kaupa raforku annars staðar frá.
Þarna birtist kannski vandinn í hnotskurn og um leið kemur upp skilgreiningarvandi. Þegar við lítum til markaðsráðandi stöðu LV og reynum að ákveða innan hvaða marka eðlilegt er að fyrirtækið verðleggi vörur sínar, eigum við þá fyrst og fremst að horfa til stóriðjuviðskiptanna? Eða á viðfangsefnið að vera almenni heildsölumarkaðurinn? Eða hvort tveggja?
Þröng samkeppnisstaða annarra raforkufyrirtækja
Ef við horfum bara á almenna heildsölumarkaðinn vaknar sú spurning hvort LV hafi það kannski um of í hendi sér að ráða raforkuverði á þeim markaði? Væri kannski skynsamlegt að minnka áhrif LV á almenna heildsölumarkaðnum og gera öðrum orkufyrirtækjum betur kleift að eiga þarna samkeppni; bæði við LV og sín á milli?Það hlýtur t.a.m. að vera nokkuð snúið fyrir önnur raforkufyrirtæki hér að keppa við LV um það sem kalla má hógværa heildsölusamninga. Eins og þegar samið er um raforkuviðskipti við gagnaver.
Jafnvel þó svo LV miði við að slíkir heildsölusamningar fyrirtækisins séu ekki undir 10 MW, þá eru samningar LV við gagnaver gjarnan með þeim hætti að gagnaverin fá að kaupa sem nemur einungis fáein megavött (MW) frá LV í upphafi viðskiptanna. Þarna er LV í beinni samkeppni við önnur raforkufyrirtæki og hefur um leið mögulega algera stjórn á markaðnum.
Í svona viðskiptum er líka líklegt að ef gagnaverið kaupir rafmagn frá öðru raforkufyrirtæki en LV, þurfi það orkufyrirtæki a.m.k. stundum að útvega umtalsverðan hluta þeirrar orku með heildsöluviðskiptum við LV. Þarna er LV því alltumlykjandi. Og er með þvílíka yfirburðastöðu að kannski má tala um óeðlilega eða skekkta samkeppnisstöðu? Þetta er a.m.k. eitt af þeim atriðum sem sjálfsagt er að velta fyrir sér.
Ætti að skipta Landsvirkjun upp?
Í þessu sambandi má rifja upp að danski hagfræðingurinn Lars Christensen hefur talað fyrir breytingum á íslenskum raforkumarkaði í því skyni að auka samkeppnina. Og þar lagt til uppskiptingu á LV.
Þá hugmynd segir forstjóri LV vera óskynsamlega. Það fer varla á milli mála að slík aðgerð yrði nokkuð snúin, t.d. vegna þess að meginstarfsemi LV felst í viðskiptum við einungis örfá stóriðjufyrirtæki. Og í samanburði við önnur orkufyrirtæki á þeim alþjóðlega markaði, hefði uppskipt LV kannski litla burði til að skila góðum árangri í slíkri samkeppni. En hvaða aðrar leiðir en uppskiptingu LV má hugsa sér til að stuðla að meiri eða virkari samkeppni á íslenskum raforkumarkaði? Þar hljóta einhverjar leiðir að vera mögulegar.
Skyndimarkaður með raforku gæti verið skynsamleg leið
Ein leið til að auka samkeppni á íslenskum raforkumarkaði kann að vera sú að koma hér á fót svipuðum markaði eins og gerist með t.d. hlutabréf í kauphöll. Slíkur skyndimarkaður með raforku er þekkt leið til að stuðla að virkari samkeppni, sbr. t.d. norræni raforkumarkaðurinn (Nord Pool Spot). Smæð almenna íslenska raforkumarkaðarins kann að vísu að valda því að svona skyndimarkaður sé ekki raunhæfur á Íslandi. En þetta þarf að skoða til hlýtar og meta hvað þarf svo vel myndi takast til. Ein leiðin gæti verið að sleppa íslenskum skyndimarkaði, en þess í stað tengja orkuverðið við þann norræna.
Ætti íslenskt raforkuverð að fylgja raforkuverði í N-Evrópu?
Kannski væri einfaldasta leiðin til að viðhalda hér því sem kalla mætti samkeppnishæft raforkuverð, sú að tengja heildsöluverðið hér við markaðsverðið t.d. á norræna raforkumarkaðnum (Nord Pool Spot). Samkeppnisforskotið hér myndi þá felast í hæfilegum afslætti frá norræna verðinu. En íslenska verðið myndi sem sagt sveiflast í takt við hið norræna. Þessi þróun eða verðtenging er reyndar þegar hafin, því nýlegur samningur LV og Norðuráls er með þessum hætti, þ.e. tengdur við markaðsverð raforku á Nord Pool Spot (Elspot). Kannski ætti þetta að verða hin almenna viðmiðun á íslenska heildsölumarkaðnum með rafmagn. Samkeppnin hér innanlands fælist þá væntanlega einkum í því hversu mikill afsláttur af norræna verðinu væri í boði.
Mun Samkeppniseftirlitið bregðast við ábendingum atvinnulífsins?
Hvað sem líður raforkukauphöll eða kauphallarverði á raforku, þá er enn óleyst hvort eða hvernig takmarka eigi völd LV á raforkumarkaðnum. Ein farsæl leið til þess gæti verið sú að beinlínis takmarka umsvif LV við það sem kalla má stóra heildsölusamninga við raforkunotendur. Viðmiðið þar gæti t.d. verið 350 GWst eða 500 GWst árleg kaup að lágmarki. Einnig mætti setja skýrari opinberar reglur um viðskipti LV við önnur raforkufyrirtæki í því skyni að tryggja betur samkeppnina.
Fyrsta skrefið væri þó kannski að Samkeppniseftirlitið tæki íslenska raforkumarkaðinn til ítarlegri skoðunar. Og setti fram hugmyndir um hvernig mögulega mætti gera samkeppnina þar virkari.
Með hliðsjón af ítrekuðum kvörtunartóninum í skýrslum ýmissa fyrirtækjasamtaka hér um raforkuverðið og þá staðreynd að LV er ráðandi aðili á a.m.k. mjög stórum hluta íslenska raforkumarkaðarins, er varla nema sjálfsagt að skoða þetta mál ofan í kjölinn. Og það hljóta að vera einhverjar leiðir mögulegar til að efla samkeppni á íslenskum raforkumarkaði. Ef slík samkeppni er ekki nægjanleg nú þegar.
Niðurstaða: Forskot er til staðar en samkeppnin er óveruleg
Niðurstaðan í hnotskurn er sú að sterk eftirspurn eftir rafmagni hér bendir til þess að á Íslandi sé verið sé að bjóða samkeppnishæft orkuverð. Sterkasta samkeppnisforskotið núna felst sennilega í því að hér bjóðast sumum fyrirtækjum raforkusamningar á föstu verði í erlendri mynt til margra ára. Annars staðar í N-Evrópu virðast ekki dæmi um að svo hagkvæmir langtímasamningar séu í boði. Og meira að segja á hinum almenna raforkumarkaði hér virðist sem fyrirtæki álíti íslenska raforkuverðið afar hóflegt, sbr. nýleg frétt um nýsköpunarfyrirtækið Algalíf. Fullyrðing SI um tapað samkeppnisforskot Íslands stenst því tæplega.
En þó svo Ísland bjóði upp á samkeppnishæft orkuverð, a.m.k. fyrir hluta raforkukaupenda, er raforkumarkaðurinn hér sannarlega ógagnsær og samkeppnin í raforkusölunni er vissulega takmörkuð. Ein leið til að auka gagnsæi og samkeppni gæti falist í einhverri útfærslu því að raforkuverð hér yrði tengt kauphallarverðinu á norræna raforkumarkaðnum. Um leið er bæði sjálfsagt og eðlilegt að huga að öðrum sérstökum ráðstöfunum til að tryggja meiri samkeppni á íslenska raforkumarkaðnum. Þar ætti Samkeppniseftirlitið kannski að sýna frumkvæði með sérstakri athugun og tillögugerð.