Eitt af lykil stefnumálum Garðabæjarlistans er að virkja lýðræðið og vinna að gagnsærri stjórnsýslu. Við viljum að Garðabær verði leiðandi í lýðræðislegum vinnubrögðum með fjölbreyttum hætti en ekki síður leggjum við áherslu á víðtækt samráð og aukna samvinnu, þar sem unnið er markvissar að því að tryggja aðkomu allra kjörinna fulltrúa að þeirri stefnu sem markar framkvæmdir. Bæjarfulltrúum ber skylda til þess að þjónusta og vinna að bættum hag allra íbúa. Við viljum gagnsæja stjórnsýslu með þjónustuhlutverkið í forgrunni.
Grunnur að víðtækri sátt
Á bæjarstjórnarfundi í dag legg ég fram tvær tillögur til breyttra vinnubragða. Önnur kallar eftir víðtæku samráði og samstarfi í allri vinnu sem snýr að fjárhagsáætlun bæjarins þannig að fulltrúar minnihlutans séu við borðið frá upphafi til enda. Með því að allir kjörnir fulltrúar leggi hönd á plóg frá upphafi er ýtt undir víðtæka sátt um þær áherslur sem sterkastar verða. Við erum öll kosin til þess að leiða Garðabæ áfram veginn. Slíkt skiptir máli þegar ráðstafa á fjármunum úr sameiginlegum sjóðum. Því hvetur Garðabæjarlistinn til þessarar nýbreytni í vinnulagi bæjarstjórnar í Garðabæ. Ýtum undir sættir og samstarf, í þágu allra íbúa.
Hin tillagan kallar síðan eftir því að meirihlutinn leggi fram forgangsröðun stefnumála fyrir hvert ár kjörtímabilsins. Þannig má efla og treysta samstarf allra kjörinna fulltrúa en ekki síður gefa minnihluta meira svigrúm til þess að koma að þeim verkefnum sem fyrirhuguð eru. Um leið nýtum við þekkingu og sýn fleiri kjörinna fulltrúa hverju sinni.
Við hjá Garðabæjarlistanum höfum fulla trú á að sýndur vilji meirihlutans til samstarfs feli það í sér að styðja frekari formfestu á lýðræðislegri vinnubrögðum í þágu allra íbúa.
Höfundur er Oddviti Garðabæjarlistans.