„Aldrei hefur nokkur maður í nokkurru landi haft nokkurt gagn af nokkurri danskri bók," mun Þorleifur Repp hafa sagt, en hann mun hafa verið mestur Danahatari hérlendur á sínum tíma. Hann var sérsinna og þetta er ekki rifjað upp hér til að taka undir þessi orð heldur til að minna á hitt: Danir og Íslendingar eiga sameiginlegar minningar sem ná langt aftur og samband þjóðanna var ekki á jafnréttisgrundvelli. Herraþjóð sem oft var velmeinandi að reyna að hjálpa þessu guðsvolaða fólki þar sem allar framfaratilraunir fuku á haf út eða voru nagaðar upp til agna af kindum – og fátækt fólk sem vildi standa á eigin fótum og finna sínar leiðir við að lifa af í harðbýlu landi; og tókst það um síðir. Sumt er viðkvæmt í þessum minningum – á báða bóga – og þarf oft lítið til að ýfa upp sárindi, eins og ég skynjaði stundum í gamla daga þegar ég vann sem „rengøringsassistent“ á dönsku elliheimili og sumt gamla fólkið vildi gera upp sakir við mig vegna sambandsslitanna 1944. Ég brosti bara afsakandi og svo gáfu þau mér bolsíu og ég hélt áfram að skúra.
En það skiptir máli hvernig við högum samskiptum þessara gömlu sambandsþjóða. Undir brosum og blíðu bragði búa heitar tilfinningar. Íslensk vanmetakennd beinist jafnan að Dönum og stundum er eins og sumir Danir hafi litið á Ísland sem sjálft krúnudjásnið sem þeir misstu; barnið sem fór að heiman án þess að kveðja. Maður blygðaðist sín þegar útrásargosar fóru að kaupa upp allt á Strikinu - út á krít - og kenna Dönum hvernig þeir ættu að búa til pitsur og gefa út dagblöð – með fyrirsjáanlegum konunglegum gjaldþrotum. Og manni sárnaði þegar danskt afgreiðslufólk klippti íslensk greiðslukort í Hruninu.
Þegar við nú höldum þessa fullveldishátíð, með alls konar atburðum og uppákomum víða um land, þá er það auðvitað óheppilegt að festast svona í því að tala um hana Piu; fulltrúa þeirra sem við skildum við, þess sem lagt var að baki. En þetta er viðkvæmt samband. Þegar Pia talar um okkur sem varðgæslumenn hins norræna anda – eða hvað það nú var – þá hljómar það öðruvísi en ef bara einhver Preben eða Karen hefði sagt það – miklu ískyggilegra. Allt sem Pia segir fær merkingu af fyrri orðum hennar og gerðum. Hún fór yfir strikið og þar eru hún; kemst ekkert til baka þrátt fyrir vegtyllur; bara vegtyllurnar sem færast. Úr hennar munni fær allt „norrænt“ aðra merkingu en það myndi hafa hjá manneskju sem ekki hefði spúð svona miklu eitri yfir fólk fyrir það eitt að vera „ekki norrænt“. Þannig er það bara; þetta er manneskja sem komist hefur þangað sem hún situr með því að ögra og sundra og særa, reyna á mörk hins ásættanlega málflutnings, færa þau út; og segja það sem ekki má en margt fólk hugsar á sínum verri stundum. Þau sem skipulögðu þetta allt saman gerðu það í góðri trú en gleymdu því eða áttuðu sig ekki á því hver þessi manneskja er og fyrir hvað hún stendur. Vanmátu pólitíkina í þessu – sem öðru.
Viðbrögð hennar við hófsömum mótmælum voru athyglisverð: Hún (af öllum manneskjum) fór að veita tilsögn í kurteisi. Hún talaði um að þingmenn sem létu í ljós hug sinn hegðuðu sér eins og óuppdregin börn. Þannig upplifir Stórdaninn enn þá okkur Íslendinga: börn sem annaðhvort eru hlýðin og búið að ala vel upp – eða illa upp alin. Undirtextinn er þessi: það er enginn fullorðinn lengur að passa þessi frumnorrænu villibörn ...
Pia Kjærsgaard hefur málað skrattann á vegginn árum saman í tali sínu um innflytjendur, og ekki dregið af sér, síst af öllu hagað málflutningi sínum af kurteisi. Með orðum sínum hefur hún átt ríkan þátt í því að skapa andrúmsloft þar sem í lagi er talið að veitast að fólki úti á götu fyrir yfirbragð og útlit, ekki síst konum með slæður. Þegar við minnumst þess að hafa losnað undan yfirráðum Dana – að mestu – þá er hún ekki heppilegur fulltrúi sinnar ágætu þjóðar. Það má alveg láta Dani vita af því. Já eiginlega er það bara sjálfsögð kurteisi.