Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var myndað um samfélagslega mikilvæg verkefni; margboðaða uppbyggingu innviða og að skapa frekari sátt í samfélaginu. Nokkuð kunnugleg stef og óumdeild, því flestir ef ekki allir stjórnamálaflokkar hafa sett fram þessi loforð í síðustu tvennum kosningum. Ríkisstjórnin hefur hins vegar sýnt með verkum sínum að þetta eru ekki orðin tóm.
Fyrstu 100 dagarnir
Innan við mánuði eftir að hafa tekið við völdum lagði ríkisstjórnin fram ný fjárlög fyrir árið 2018 þar sem útgjöld til mikilvægra málaflokka voru aukin um 19 milljarða frá fjárlögum fyrri ríkisstjórnar. Heilbrigðismálin voru þar lang fyrirferðamest. Þegar ríkisstjórnin hafði verið við völd í 100 daga voru tæplega 90% af þeim aðgerðum sem kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum í undirbúningi eða hafin. Þar af var vinna við um 60% þeirra hafin, komin vel á veg eða lokið.
Þegar afrekaskráin og fjármálaáætlun 2019-2023 eru skoðuð, má sjá að áherslan hefur sérstaklega verið á heilbrigðis- og umhverfismál, en Vinstri græn stýra bæði Heilbrigðis og Umhverfisráðuneyti. Á næstu fimm árum verður fé til reksturs í heilbrigðiskerfinu aukið um 79 milljarða og 101 milljarður lagður í byggingarframkvæmdir. Heildarframlög til umhverfismála verða aukin um 35% að raungildi. Uppsafnað aukið útgjaldasvigrúm til ýmissa áherslumála nemur alls 14,7 ma. króna yfir tímabilið.
Ekki setið auðum höndum
Af þeim fjölmörgu málum sem ríkisstjórnin hefur lokið við má nefna:
- Dregið úr greiðsluþátttöku aldraðra og öryrkja vegna tannlækninga með gjaldskrárlækkun (tekur gildi 1. júlí).
- Lögfesting NPA.
- Frítekjumark ellilífeyrisþega hækkað úr 25.000 í 100.000 krónur.
- Stórátak í uppbyggingu hjúkrunarrýma hafið. Hjúkrunarrýmum verður fjölgað um 550 á næstu árum og aðbúnaður bættur við önnur 240.
- Frá 2019 verður 4 milljörðum veitt árlega til bættra kjara örorkulífeyrisþega.
- Heimilisuppbót örorkulífeyrisþega hækkuð.
- Hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi verða hækkaðar úr 520.000 í 600.000 frá 1. janúar 2019. Fæðingarorlof mun lengjast í tólf mánuði.
- Stofnstyrkir til byggingar félagslegs leiguhúsnæðis hækkaðir um 800 milljónir á næsta ári. Frá 2020 er gert ráð fyrir stofnstyrkjum til bygginga allt að 300 félagslegra leiguíbúða árlega.
- Istanbúl-samninginn fullgiltur.
- Aðgerðaráætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota fullfjármögnuð.
- Loftslagsráð skipað. Ráðið hefur störf í júní.
- Veitt fjármagni í endurheimt votlendis.
- Vinna við loftslagsstefnu og aðgerðaráætlun Stjórnarráðsins sett af stað og fjármögnuð.
- Tæplega 3 milljörðum króna veitt til uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum með áherslu á landvörslu og friðlýst svæði.
- Þverpólitísk nefnd um stofnun miðhálendisþjóðgarðs skipuð.
- Þverpólitíska nefnd til að vinna orkustefnu fyrir Ísland til 20-30 ára skipuð.
Hér er aðeins horft til heilbrigðis-, velferðar og umhverfismála og listinn mjög langt frá því að vera tæmandi. Þá eru öll hin ráðuneytin eftir, en þau verða að bíða næstu greinar.
Samræðustjórnmál, nefndir og starfshópar
Það er ekki endilega vinsælt að tala um nefndir og starfshópa. Sjálfur er ég sannfærður um að það sé oft eina rétta leiðin að skjóta málum til nefndar eða fela þau starfshóp þar sem fólk getur unnið þvert á flokka eða fylkingar um að finna skynsamlega niðurstöðu sem allir geta sætt sig við. Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á slíka þverpólítíska vinnu sem getur lyft mikilvægum málum upp úr skotgrafahernaði flokkarígsins.
Samræða getur líka verið öflugt pólítískt tæki til að skapa sátt. Það vakti athygli þegar aðilum vinnumarkaðarins var boðið til skrafs og ráðagerða við stjórnmálaflokkana í stjórnarmyndunarviðræðunum. Það samtal er enn í gangi. Í samráði við verkalýðshreyfinguna verður skattkerfið tekið til skoðunar, hvort eigi að nýta persónuafsláttinn til að bæta hag þeirra sem verst kjörin hafa, og hvernig samspilið er best við bótakerfið. Starfshópur um endurskoðun örorkulífeyrisgreiðslna hefur þegar tekið til starfa.
Af samtölum við fólk víða um land hefur mér sýnst að væntingar til ríkisstjórnarinnar séu miklar. Ástæðan er ekki síst sú að eftir mörg ár niðurskurðar og samdráttar hefur safnast upp gríðarmikið af verkefnum. Ríkisstjórnin hefur þegar sýnt það í verki að hún er vel undir verkefnið búin, og ég vænti þess að hún muni halda áfram að standa undir væntingum. Eða eins og segir í einu bindi hinar merku ritraðar Íslensk fyndni að maður einn hafi sagt á bæ einum í réttarkaffi þegar kleinufatið var tómt: Þakka fyrir það sem komið er – vonast til að fá meira.
Höfundur er þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs fyrir Reykjavíkurkjördæmi suður.