Fiskurinn og nýfrjálshyggjan

Karl Fannar Sævarsson, mannfræðingur, fór í smá söguskoðun og rýnir í tengsl kvótakerfisins, nýfrjálshyggju og efnahagshrunsins árið 2008.

Auglýsing

Árið 1975 gaf Hafrannsóknarstofnun út „svörtu skýrsluna“ svokölluðu þar sem kom fram að fiskistofnar við strendur Íslands voru illa á sig komnir. Ljóst var að grípa þurfti í taumana ef ekki átti illa að fara svo ráðist var í kerfisbreytingar á sjávarútvegi sem endaði með tilkomu kvótakerfisins. Tímabundin lög um aflamark voru sett á árið 1984, en áður hafði verið settur sambærilegur kvóti á síld og loðnu. Sex árum seinna var kvótakerfið svo fest í sessi með ótímabundnum lögum. Með frjálsari flutningi aflaheimilda hækkaði verðmæti aflaheimildanna margfalt, bankarnir högnuðust og fjárfesting jókst til muna. Segja má að kvótakerfið hafi fallið einkar vel að hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem var að ryðja sér til rúms um svipað leiti. Sósíalisma og kommúnisma átti að leysa af með  markaðshyggju og Ísland var sannarlega engin undantekning. Nokkru seinna voru bankarnir og fleiri ríkisstofnanir einkavæddar þar sem velvildarmenn stjórnmálamanna komust meðal annars yfir einkavæddar stofnanir. Nokkrir af þessum einstaklingum voru kvótahafar en þannig voru kvótahafar komnir með bein tengsl inn í bankana.

Sú efnahagsþensla sem varð á Íslandi fyrir hrun má því að hluta til rekja beint til kvótakerfisins. Áður en kvótakerfið var sett á laggirnar lágu helstu verðmæti útgerðanna í fastafjármunum eins og skipum, búnaði og fasteignum, en eftir að ný lög voru sett á árið 1997 var útgerðunum heimilt að veðsetja aflaheimildir fyrir láni. Það skapaði gríðarlegan auð á stuttum tíma, auður sem aldrei áður hafði verið til í íslensku samfélagi. Verðmæti útgerðarfyrirtækja margfaldaðist sem og verðmæti auðlindarinnar, sem var til þess að verð á mörkuðum hækkaði. Þessi nýji auður kom sér einkar vel fyrir bankana þar sem auknar eigur og bætt eiginfjárhagsstaða þeirra dró að erlenda fjárfesta (Níels Einarsson, 2015).

Útgerðarfyrirtæki í útrás

Þegar kemur að íslenskum fjárfestingum í hinum nýja heimi nýfrjálshyggjunnar voru það að mörgu leyti íslensk útgerðarfyrirtæki sem riðu á vaðið. Almenn höft á fjármálamörkuðum og viss þröngsýni höfðu haldið aftur af slíkum viðskiptum fyrir tíunda áratug síðustu aldar. Íslensk útgerðarfyrirtæki keyptu erlend fyrirtæki úr sama geira, mest í Evrópu en einnig víðar. Þetta var að mörgu leyti gert til að komast inn fyrir ákveðna tollamúra, til að auka fjárfestingu og til að sækja inn á ný fiskimið. Sem dæmi má nefna að árið 1990 keypti Samband íslenskra fiskframleiðenda (SÍF) franska fyrirtætið NordMoure, Grandi keypti hlut í fyrirtækinu Friosur frá Síle árið 1992, árið 1993 keypti Útgerðarfélag Akureyrar fyrirtækið Meclenburger Hochseefisherei og tveimur árum seinna keypti Samherji Deutsche Fishfang Union. Meginmarkmið kaupanna hjá þessum félögum var að tryggja aðgang að aflaheimildum. Undir lok aldarinnar hófst svo nýtt tímabil í fjárfestingum íslenskra útgerðarfyrirtækja þegar kaupendur reyndu að lengja virðiskeðju fyrirtækja sinna með enn frekari fjárfestingum. Þannig vildu þau geta fullunnið og selt íslenska vöru á nýjum mörkuðum erlendis.

