Þarf að breyta leikreglum á íslenskum raforkumarkaði?

Auglýsing

„Heild­sölu­verð á raf­orku í Norð­ur­-­Evr­ópu hefur verið að lækka á síð­ustu árum. Á sama tíma hafa orku­frekar atvinnu­greinar í flestum löndum á þessu svæði verið und­an­þegnar sköttum á raf­orku. Verð raf­orku Lands­virkj­unar hefur ekki fylgt þess­ari þróun en fyr­ir­tækið er ráð­andi á raf­orku­mark­aði hér á landi með yfir 70% hlut­deild mark­að­ar­ins. Það hefur leitt til þess að sam­keppn­is­for­skot Íslands á sviði raf­orku­verðs hefur tap­ast. “

Text­inn hér að ofan er úr nýlegri skýrslu Sam­taka iðn­að­ar­ins (SI). Umrædd sam­tök álíta sem sagt að sam­keppn­is­for­skot Íslands m.t.t. raf­orku­verðs hafi tap­ast. Og ekki er annað að sjá en að sam­tökin kenni Lands­virkjun um þetta meinta tap­aða sam­keppn­is­for­skot; að ástæðan sé sú að raf­orku­verð Lands­virkj­unar hefur ekki lækkað líkt og gerst hefur víða í N-Evr­ópu. Í þess­ari grein verður sjónum beint að íslenska raf­orku­mark­aðnum m.t.t. til þess sem vikið er að í skýrslu SI. Og reynt að meta hvernig sam­keppn­is­staðan þarna sé og hvort ástæða sé til að huga að breyttum leik­reglum á þessum mik­il­væga mark­aði.

Mjög ólíkir raf­orku­mark­aðir á Íslandi og í Evr­ópu

Þegar raf­orku­verð Lands­virkj­unar (LV) er borið saman við raf­orku­verð í N-Evr­ópu eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga. Raf­orku­mark­að­ur­inn hér er gjör­ó­líkur þeim í N-Evr­ópu. Í N-Evr­ópu eiga mest­öll raf­orku­við­skipti sér stað í raf­orku­kaup­höll eða á verðum sem eru með ein­hverjum hætti tengd kaup­hall­ar­verð­inu. Þar er orku­verðið síbreyti­legt á s.k. skyndi­mark­aði (spot market) og getur sveifl­ast mjög mikið í takt við fram­boð og eft­ir­spurn hverju sinni. Raf­orku­verð LV er aftur á móti samn­ings­at­riði í hverjum ein­asta samn­ingi.

Auglýsing

Oft­ast og jafn­vel alltaf hvílir leynd yfir orku­verð­inu í samn­ingum LV. Þó er ýmis­legt vitað um verð­stefnu LV og þ.á m. að fyr­ir­tækið býður mjög stöðugt verð til margra ára. Um leið er það rétt sem SI hafa bent á, að síð­ustu árin hefur dregið úr verð­mun­inum milli LV og raf­orku­mark­aða í N-Evr­ópu. Á tíma­bili hækk­aði reyndar raf­orku­verð mjög í N-Evr­ópu og þá sá LV tæki­færi í að verð LV myndi líka hækka. Sú verð­stefna var orðuð þannig að verð­mun­ur­inn þarna á milli skyldi ekki aukast. Þegar svo evr­ópska verðið lækk­aði, minnk­aði verð­mun­ur­inn. Og á tíma­bili var skyndi­verðið í N-Evr­ópu orðið mjög lágt og jafn­vel lægra en verðið í sumum samn­ingum LV. Það er vænt­an­lega þessi þróun sem hefur gefið SI til­efni til að tala um tapað sam­keppn­is­for­skot Íslands á sviði raf­orku­verðs.

