Haft var eftir framámanni í viðskiptalífinu í góðærinu fyrir bankahrun – er hann gekk á skítugum skóm um eigur eins af stóru hlutafélögum landsins – að hann ætti þetta og þess vegna mætti hann haga sér eins og hann vildi.
Þetta var og er kannski enn, hugsunarhátturinn á þeim nýríku athafnamönnum sem fara með himinskautum í viðskiptalífinu – að þeir eigi fyrirtækin. Fátt er jafn fjarri sanni. Sennilega er auður þeirra nýríku af svipuðum toga og auður athafnamannanna sem settu gullduft á seríósið sitt og skruppu á þyrlum í laxveiði – pappírsgróði af endalausum vafningsfléttum með hlutabréf og skuldabréf – engum til góða öðrum en þeim sjálfum.
Í dag eiga lífeyrissjóðir launafólks um 40% hlutafjár skráðra hlutafélaga á markaði. Þeir sem fara með stjórnina í fyrirtækjunum eiga yfirleitt lítið sem ekkert í þessum fyrirtækjum og stjórnarmenn eru oft fulltrúar einhverra sem eiga lítinn hlut en hafa mikil áhrif.
Ef litið er á flóru stjórnarmanna og stjórnenda – er það ekki ýkja fjölmennur hópur. Þetta fólk situr svo í stjórnum fyrirtækja hjá hvert öðru – gapir hvert upp í annað um snilligáfu sína og hæfileika og ákveður launaauka og ofurlaun á víxl.
Það er kominn tími til að breyta þessu!
Viljum nýja siði
Fólkið sem stofnaði verkalýðsfélögin fyrir röskum 100 árum átti ekkert. Það er fólkið sem var nýkomið úr vistarbandi og ánauð – bjó í hreysum og kotum og börnin féllu úr hor og eymd. Afkomendur þessa fólks eiga bróðurpartinn af sparifé þjóðarinnar í dag – um 4.000 milljarða og eru smátt og smátt að kaupa upp fyrirtækin á verðbréfaþingi.
Fulltrúar verkalýðsfélaganna í stjórnum lífeyrissjóða ættu að hafa skýra mynd af þeirri stjórnunarmenningu sem félagsmenn verkalýðsfélaganna – eigendur lífeyrissjóðanna – aðhyllast.
Í þeirri menningu eru ekki ofurlaun og ekki kaupaukar til toppanna.
Með nýjum herrum koma nýir siðir og launafólkið í landinu eru „nýju herrarnir“ í eigendahópi stóru fyrirtækjanna. Við viljum nýja siði. Það er fulltrúa okkar í stjórnum lífeyrissjóða að fylgja þeim vilja eftir.
Á fundi nýverið sagði ég „við eigum þetta – við eigum bara eftir að taka þetta“ og var þá að tala um eignarhald á stóru hlutafélögunum og okkur sem launafólk og greiðendur í lífeyrissjóði. Einhverjir hafa túlkað þetta sem vilja minn til að verkalýðsfélögin seilist til stjórnunarstarfa í hlutafélögum og fari að haga rekstri þeirra að eigin duttlungum. Það er ekki rétt.
Það er hægur leikur hjá stjórnum lífeyrissjóða að styðja einstaklinga til stjórnarsetu í tilteknum fyrirtækjum. Við þurfum aðeins að bera saman áherslur okkar og þeirra sem til greina koma og velja þá sem hafa sama gildismat og áherslur og veita þeim stuðning okkar. Hvort viðkomandi er félagsmaður í verkalýðsfélagi eða ekki – skiptir ekki höfuðmáli.
Með þessu getum við rofið skarð í kunningja- og frændsemissamfélagið sem virðist alráðandi í viðskiptalífinu og komið í veg fyrir að pappírstígrisdýrin séu að leika með fjármuni okkar í skjóli frænda, vina og skólafélaga í stjórnum fyrirtækjanna.
Höfundur er framkvæmdastjóri AFLs starfsgreinafélag og annar frambjóðenda til embættis forseta ASÍ.