Það hefur lengi verið talað fyrir því að byggja upp öflugt nýsköpunarumhverfi á Íslandi, þar sem sprotafyrirtæki og stærri fyrirtæki sem stunda rannsóknir og þróun geta unað sér vel. Rökin fyrir þessu eru að þau lönd sem hafa markað sér skýra stefnu um stuðning við nýsköpun, sprota, rannsóknir og þróun hafa uppskorið mikinn vöxt.
En ýmislegt stendur í vegi fyrir þeim sem ætla út í rekstur sprotafyrirtækja á Íslandi, í hvaða geira sem er. Það er áhugaverð æfing að rekja sig í gegnum lífsraunir frumkvöðuls sem stofnar fyrirtæki.
Til að byrja með kostar rúmlega fimmtíu sinnum meira að stofnsetja fyrirtæki á Íslandi en til dæmis í Þýskalandi eða Bretlandi. Gjaldið, sem rennur til Ríkisskattstjóra, er notað til að fjármagna rekstur embættis Ríkisskattstjóra, vegna þess að ríkisstjórnir Íslands hafa ekki viljað tryggja embættinu nægilegt fjármagn úr ríkissjóði til að sinna skatteftirliti og öðru. Því borgar fólk 131.000 kr hér, meðan þýskur aðili borgar 1700 krónur og breskur borgar um 1800 krónur.
Næst þarf stofnandi sprotafyrirtækis að eiga hálfa milljón í hlutafé. Hægt er að fara í skapandi bókhaldsæfingar til að ná upp í þá upphæð, oftast með því að láta skráningargjaldið og ofmetna fartölvu upp í, en tiltölulega fá fyrirtæki hefja rekstur sinn með hálfa milljón í reiðufé inni á bankabók.
Þvert á móti þurfa fyrirtæki að útvega sér fjármagn. Þetta er oftast gert með lánum erlendis, en vextir eru svo háir á Íslandi að það er vel skiljanlegt þegar fólk sleppir því að fara út í rekstur frekar en að skuldsetja sig. Það eru hvorki til sérstök frumkvöðlalán né yfir höfuð góð kjör af nokkru tagi hjá bönkunum fyrir ný fyrirtæki. Vaxtastigið á Íslandi þarf að lækka.
Sumir verða þó heppnir og fá fjármagn frá fjárfestum. Bestu leiðirnar til þess til að minnka áhættu fyrir hugsanlega fjárfesta, á borð við breytanleg skuldabréf (e. convertible bond), eru skattlagðar strax í upphafi ferlisins þannig að fjárfestingin nær ekki nema ákveðið langt. Fjárfestarnir eru jafnframt vanir himinháum vöxtum og gera því heimtingar á háa ávöxtun. Oft er ætlast til þess að fá sexfalda til áttfalda fjárfestingu til baka á örfáum árum, sem er auðvitað ómögulegt í flestum tilfellum og engum fjárfestum dytti til hugar að krefjast erlendis. Skynsamir frumkvöðlar hörfa oft frá slíkum kröfum ef þeir eiga þess nokkurra kosta völ.
Á þessum tímapunkti þarf frumkvöðullinn okkar að fara að borga sér laun. Margir sem eru að hefja rekstur reyna að borga sér algjört lágmark í upphafi þar til peningarnir fara að flæða inn, sérstaklega í þeim geirum þar sem langhlaup er að sölutekjum og hagnaði. En sérfræðingar sem stofna fyrirtæki í sínum greinum geta átt von á því að skatturinn krefjist þess að þeir borgi sér samkeppnishæf markaðslaun ─ svokallað reiknað endurgjald ─ frá byrjun, sem er oft algjörlega óraunsætt fyrir þá sem eigendur þessara nýju sprota.
En það eru ekki bara launin. Launatengdu gjöldin eru mjög íþyngjandi fyrir sprota. Þótt samfélagsleg markmið þeirra séu ágæt, þá verður að teljast undarlegt í þróuðu samfélagi að innheimtur sé launaskattur (þ.e., tryggingargjald) í viðbót við tekjuskatt. Þá hefur mótframlag til lífeyrissjóða hækkað töluvert undanfarin ár, sem einnig þyngir róðurinn. Á meðan lífeyrissjóðir eru nauðsynlegir hlýtur að vera til betri leið.
Kannski fer frumkvöðullinn þá leið að sækja um styrki. Samkeppnissjóðir á Íslandi eru ótrúlega margir, en flestir ekki mjög digrir. Þeir veita marga góða styrki á hverju ári, sem er afar gott, en styrkirnir eru oftast frekar smáir og samkeppnin um þá er hörð. Nýsköpunarmiðstöð Íslands býður upp á þjónustu til að auka líkur á árangri í styrkumsóknum en eðli málsins samkvæmt er aðstoðin takmörkuð. Sjóðirnir eiga líka við sín eigin vandamál að etja. Það hefur oft reynst þeim erfitt að skipa nefndir með nógu breiða þekkingu til að fara yfir styrkumsóknirnar ─ og oft er hreinlega skortur á sérfræðingum til að lesa yfir styrkumsóknir og meta þær rétt.
Almennt er fjárfestingaumhverfið hér á landi erfitt. Samkvæmt skýrslu OECD um aðalvísa í vísindum og tækni sem birtist 7. febrúar 2017 (sjá hér) námu fjárfestingar á Íslandi til rannsókna og þróunar 2,19% af vergri landsframleiðslu árið 2016. Hæsta fjárfestingarhlutfallið samkvæmt gögnum OECD er 4,25% af vergri landsframleiðslu í Ísrael, 4,23% í Suður-Kóreu, 3,49% í Japan, 3,26% í Svíþjóð, 3,07% í Austurríki, 2,96% í Danmörku, 2,90% í Finnlandi, 2,87% í Þýskalandi, 2,79% í Bandaríkjunum, 2,45% í Belgíu, 2,23% í Frakklandi og 2,21% í Slóveníu.
Það er stefna Vísinda- og tækniráðs að ná 3,0% árið 2024, og ég hef lagt fram þingsályktunartillögu tvívegis fyrir Alþingi að ná skuli hlutdeildinni okkar upp í 2,8% fyrir 2020,en tilllagan hefur ekki hlotið afgreiðslu. Það væri ágætt ef þessi markmið myndu nást, en ég hef ekki ennþá séð neitt gríðarlega sannfærandi um að það muni gerast.
Það má hvetja til slíkra fjárfestinga með ýmsum hætti. Fyrir síðustu kosningar börðust Samtök iðnaðarins mikið fyrir því að afnumið yrði endurgreiðsluþak vegna rannsókna og þróunar og hefur það ratað inn á stefnuskrá núverandi ríkisstjórnar. Ég sagði á fundi SI fyrir kosningar að hætt væri að litið yrði á þetta sem galdralausn og framhjá öðrum nálgunum. Það er vissulega ágætt að afnema endurgreiðsluþakið, en þau lönd sem hafa staðið sig best í nýsköpun í Evrópu, á borð við Svíþjóð og Sviss, hafa hvorugt farið þá leið að endurgreiða hluta af útlögðum rannsóknarkostnaði.
Mun fleiri leiðir eru til staðar, til dæmis skattafslættir fyrir sérfræðinga sem flytja til landsins, sérstakar skattaívilnanir til fyrirtækja sem skrá einkaleyfi eða önnur hugverk, eða ýmislegt í þeim dúr. Það mætti skoða bland þessara leiða, enda engin fullkomin uppskrift til.
En segjum sem svo að frumkvöðullinn okkar hafi náð að setja fyrirtækið á fót og fjármagnað rekstur þess næstu tvö árin. Með því er hann strax búinn að ná lengra en flestir, en þrautagöngunni er alls ekki lokið.
Nú þarf þetta vaxandi fyrirtæki að nálgast starfsfólk. Einhverjir munu fást innanlands, en einhverjir munu þurfa að koma utan frá. Starfsfólkið sem fæst innanlands er oft vel menntað fólk sem kemur úr háskólum inn í umhverfi þar sem fá áhugaverð tækifæri finnast, og þau tækifæri sem finnast krefjast meiri reynslu en mögulegt er að þeir hafi getað aflað sér. Hluti vandans þarna er hreinlega hve lítill fjöldi fyrirtækja hafa náð sér á það strik að geta ráðið nýútskrifað fólk.
En á Íslandi er líka almennt mikill skortur á fólki, sem gerir það að verkum að vinnuafl er bæði dýrt, og sérfræðingar oft ófáanlegir. Einhverja er hægt að lokka frá Evrópusambandslöndum með miklum tilkostnaði, en ef flytja þarf inn sérfræðinga frá löndum utan EES svæðisins tekur við flókið ferli þar sem ef vel gengur kemst sérfræðingurinn inn í landið, en ekki endilega maki eða börn sérfræðingsins, því það er sjálfstætt og stundum ómögulegt skref. Innflytjendastefna Íslands er skaðleg fyrir fyrirtækin í landinu.
Innflutningur á fólki er þó varla jafn stórt vandamál og innflutningur á gjaldeyri. Frumkvöðullinn okkar, hvers fyrirtæki er með tekjur í erlendri mynt en útgjöld í íslenskum krónum, stendur höllum fæti gagnvart gríðarlega sterkri krónu sem bregst við öllum góðum árangri útflutningsfyrirtækja með því að éta þann árangur á gjaldeyrismörkuðunum. Þau geta svo sem reynt að baka gengisflöktið inn í verðin hjá sér, en það er þá ómögulegt að keppa við erlenda keppinauta. Örgjaldmiðilsstefna ríkisstjórnarinnar kostar fyrirtæki landsins samkeppnishæfni sína.
Öll þessi vandamál eru yfirstíganleg. Rétt eins og Ástríkur sigraðist á skriffinskumaskínu Sesars hafa margir íslenskir frumkvöðlar komist í gegnum þrautagöngu íslenska nýsköpunarumhverfisins og skilað gríðarlegum tekjum í þjóðarbúið. En maður veltir því fyrir sér hvort að þetta sé nauðsynlegt. Væri ekki betra að hjálpa þeim sem vilja ná langt að gera það, vitandi það að það er allra hagur að þeim takist?
Ríkisstjórn Íslands þarf að fara að vinna markvisst að því að gera Ísland að samkeppnishæfu landi til reksturs fyrirtækja svo að íslenskir frumkvöðlar nái góðum árangri en ekki síður til að erlend fyrirtæki fari að sjá hag sinn í því að vera á Íslandi frekar en annars staðar.
Landflótti frumkvöðla frá sökkvandi hagkerfi Brexit-lands er flóttamannavandi sem Ísland ætti að leitast við að njóta góðs af, en Ísland hefur því miður ekkert aðdráttarafl samanborið við Þýskaland, Svíþjóð, eða önnur Evrópulönd þar sem framtíðin er hluti af efnahagsstefnunni. Íslenska ríkið hefði átt að setja sér það markmið strax þegar Bretar ákváðu að ganga út úr ESB að reyna að lokka til sín um 3% þeirra fyrirtækja sem koma til með að flýja Bretland því þau komast ekki af án innri markaðar Evrópusambandsins.
Hluti af vandanum er metnaðarleysi stjórnvalda, hluti er skilningsleysi stjórnmálanna á málaflokknum og hluti vandans er víðtækt áhugaleysi gagnvart framtíðinni ─ það er lenska í kerfinu að reyna að viðhalda því sem er til fyrir frekar en að skapa aðstæður fyrir vöxt. Pirring gagnvart þeirri lensku hafa ótalmargir lýst fyrir mér, bæði frumkvöðlar, fjárfestar, áhugafólk um sprotafyrirtæki, sérfræðingar í nýsköpun og fólk tengt samkeppnissjóðum. Flestir eru að reyna sitt besta, en þrautirnar eru þungar.
Þetta snýst hreinlega um að gera betur. Hluti af því er að hætta að vera með óþarflega flóknar, dýrar og jafnvel fáránlegar hindranir fyrir frumkvöðla sem vilja fara af stað. Ef vel er að staðið getur Ísland á fáeinum árum og með litlum tilkostnaði staðið öðrum þjóðum framar sem stökkpallur framtíðarinnar.
Höfundur er þingmaður Pírata.