Um leið er mik­il­vægt að minn­ast þess að raf­orku­verð í N-Evr­ópu hefur nú hækkað nokkuð á ný og gæti mögu­lega og fyr­ir­vara­laust hækkað miklu meira. Við vitum reyndar ekki hvernig verðið þar mun þró­ast. En af skrifum SI má ráða að sam­tökin myndu vilja sjá það betur tryggt að íslenskt sam­keppn­is­for­skot væri örugg­lega ávallt fyrir hendi m.t.t. raf­orku­verðs. Um leið vilja SI ber­sýni­lega sjá aukna sam­keppni á íslenskum raf­orku­mark­aði.

Ógagn­sæi íslenska raf­orku­mark­að­ar­ins og skortur á sam­keppni

Um leið og SI segja að raf­orku­verð LV hafi ekki fylgt lækk­andi raf­orku­verði í N-Evr­ópu, taka þau fram að LV sé „ráð­andi á raf­orku­mark­aði hér á landi“ og að raf­orku­mark­að­ur­inn hér „ein­kenn­ist af fákeppn­i“. Í skýrsl­unni er líka full­yrt að meðan gagn­sæi raf­orku­mark­að­ar­ins hafi verið að aukast í flestum löndum N-Evr­ópu hafi slík þróun ekki orðið hér á landi.

Með þessum skrifum eru Sam­tök iðn­að­ar­ins vænt­an­lega að kalla eftir meira gagn­sæi í raf­orku­verði á Íslandi og að virk­ari sam­keppni mynd­ist á íslenskum raf­orku­mark­aði. Og að þannig yrðu meiri líkur á að raf­orku­verð LV myndi fylgja lækk­unum eða breyt­ingum á raf­orku­verði í N-Evr­ópu. SI ætti þó að hafa í huga að einmitt vegna ráð­andi mark­aðs­stöðu LV þarf fyr­ir­tækið m.a. að gæta þess mjög að und­ir­verð­leggja ekki vörur sínar með ólög­mætum hætti. Engu að síður er sjálf­sagt að velta fyrir sér hvaða leiðir séu mögu­legar til að auka sam­keppni á íslenskum raf­orku­mark­aði, eins og SI virð­ast áhuga­söm um.

Lands­virkjun er ráð­andi aðili

Það má reyndar segja að sá hluti umræddrar skýrslu SI sem fjallar um raf­orku­mark­að­inn sé helst til snubb­óttur og lítt studdur talna­gögn­um. Það er þó óum­deilt að LV nýtur mik­illa yfir­burða á heild­sölu­mark­að­anum hér og má álíta fyr­ir­tækið ráð­andi aðila á íslenskum raf­orku­mark­aði. Enda hefur Sam­keppn­is­eft­ir­litið t.a.m. sagt að LV sé ráð­andi aðili „á mark­aði fyrir fram­leiðslu, heild­sölu og á mark­aði fyrir smá­sölu til stórnot­enda“. Aftur a móti hefur eng­inn sýnt fram á að LV hafi með ein­hverjum hætti mis­beitt eða notað þessa ráð­andi stöðu sína með ólög­mætum hætti.

Það þarf heldur varla að rök­ræða það hvort íslenskur heild­sölu­mark­aður með raf­magn sé ógegn­sær. Því það er hann svo sann­ar­lega. Og það er senni­lega líka eðli­legt að segja að hér sé lítil sam­keppni á raf­orku­mark­aðn­um. Þó liggur ekki annað fyrir en að LV starfi að öllu leyti í sam­ræmi við það við­skiptaum­hverfi sem mælt er fyrir um (sam­kvæmt t.a.m. sam­keppn­is­lög­um). Fyrir vikið er verð­stefna LV varla vanda­mál. Eða hvað?

Lands­virkjun virð­ist bjóða sam­keppn­is­hæft stór­iðju­verð

Stærstur hluti raf­orku­við­skipta LV er við örfá stór­iðju­fyr­ir­tæki. Stór­iðjan er í eðli sínu alþjóð­leg og þarna má segja að LV sé að keppa á alþjóð­legum mark­aði. Og þar virð­ist verð­stefna LV fela í sér sam­keppn­is­hæft verð. A.m.k. ákvað PCC að reisa kís­il­verk­smiðju sína á Íslandi og kaupa allt raf­magnið af LV. Og bæði Norð­urál (Cent­ury Alu­m­inum) og Elkem hafa nýlega ákveðið að fram­lengja raf­orku­við­skipti sín við LV.  Þá hefur LV líka nýlega gert stóran gagna­vers­samn­ing.

Allt eru þetta dæmi sem gefa vís­bend­ingar um að LV bjóði sam­keppn­is­hæf verð.

Í þessu ljósi kemur nokkuð á óvart að SI skuli halda því svo ákveðið og fyr­ir­vara­laust fram að sam­keppn­is­for­skot Íslands á sviði raf­orku­verðs hafi tap­ast. Þar að auki mættu SI að huga betur að því að hér á landi býðst a.m.k. sumum fyr­ir­tækjum raf­orka í lang­tíma­samn­ingum á föstu verði í erlendri mynt . LV aug­lýsir slíka samn­inga til allt að 12 ára (sam­kvæmt upp­lýs­ingum frá LV er þá miðað við samn­inga sem fela í sér lág­marks­kaup sem jafn­gilda a.m.k. 10 MW). Ann­ars staðar í N-Evr­ópu virð­ast engin dæmi um sam­bæri­lega lang­tíma­samn­inga, enda starfar raf­orku­mark­að­ur­inn þar með gjör­ó­líkum hætti frá því sem tíðkast hér.

Grein­ar­höf­undur hefur tölu­verða reynslu af sam­skiptum við fyr­ir­tæki sem hafa áhuga á raf­orku­kaupum hér. Af þeim sam­skiptum er ber­sýni­legt að þessir lang­tíma­samn­ingar sem LV býður vekja oft mik­inn áhuga fyr­ir­tækja sem velta fyrir sér starf­semi á Íslandi. M.ö.o. þá virð­ast þessir samn­ingar óvenju­legir og veita Íslandi dágott sam­keppn­is­for­skot. Þó vissu­lega séu þeir ekki í boði fyrir öll iðn­fyr­ir­tæki.

Landsvirkjun er í eigu íslenska ríkisins, og nemur eigið fé þess yfir 200 milljörðum króna.

Lands­virkjun vinnur að lækkun skulda og bættu láns­hæfi

Það er líka áhuga­verð við­miðun að bera arð­semi og lána­kjör LV saman við svipuð nor­ræn raf­orku­fyr­ir­tæki. Þegar sá sam­an­burður er gerður sést t.a.m. að þarna hefur staða LV verið  lak­ari en ann­arra slíkra nor­rænna fyr­ir­tækja. Og svo er enn­þá, þó svo staða LV fari batn­andi. Og til að svo verði vinnur LV mark­visst að því að lækka skuldir sínar og bæta láns­hæfi fyr­ir­tæk­is­ins.

Meðan LV er ennþá svo skuld­sett sem verið hefur og láns­hæfi fyr­ir­tæk­is­ins ekki betra en raun ber vitni, er varla raun­hæft að búast við því að LV hafi mik­inn vilja eða getu til að lækka raf­orku­verð; hvorki til stór­iðju eða ann­arra. Enda er slíka til­lögu svo sem ekki að finna í umræddri skýrslu SI, þó sam­tökin virð­ist gagn­rýnin á verð­stefnu LV eða a.m.k. von­svikin yfir því að LV hafi ekki hóg­vær­ari verð­stefnu.

Sér­staða Lands­virkj­unar á íslenska raf­orku­mark­aðnum er mikil

Fjár­hags­leg staða LV er sem sagt ekk­ert sér­stak­lega sterk í sam­an­burði við ámóta orku­fyr­ir­tæki á hinum Norð­ur­lönd­un­um. En vissu­lega hefur LV mikla sér­stöðu og yfir­burði á íslenska raf­orku­mark­aðn­um. Þar skiptir miklu sú sér­staða LV að vera eina raf­orku­fyr­ir­tækið á land­inu sem ræður yfir ein­hverju umtals­verðu vara­afli. LV er því í lyk­il­að­stöðu þegar t.d. önnur orku­fyr­ir­tæki þurfa að kaupa raf­orku ann­ars staðar frá.

Þarna birt­ist kannski vand­inn í hnot­skurn og um leið kemur upp skil­grein­ing­ar­vandi. Þegar við lítum til mark­aðs­ráð­andi stöðu LV og reynum að ákveða innan hvaða marka eðli­legt er að fyr­ir­tækið verð­leggi vörur sín­ar, eigum við þá fyrst og fremst að horfa til stór­iðju­við­skipt­anna? Eða á við­fangs­efnið að vera almenni heild­sölu­mark­að­ur­inn?  Eða hvort tveggja?

Þröng sam­keppn­is­staða ann­arra raf­orku­fyr­ir­tækja

Ef við horfum bara á almenna heild­sölu­mark­að­inn vaknar sú spurn­ing hvort LV hafi það kannski um of í hendi sér að ráða raf­orku­verði á þeim mark­aði? Væri kannski skyn­sam­legt að minnka áhrif LV á almenna heild­sölu­mark­aðnum og gera öðrum orku­fyr­ir­tækjum betur kleift að eiga þarna sam­keppni; bæði við LV og sín á milli­?Það hlýtur t.a.m. að vera nokkuð snúið fyrir önnur raf­orku­fyr­ir­tæki hér að keppa við LV um það sem kalla má hóg­væra heild­sölu­samn­inga. Eins og þegar samið er um raf­orku­við­skipti við gagna­ver

Jafn­vel þó svo LV miði við að slíkir heild­sölu­samn­ingar fyr­ir­tæk­is­ins séu ekki undir 10 MW, þá eru samn­ingar LV við gagna­ver gjarnan með þeim hætti að gagna­verin fá að kaupa sem nemur ein­ungis fáein mega­vött (MW) frá LV í upp­hafi við­skipt­anna. Þarna er LV í beinni sam­keppni við önnur raf­orku­fyr­ir­tæki og hefur um leið mögu­lega algera stjórn á mark­aðn­um.

Í svona við­skiptum er líka lík­legt að ef gagna­verið kaupir raf­magn frá öðru raf­orku­fyr­ir­tæki en LV, þurfi það orku­fyr­ir­tæki a.m.k. stundum að útvega umtals­verðan hluta þeirrar orku með heild­sölu­við­skiptum við LV.  Þarna er LV því alltum­lykj­andi. Og er með því­líka yfir­burða­stöðu að kannski má tala um óeðli­lega eða skekkta sam­keppn­is­stöðu? Þetta er a.m.k. eitt af þeim atriðum sem sjálf­sagt er að velta fyrir sér.

Ætti að skipta Lands­virkjun upp?

Í þessu sam­bandi má rifja upp að danski hag­fræð­ing­ur­inn Lars Christen­sen hefur talað fyrir breyt­ingum á íslenskum raf­orku­mark­aði í því skyni að auka sam­keppn­ina. Og þar lagt til upp­skipt­ingu á LV

Þá hug­mynd segir for­stjóri LV vera óskyn­sam­lega. Það fer varla á milli mála að slík aðgerð yrði nokkuð snú­in, t.d. vegna þess að meg­in­starf­semi LV felst í við­skiptum við ein­ungis örfá stór­iðju­fyr­ir­tæki. Og í sam­an­burði við önnur orku­fyr­ir­tæki á þeim alþjóð­lega mark­aði, hefði upp­skipt LV kannski litla burði til að skila góðum árangri í slíkri sam­keppni. En hvaða aðrar leiðir en upp­skipt­ingu LV má hugsa sér til að stuðla að meiri eða virk­ari sam­keppni á íslenskum raf­orku­mark­aði? Þar hljóta ein­hverjar leiðir að vera mögu­leg­ar.

Skyndi­mark­aður með raf­orku gæti verið skyn­sam­leg leið

Ein leið til að auka sam­keppni á íslenskum raf­orku­mark­aði kann að vera sú að koma hér á fót svip­uðum mark­aði eins og ger­ist með t.d. hluta­bréf í kaup­höll. Slíkur skyndi­mark­aður með raf­orku er þekkt leið til að stuðla að virk­ari sam­keppni, sbr. t.d. nor­ræni raf­orku­mark­að­ur­inn (Nord Pool Spot). Smæð almenna íslenska raf­orku­mark­að­ar­ins kann að vísu að valda því að svona skyndi­mark­aður sé ekki raun­hæfur á Íslandi. En þetta þarf að skoða til hlýtar og meta hvað þarf svo vel myndi takast til. Ein leiðin gæti verið að sleppa íslenskum skyndi­mark­aði, en þess í stað tengja orku­verðið við þann nor­ræna.

Ætti íslenskt raf­orku­verð að fylgja raf­orku­verði í N-Evr­ópu?

Kannski væri ein­faldasta leiðin til að við­halda hér því sem kalla mætti sam­keppn­is­hæft raf­orku­verð, sú að tengja heild­sölu­verðið hér við mark­aðs­verðið t.d. á nor­ræna raf­orku­mark­aðnum (Nord Pool Spot). Sam­keppn­is­for­skotið hér myndi þá fel­ast í hæfi­legum afslætti frá nor­ræna verð­inu. En íslenska verðið myndi sem sagt sveifl­ast í takt við hið nor­ræna. Þessi þróun eða verð­teng­ing er reyndar þegar haf­in, því nýlegur samn­ingur LV og Norð­ur­áls er með þessum hætti, þ.e. tengdur við mark­aðs­verð raf­orku á Nord Pool Spot (El­spot). Kannski ætti þetta að verða hin almenna við­miðun á íslenska heild­sölu­mark­aðnum með raf­magn. Sam­keppnin hér inn­an­lands fælist þá vænt­an­lega einkum í því hversu mik­ill afsláttur af nor­ræna verð­inu væri í boði.

Mun Sam­keppn­is­eft­ir­litið bregð­ast við ábend­ingum atvinnu­lífs­ins?

Hvað sem líður raf­orku­kaup­höll eða kaup­hall­ar­verði á raf­orku, þá er enn óleyst hvort eða hvernig tak­marka eigi völd LV á raf­orku­mark­aðn­um. Ein far­sæl leið til þess gæti verið sú að bein­línis tak­marka umsvif LV við það sem kalla má stóra heild­sölu­samn­inga við raf­orku­not­end­ur. Við­miðið þar gæti t.d. verið 350 GWst eða 500 GWst árleg kaup að lág­marki. Einnig mætti setja skýr­ari opin­berar reglur um við­skipti LV við önnur raf­orku­fyr­ir­tæki í því skyni að tryggja betur sam­keppn­ina.

Fyrsta skrefið væri þó kannski að Sam­keppn­is­eft­ir­litið tæki íslenska raf­orku­mark­að­inn til ítar­legri skoð­un­ar. Og setti fram hug­myndir um hvernig mögu­lega mætti gera sam­keppn­ina þar virk­ari.

Með hlið­sjón af ítrek­uðum kvört­un­ar­tón­inum í skýrslum ýmissa fyr­ir­tækja­sam­taka hér  um raf­orku­verðið og þá stað­reynd að LV er ráð­andi aðili á a.m.k. mjög stórum hluta íslenska raf­orku­mark­að­ar­ins, er varla nema sjálf­sagt að skoða þetta mál ofan í kjöl­inn. Og það hljóta að vera ein­hverjar leiðir mögu­legar til að efla sam­keppni á íslenskum raf­orku­mark­aði. Ef slík sam­keppni er ekki nægj­an­leg nú þeg­ar.

Nið­ur­staða: For­skot er til staðar en sam­keppnin er óveru­leg

Nið­ur­staðan í hnot­skurn er sú að sterk eft­ir­spurn eftir raf­magni hér bendir til þess að á Íslandi sé verið sé að bjóða sam­keppn­is­hæft orku­verð. Sterkasta sam­keppn­is­for­skotið núna felst senni­lega í því að hér bjóð­ast sumum fyr­ir­tækjum raf­orku­samn­ingar á föstu verði í erlendri mynt til margra ára. Ann­ars staðar í N-Evr­ópu virð­ast ekki dæmi um að svo hag­kvæmir lang­tíma­samn­ingar séu í boði. Og meira að segja á hinum almenna raf­orku­mark­aði hér virð­ist sem fyr­ir­tæki  álíti íslenska raf­orku­verðið afar hóf­legt, sbr. nýleg frétt um nýsköp­un­ar­fyr­ir­tækið Alga­líf. Full­yrð­ing SI um tapað sam­keppn­is­for­skot Íslands stenst því tæp­lega.

En þó svo Ísland bjóði upp á sam­keppn­is­hæft orku­verð, a.m.k. fyrir hluta raf­orku­kaup­enda, er raf­orku­mark­að­ur­inn hér sann­ar­lega ógagn­sær og sam­keppnin í raf­orku­söl­unni er vissu­lega tak­mörk­uð. Ein leið til að auka gagn­sæi og sam­keppni gæti falist í ein­hverri útfærslu því að raf­orku­verð hér yrði tengt kaup­hall­ar­verð­inu á nor­ræna raf­orku­mark­aðn­um. Um leið er bæði sjálf­sagt og eðli­legt að huga að öðrum sér­stökum ráð­stöf­unum til að tryggja meiri sam­keppni á íslenska raf­orku­mark­aðn­um. Þar ætti Sam­keppn­is­eft­ir­litið kannski að sýna frum­kvæði með sér­stakri athugun og til­lögu­gerð.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Breska þingið tók ráðin af ríkisstjórninni vegna Brexit
Þingmenn breska þingsins samþykktu í gærkvöldi að þingið myndi ákveða hvaða atkvæðagreiðslur verða haldnar um næstu skref í Brexit-viðræðunum. Þrír ráðherrar sögðu af sér til að kjósa með tillögunni en í heild hafa nú 27 ráðherrar sagt af sér vegna Brexit
Kjarninn 26. mars 2019
Skuldabréfaeigendur tilbúnir að leggja sitt af mörkum - Lítill tími til stefnu
Skuldabréfaeigendur WOW air eru tilbúnir að taka hlut í félaginu í skiptum fyrir niðurfellingu skulda.
Kjarninn 25. mars 2019
Aflýsa flugi frá London - Rauðglóandi síminn hjá Neytendasamtökunum
Forsvarsmenn WOW air reyna nú allt til að bjarga félaginu frá gjaldþroti.
Kjarninn 25. mars 2019
Ríkislögmaður neitar að afhenda gögn - Kjarninn kærir
Kjarninn óskaði eftir því frá forsætisráðuneytinu, að fá afhent sérfræðiálit og gögn frá þeim sem veittu Ríkislögmanni ráðgjöf í hinu svokallaða Landsréttarmáli.
Kjarninn 25. mars 2019
Þröstur Ólafsson
Samábyrgð og þau afétnu
Kjarninn 25. mars 2019
Bjarni Benediktsson
Ríkisstjórnin með tilbúnar áætlanir ef rekstur WOW air stöðvast
Fjármála- og efnahagsráðherra segir stjórnvöld vera viðbúin ef rekstur WOW air stöðvast. Hann segir þó ekki réttlætanlegt að setja skattfé inn í áhætturekstur sem þennan.
Kjarninn 25. mars 2019
Flestar áskriftir Alþingis eru að Morgunblaðinu
Alþingi er með 13 áskriftir að Morgunblaðinu auk netáskrifta, sem og aðgang að gagnasafni mbl.is.
Kjarninn 25. mars 2019
HS Orka á tvö orkuver, í Svartsengi og svo Reykjanesvirkjun.
Meirihlutinn í HS Orku seldur fyrir 37 milljarða króna
Búið er að skrifa undir kaupsamning á meirihluta hlutafjár í eina íslenska orkufyrirtækinu sem er í einkaeigu.
Kjarninn 25. mars 2019
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar