Meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis lagði í síðustu viku fram frumvarp um endurútreikning veiðigjalda.
Þríþættur tilgangur
Tilgangur frumvarpsins er þríþættur:
- Í fyrsta lagi er frumvarpið lagt fram vegna þess að núverandi lög renna út 31. ágúst og ef ekkert er að gert verða engin veiðigjöld innheimt síðustu fjóra mánuði ársins.
- Í öðru lagi felur frumvarpið i sér þá breytingu að í stað þess að afkomutengd veiðigjöld miðist við afkomu sjávarútvegsins þremur árum aftur í tímann þá verði þau miðuð við afkomuna árið á undan.
- Í þriðja lagi felur frumvarpið í sér að tekin verður upp skýrari afkomutenging, og afslættir fyrir litlar og meðalstórar útgerðir. Hún byggir á niðurstöðu veiðigjaldsnefndar á grundvelli nýrrar úttektar á rekstri sjávarútvegsfyrirtækja, en það er nefnd sérfræðinga sem var skipuð árið 2012 og er ætlað að hafa viðvarandi könnun á afkomu sjávarútvegs.
Nýjar upplýsingar lagðar til grundvallar
Þegar sérstök veiðigjöld voru lögð á af vinstristjórninni árið 2012 var hugsunin að þau yrðu afkomutengd. Um þessa afkomutengingu veiðigjalda hefur verið góð samstaða.
Samdráttur í sjávarútvegi hefur verið umtalsverður undanfarin ár og sjálfstæðum atvinnurekendum hefur fækkað í greininni. Á tólf árum, frá 2006, hefur þeim fækkað um 60%, sem er áhyggjuefni og merki um aukna samþjöppun í greininni. Á örfáum árum hefur gengi krónunnar styrkst um tugi prósenta sem aftur hefur áhrif á afkomu sjávarútvegsins. Og þetta er mikilvægt atriði sem gleymist oft í umræðunni. Versnandi afkoma í sjávarútvegi kemur verst niður á minni sjávarútvegsfyrirtækjum og þess vegna er lögð sérstök áhersla á það í frumvarpinu að koma til móts við þau með sérstökum afsláttum.
Innheimt veiðigjöld ársins 2017 voru 8,4 milljarðar króna. Frumvarp um endurútreikning gerir ráð fyrir því að innheimt veiðigjöld ársins 2018 verði 8,6 milljarðar króna, en að teknu tilliti til sérstaks afsláttar fyrir minni sjávarútvegsfyrirtæki verða þau 8,3 milljarðar króna.
Frumvarpið nú þýðir 1,7 milljarði króna lægri veiðigjöld en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu sem samþykkt var fyrir sex mánuðum, en 1,3 milljörðum hærri en gert er ráð fyrir í fjármálaáætlun sem kom fram í apríl.
Afkomutengd veiðigjöld miðist við nýjustu upplýsingar
Veiðigjöld hafa fram til þessa verið byggð á afkomu sjávarútvegsins tvö til þrjú ár aftur í tímann. Frá árinu 2012 hefur það verið markmiðið að færa þessa útreikninga nær rauntíma enda er óheppilegt að miða afkomutengd veiðigjöld við afkomu nokkur ár aftur í tímann.
Samstaða hefur ríkt um það í stjórnmálunum að mikilvægt sé að breyta þessu og færa útreikninginn eins nálægt rauntíma og hægt er. Með frumvarpinu er það lagt til. Slík breyting mun þó alltaf og óhjákvæmilega fela í sér breytingu á innheimtri upphæð. Þau sem vilja rauntímaútreikning, en enga lækkun, verða því að svara því til hvort þau vilji bíða með kerfisbreytingarnar þar til þannig árar að þær skili hækkun en ekki lækkun. Og þá hvenær þau telja að af því verði. Það væri heiðarlegt.
Fyrir mér eru markmiðin skýr, þegar að sjávarútvegi kemur. Ég vil sjálfbæra umgengni um auðlindina, sjálfbæran rekstur, að sjávarútvegur geti gegnt mikilvægu hlutverki í atvinnulífi í byggðum landsins, að hann geti haldið áfram að þróast í átt til umhverfisvænni veiða og vinnslu með auknum fjárfestingum og verið þannig hluti af aðgerðum okkar til kolefnisjöfnunar. Á sama tíma vil ég sem hæst gjald til ríkissjóðs fyrir afnot af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Um þetta á umræðan að snúast, að mínu vitu; hvaða fyrirkomulag er best til að tryggja allt þetta.
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna og einn flutningsmanna frumvarps um breytingar á veiðigjöldum.