Auglýsing

Með slíkum fjárfestingum má segja að línurnar hafi verið lagðar fyrir komandi ár. Auðlindarentan hafði að miklu leyti safnast saman til stóru útgerðanna sem uxu hratt á árunum fyrir hrun. Því meira sem kvóti safnaðist á stóru fyrirtækin því hlutfallslega meiri var auðlindarentan. Samherji er gott dæmi um slíkt, fyrirtækið stækkaði hratt eftir kaup sín á þýska fyrirtækinu Deutsche Fishfang Union GmbH og eru eignir Samherja (2017) metnar á tæplega 190 milljarða króna og eigið fé upp á tæplega níutíu milljarða. Útgerðarmenn keyptu hin ýmsu fyrirtæki eða fjárfestu í eignum og hlutum bankanna við einkavæðingu þeirra og fóru því að hafa áhrif út í samfélagið. Þorsteinn Már Baldvinsson, framkvæmdarstjóri Samherja, keypti stórann hlut í Glitni, sem og útgerðarmaðurinn Jakob Valgeir Flosason, sem fjárfesti í gegnum félagið Stím. Þorsteinn Már Baldvinsson varð síðar stjórnarformaður bankans.

Yfirspenna og (óhjákvæmilegt) hrun

Níels Einarsson (2015) bendir á að árið 2000 hafi Seðlabankinn ráðlagt gegn því að nota aflaheimildir sem veð en þær hækkuðu hratt í verði og voru taldar verulega ofmetnar. Engu að síður fóru bankarnir í umfangsmiklar aðgerðir við að kaupa upp smærri útgerðarfyrirtæki og þá kvóta sem þau áttu. Þar að auki buðu bankarnir upp á lán, sem virtust vera arðbær, í erlendri mynt til að fjárfesta í kvótakaupum. Þetta varð til þess að virði aflaheimilda jókst til muna sem og veðin sem hægt var að setja á þær og í kjölfarið blésu efnahagsreikningar bankanna upp.

Með minni hömlur komust bankar upp með að geyma aðeins brot af þeim fjármunum sem þeir áttu og lánuðu út háar upphæðir til að fjármagna umfangsmikil kaup víða um Evrópu. Á árunum 2001 til 2007 hækkaði virði íslenska verðbréfahlutamarkaðarins um 44 prósent á ári að meðaltali og á meðan styrktist gengi krónunnar (Gísli Pálsson og Durrenberger, 2015). Sé skoðuð þróun á verði á þorski sem aflahlutdeild á kvótamarkaði kennir ýmissa grasa. þegar Seðlabankinn varaði við því árið 2000 að veð í kvóta væru of há til að standa undir sér var þorsksígildið um 800 krónur á kíló. Þegar bankarnir féllu var það komið upp í 4400 krónur. Það var mun meira en nokkur útgerð eða fjárfestir gat séð sem hagkvæma fjárfestingu á kvóta. Árin 2007 og 2008 var heildarvirði kvóta á Íslandi um tvö þúsund milljarðar eða fimm sinnum meira en árlegur hagnaður íslenska sjávarútvegsins. Þegar efnahagshrunið skall á lækkaði virði kvótans um meira en helming og árið 2012 var þorskígildið komið niður í 2000 krónur (Níels Einarsson, 2015). Ætla má, í krónum talið, að gengislækkun krónunnar í kjölfar hrunsins hefði gert aflahlutdeildir verðmætari og að þorsksígildið myndi hækka frekar en lækka. Af þessu má draga þá ályktun að framboð á lánsfé frá bönkunum hafi haft meiri áhrif á verð á aflahlutdeildum heldur en raunverulegt verðmæti þeirra.

Eftirmálar

Af hverju var kvótinn þá ekki innkallaður þegar bankarnir voru þjóðnýttir í kjölfar bankahrunsins? Jú, miklir fjármunir höfðu verið lánaðir til útgerðanna til fjárfestingar. Í lok árs 2008 var talið að skuldir sjávarútvegsins gagnvart bönkunum væru um 560 milljarðar. Bankarnir þurftu að festa þessar skuldir í sessi til að tryggja sig og erlenda fjárfesta. Bankarnir máttu ekki við því að hrófla við þessum lánum, þar sem þau sköpuðu þeim líflínu með vöxtum og afborgunum. Að lokum fór það svo að Sáttanefndin lagðist gegn því að kvóti væri innkallaður af ríkinu því að það myndi setja lán þessi í uppnám. Þar með gátu bankarnir og útgerðirnar treyst því að óbreytt ástand yrði á íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu (Níels Einarsson, 2015). Hagmunaaðilar innan útgerðanna sögðu enn fremur að þær myndu ekki þola eignarupptöku á kvóta án nokkurra bóta og myndu þar af leiðandi ekki geta borgað af skuldum sínum. Mörg fyrirtæki myndu fara á hausinn sem myndi koma sérlega illa niður á nýstofnuðu ríkisbönkunum, því fjármögnun í bönkum væri sett í uppnám með óvissum framtíðarhorfum fyrirtækjanna og þar með væri grundvelli nýju bankana teflt í tvísýnu.

Óhætt er að segja að kvótakerfið hafi skipt þjóðinni í tvennt. Erfitt er að segja að kvótakerfið hafi ekki stuðlað að ákveðinni sjálfbærni á fiskistofnum Íslands og framsal hafi aukið hagkvæmi veiðanna, en að sama skapi hefur það orsakað margþætta félagslega og pólitíska erfiðleika. Allt frá árinu 2000 hefur verið rætt um innköllun aflaheimilda, eða frá því að Auðlindanefnd skilaði álitsgerð þar sem helstu niðurstöður hvað varðar fiskveiðar voru þær að annaðhvort væri farin svokölluð fyrningarleið eða veiðigjaldsleið. Nefndin ályktaði að best væri að fara fyrningarleiðina sem átti að réttlæta fiskveiðistjórnunarkerfið og gefa því meira lögmæti. Með þessu kerfi yrði komið í veg fyrir að stjórnmálamenn brotni undan pressu útgerðanna og leggi allt of lágt auðlindagjald á veiðarnar. Fór þó svo að veiðigjaldsleiðin, (og þótti mörgum það ódýr leið til að reyna að koma á sátt) var farin og voru lög um hana samþykkt á Alþingi árið 2002. veiðigjöld eru ennþá við lýði og virðast ætla að vera þrætuepli ögn lengur.

Heimildir:

Gísli Pálsson og Durrenberger, E. P. (2015). Gambling debt: Iceland´s rise and fall in the global economy. Boulder: University Press of Colorado.

Níels Einarsson. (2015). When fishing rights go up against human rights. Í Gísli Pálsson og E. P. Durrenberger (Ritstjórar), Gambling debt: Iceland´s rise and fall in the global economy (bls 151-162). Boulder: University Press of Colorado.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þrettán starfsmenn Landspítalans í einangrun
Um helgina komu upp smit hjá starfsmönnum í nokkrum starfseiningum Landspítala. Rakning er langt komin og þrettán starfsmenn eru komnir í einangrun og nokkur fjöldi starfsmanna og sjúklinga í sóttkví.
Kjarninn 26. júlí 2021
Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda Viðreisnar, mun starfa áfram með flokknum.
Sættir hafa náðst hjá Viðreisn og Benedikt starfar áfram innan flokksins
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst um að hann starfi áfram með flokknum.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meirihluti þjóðarinnar er bólusettur og meirihluti þeirra sem eru að greinast með veiruna er bólusettur.
116 óbólusettir greinst á einni viku
Um 64 prósent þeirra sem eru með COVID-19 á landinu eru á aldrinum 18-39 ára. Flestir sem greinst hafa síðustu daga eru bólusettir en 116 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á einni viku.
Kjarninn 26. júlí 2021
Þórður Snær Júlíusson
Endalok tálmyndar um endurkomu hins eðlilega lífs
Kjarninn 26. júlí 2021
Himinn og haf skilja fátækari ríki heims og þau ríkari að þegar kemur að bólusetningum.
Þórólfur: Hægt að hafa margar skoðanir á siðferði bólusetninga
Að baki þeirri ákvörðun að gefa fólki bólusettu með Janssen örvunarskammt býr að sögn sóttvarnalæknis sú stefna að reyna að bólusetja sem flesta hér á landi með áhrifaríkum hætti. 1,32 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Kjarninn 26. júlí 2021
Sajid Javid heilbrigðisráðherra Bretlands tók við af Matt Hancock fyrr í sumar.
Biðst afsökunar á að hafa sagt fólki að hætta að „hnipra sig saman“ andspænis veirunni
Sajid Javid heilbrigðisráðherra Bretlands segist hafa notað óheppilegt orðfæri til að lýsa því hvernig landar hans þyrftu að fara að lifa með veirunni, í ljósi útbreiddra bólusetninga.
Kjarninn 25. júlí 2021
DÓTTIR er stuttmynd um ást, þráhyggju og brotna sjálfsmynd.
Stuttmyndin DÓTTIR er „ástarbréf til Íslands“
Sofia Novakova, leik- og kvikmyndagerðarkona frá Slóvakíu, er þessa dagana að taka upp stuttmyndina DÓTTIR hér á landi. Safnað er fyrir útgáfu myndarinnar á Karolina Fund.
Kjarninn 25. júlí 2021
Hólmfríður Árnadóttir menntunarfræðingur og Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi skipa 1. og 2. sæti á lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi.
Þjórsáin okkar allra
Kjarninn 25. júlí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar