Mynd: Magnus Frödeberg/Wikimedia Commons

„Er þetta að gerast núna?“

Hrunið áttu sér stað á nokkrum dögum snemma í október 2008. Ótrúlegir atburðir áttu sér stað, meðal annars bakvið tjöldin. Allt var breytt. Íslenska efnahagsundrið, eins og það hafði verið kallað, var horfið. Erfiðir tímar blöstu við tugþúsundum Íslendinga vegna fjárhagserfiðleika og atvinnumissis.

Þann 8. októ­ber 2008 beið ég eftir því að fá að taka við­tal við Geir H. Haarde for­sæt­is­ráð­herra í Iðnó eftir blaða­manna­fund hans og Björg­vins G. Sig­urðs­sonar við­skipta­ráð­herra. Fjöl­miðla­full­trúi í utan­rík­is­ráðu­neyt­inu beið við dyrnar upp á efri hæð­ina og kall­aði blaða­menn inn eftir röð sem hún var með skrif­aða niður á blað. Ég var síð­astur í röð­inni. Það olli mér nokkrum áhyggjum þar sem prent­un­ar­tími var um kvöld­mat. Sífellt minni tími var til stefnu eftir því sem á dag­inn leið. Ég hafði fjöl­miðla­full­trú­ann grun­aðan um að hafa sett mig aft­ast í röð­ina vegna atviks sem kom upp nokkrum mán­uðum fyrr.

Þegar atvikið átti sér stað var ég á fyrsta degi á nýju blaði, 24 stund­um, og fékk upp­lýs­ingar um það úr utan­rík­is­þjón­ust­unni að Ísland hefði samið bak við tjöldin um að styðja fram­boð Srí Lanka inn í mann­réttinda­ráð Sam­ein­uðu þjóð­anna (SÞ) gegn því að stjórn­völd í Srí Lanka myndu styðja fram­boð Íslands í örygg­is­ráð SÞ sem hafði verið í und­ir­bún­ingi frá árinu 2007. Þetta leit út fyrir að geta verið góð frétt því að Srí Lanka og mann­rétt­indi hafa ekki alltaf verið nefnd í sömu andránni, auk þess sem fram­boð Íslands inn í örygg­is­ráðið þótti um margt fífl­djarft á þessum tíma. Litla Ísland átti ekk­ert erindi í örygg­is­ráð­ið, sögðu ýms­ir. Íslensk stjórn­völd sögðu fram­boðið mik­il­vægt og að gang­verk SÞ gerði einmitt ráð fyrir því að litlar þjóðir gætu gegnt jafn mik­il­vægu hlut­verki við mik­il­vægar ákvarð­anir og stór­þjóð­ir. „Ég segi: það er bæði heil­mik­ill ávinningur af því að við kynnum Ísland og það sem það stendur fyrir á alþjóða­vett­vangi og við höfum heil­miklar skyldur að rækja á alþjóða­vett­vangi einnig. Ísland hefur enga afsökun fyrir því að axla ekki þessar skyldur þegar við lítum til þess að öll ríki Evr­ópu hafa setið í örygg­is­ráð­inu nema þau allra smæstu, örrík­in. Við lítum á okkur sem þjóð meðal þjóða og þetta er í mínum huga loka­hnykk­ur­inn í okkar sjálf­stæð­is­bar­áttu, að við rækjum þessar skyld­ur,“ sagði Ingi­björg Sól­rún Gísla­dóttir utan­rík­is­ráð­herra um fram­boðið þann 4. sept­em­ber 2007, rúm­lega þrettán mán­uðum áður en efna­hagur Íslands var á barmi hruns. Fram­boðið hafði verið í und­ir­bún­ingi innan utan­rík­is­þjón­ust­unnar allt frá árinu 1998, en Ingi­björg Sól­rún tók við fram­boðskefl­inu þegar hún varð utan­rík­is­ráð­herra vorið 2007, þegar Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn og Sam­fylk­ingin mynd­uðu saman rík­is­stjórn undir for­ystu Geirs H. Haar­de.

Á þessum tíma, ekki síst á árunum 2005-2008, virt­ust Íslandi og Íslend­ingum allir vegir færir á erlendri grundu, í það minnsta í huga margra þeirra sem voru í fram­varða­sveit íslenskra stjórn­mála og atvinnu­lífs. Íslenskt athafna­líf ein­kennd­ist af miklu sjálfs­hóli, ekk­ert virt­ist geta stöðvað Ísland eða Íslend­inga, hvað sem í veg­inum var.

Ég hringdi í marga starfs­menn ráðu­neyt­is­ins í þeirri von að ein­hver þeirra kynni að koma mér á sporið eða stað­festa að þessar upp­lýs­ingar væru rétt­ar. Þetta olli nokkrum titr­ingi og hringdi fjöl­miðla­full­trú­inn meðal ann­ars í Ólaf Steph­en­sen, sem þá var yfir­rit­stjóri Árvak­urs, útgáfu­fé­lags 24 stunda og Morg­un­blaðs­ins, og kvart­aði sáran yfir þessum hring­ingum mínum í starfs­menn ráðu­neyt­is­ins. Ólafur tók þessu létt en fréttin fékkst því miður ekki stað­fest og var þar með ekki birt. Ég var 90 pró­sent viss um að heim­ildir mínar væru rétt­ar, en það var ekki nóg. Það var ekki fyrr en nokkrum árum síðar að ég fékk ég það síðan end­an­lega stað­fest frá heim­ild­ar­manni úr utan­rík­is­þjón­ust­unni að íslensk stjórn­völd höfðu samið um stuðn­ing við fram­boð Srí Lanka gegn stuðn­ingi stjórn­valda þar við fram­boð Íslands. Þetta voru sem sagt alvana­leg alþjóða­póli­tísk hrossa­kaup eftir allt sam­an.

Þegar biblían var afhent páf­anum

En dag­ur­inn var 8. októ­ber 2008 og loks kom röðin að mér. Ég fór upp á aðra hæð og byrj­aði á því að heilsa starfs­fólki Geirs, Grétu Ing­þórs­dóttur aðstoð­ar­konu hans og Bolla Þór Bolla­syni, ráðu­neyt­is­stjóra, en þau sátu fund­inn sem ég átti með hon­um. Ég hafði hitt þau stutt­lega áður þegar ég fór sem blaða­maður til Róm­ar, en þá var Geir að afhenda páf­an­um, Bene­dikt XVI, nýja þýð­ingu af Bibl­í­unni í Vatík­an­inu. Íslenskir kirkju­menn höfðu deilt tölu­vert um þýð­ing­una áður en til þessa atburðar kom og fór Gunnar Þor­steins­son í Kross­inum þar mik­inn: „Þetta eru dýrð­ar­tímar sem við lif­um. Nokkrir hafa haft sam­band við mig vegna vænt­an­legrar bibl­íu­þýð­ingar og uggur er í mönn­um. Þær raddir sem gera kröfu um „kristna” Biblíu eru háværar og skal engan undra. Bæði leikum sem lærðum ofbýður með­ferð manna á helgum texta,“ sagði Gunnar í grein á vef­síðu Kross­ins um hina nýju þýð­ingu. Ritdeilur höfðu sprottið upp í aðdrag­anda ferðar Geirs í Vatíkanið vegna þessa en minna fór fyrir áhyggjum af því að efna­hagur lands­ins væri fall­valtur og að banka­kerfið rið­aði til falls. Hluta­bréfa­mark­að­ur­inn íslenski var byrj­aður að gefa veru­lega eftir frá miðju sumri 2007 og voru teikn á lofti um að loftið væri farið að leka úr íslensku efna­hags­bólunni, að minnsta kosti úr hluta­bréfa­mark­aðn­um.

Gunnar Þorsteinsson, þá kenndur við krossinn, gagnrýndi nýja þýðingu á biblíunni harðlega.
Mynd: Úr safni

Þetta var helg­ina 25. til 27. októ­ber 2007, sömu helgi og það spurð­ist út að Seðla­banki Íslands hefði neitað Kaup­þingi um að gera upp rekstur sinn í evr­um. For­svars­menn Kaup­þings höfðu sótt það stíft að fá að gera upp í evr­um, en um 80 pró­sent af starf­semi bank­ans var alþjóð­leg á þessum tíma og evran var þar ráð­andi sem láns­mynt í eigna­safn­inu og efna­hags­reikn­ingn­um.

Þeir báru því við að grein­endur og aðilar á mark­aði, bæði eft­ir­lits­stofn­anir og fjár­fest­ar, ættu erfitt með að átta sig á áhrif­unum á efna­hags­reikn­ing­inn og upp­gjör þegar krónan væri sífellt að sveifl­ast upp og nið­ur. Af þessum sökum vildu þeir fá heim­ild til að gera upp í evrum svo að rekst­ur­inn væri stöðugri og ein­fald­ari í fram­setn­ingu á erlendum vett­vangi. Seðla­bank­inn hafn­aði Kaup­þingi um að gera upp í annarri mynt en krón­unni, sem olli mik­illi gremju hjá stjórn­endum og stærstu hlut­höfum Kaup­þings. Sam­band stjórn­enda Kaup­þings og þáver­andi for­manns banka­stjórnar Seðla­banka Íslands, Dav­íðs Odds­son­ar, hafði ekki verið traust og styrkt­ist ekki við þetta. Upp­á­koma frá 21. nóv­em­ber 2003 hafði verið vendi­punktur í því sam­hengi. Davíð fór þá í útibú Kaup­þings/­Bún­að­ar­banka, sem þá hét KB banki, við Aust­ur­stræti og tók út 400 þús­und króna inn­stæðu til að mót­mæla ofur­launum og kaup­rétti æðstu stjórn­enda bank­ans. Hann sagði í við­tali við RÚV sama dag og hann tók út fé sitt að allir sem væru í við­skiptum við bank­ann hlytu að velta fyrir sér hvort þeir gætu hugsað sér að vera í við­skiptum við stofnun sem hegð­aði sér með þeim hætti sem birt­ist í samn­ingum sem starf­andi stjórn­ar­for­maður bank­ans, Sig­urður Ein­ars­son, og annar for­stjóri hans, Hreiðar Már Sig­urðs­son, höfðu gert um hluta­fjár­kaup í bank­an­um. Þeir tveir höfðu keypt hluti í bank­anum fyrir um 950 millj­ónir króna á gengi sem þá var langt undir mark­aðs­gengi. Frá því var greint eftir að samn­ing­arnir komust í hámæli að hagn­aður mann­anna tveggja næmi um 365 millj­ónum króna vegna fyrr­nefndra samn­inga, þ.e.a.s. ef þeir seldu hluta­bréf­in. Stirt sam­bandið á milli stjórn­enda Kaup­þings og Dav­íðs varð enn stirð­ara eftir þennan atburð. Hann leiddi þó ekki til þess að stjórn­endur Kaup­þings slök­uðu á, heldur þvert á móti. Bank­inn meira en tvö­faldaðist að stærð á hverju ári frá árinu 2003 og fram til árs­ins 2007 og launa­greiðslur til æðstu stjórn­enda hækk­uðu mikið á milli ára. Þegar Kaup­þing féll nam heild­ar­efna­hags­reikn­ingur bank­ans um 55 millj­örðum evra, sé miðað við upp­lýs­ingar úr birtum árs­reikn­ing­um. Sé ein­ungis litið til Kaup­þings þá var stærð bank­ans marg­föld á við árlega lands­fram­leiðslu Íslands árið 2007.

Lands­bank­inn flaug Vík­ingi Heið­ari inn

Í Róm þurfti Geir því að svara spurn­ingum frá mér og Héðni Hall­dórs­syni, frétta­manni RÚV, um neitun Seðla­bank­ans gagn­vart Kaup­þingi eftir fund á vegum Ítalsk-­ís­lenska við­skipta­ráðs­ins á Grand Hotel de la Minerva í mið­borg Róm­ar. Þangað kom meðal ann­ars Emma Bon­ino, sem þá var utan­rík­is­við­skipta­ráð­herra Ítal­íu, og ræddi um við­skipta­sam­band Ítalíu og Íslands. Hún vildi meina að Ísland gæti lagt mikið til alþjóða­sam­fé­lags­ins með kunn­áttu sinni á sviði jarð­hita­nýt­ingar við raf­orku­fram­leiðslu. Fjár­mála­starf­semi var henni ekki ofar­lega í huga. 

Geir svar­aði spurn­ingum okkar um neit­un­ina með fremur almennum orð­um. Hann sagði málið í höndum Seðla­bank­ans en að Kaup­þing væri mik­il­vægt fyr­ir­tæki fyrir Ísland í ljósi þess að það væri stærsta fyr­ir­tæki lands­ins. Hann sagð­ist treysta Seðla­bank­anum til að meta hvað væri rétt að gera í stöð­unni.

Skömmu áður en hann svar­aði spurn­ingum okkar höfðu Geir og kona hans Inga Jóna Þórð­ar­dóttir þakkað Vík­ingi Heið­ari Ólafs­syni píanó­leik­ara fyrir leik sinn á fundi versl­un­ar­ráðs­ins. Lands­bank­inn hafði flogið honum sér­stak­lega til Rómar frá New York þar sem hann var í námi við hinn virta lista­há­skóla Juill­ard. Vík­ingur Heiðar spil­aði tvö stutt lög og það síð­ara var Ave Maria eftir Sig­valda Kalda­lóns, sem hann sagði að væri „perla“ sem sam­nem­endur hans í Juill­ard héldu vart vatni yfir. Á þess­ari stundu var fátt eins fjarri manni og það að íslensku bank­arnir stæðu á brauð­fót­um. Þeir gátu meira að segja flutt einn efni­leg­asta píanó­leik­ara heims­ins heims­álfa á milli til að spila á stuttum kvöld­verð­ar­fund­um.Fyrr um dag­inn fórum við með fylgd­ar­liði Geirs á fund Bene­dikts páfa XVI og fengum að heilsa honum í bóka­safnsálm­unni. „Hafið þið lesið Ang­els and Demons?“ spurði Geir að því loknu og hló við en sögu­svið þeirrar bók­ar, sem met­sölu­höf­und­ur­inn Dan Brown skrif­ar, er hið leynd­ar­dóms­fulla Vatíkan og ekki síst bóka­safnsálm­an. Slegið var á létta strengi með mörg af stór­kost­leg­ustu mynd­list­ar­verkum heims­ins á veggjum og brjóst­mynda­styttur undir þeim á göngum Vatík­ans­ins.

„Totally unaccepta­ble“

Við Geir vorum nýbyrj­aðir að spjalla í Iðnó þegar GSM-sím­inn hjá honum hringdi. Hann svar­aði, sagði ekk­ert í fyrstu og horfði nið­ur, en sagði síð­an, nokkuð hvasst: „Er þetta að ger­ast núna? Segir hann það, totally unaccepta­ble [al­gjör­lega óvið­un­and­i]?“. Síðan hlust­aði Geir í nokkra stund á þann sem var á hinni lín­unni. Svo skellti hann á. „Ég verð því miður að þjóta, afsak­aðu það,“ sagði Geir við mig, brúna­þungur og alvöru­gef­inn. Síðan gekk hann hröðum skrefum út úr Iðnó og í átt að Alþing­is­hús­inu með Grétu og Bolla sér við hlið. Þau þögðu þunnu hljóði og fylgdu Geir eftir eins og skugg­ar.

Ég tók leigu­bíl upp á rit­stjórn í Hádeg­is­móum og hugs­aði með mér að eitt­hvað mikið hlyti að ganga á í sam­skiptum stjórn­valda við Breta, miðað við­hvernig Geir tók til orða. Hvað var eig­in­lega að ger­ast? Síðar kom í ljós að Alistair Dar­l­ing, fjár­mála­ráð­herra, og Gor­don Brown, for­sæt­is­ráð­herra Bret­lands, höfðu tjáð sig við breska rík­is­út­varpið BBC með þeim hætti að hegðun íslenskra stjórn­valda í Ices­a­ve-­deil­unni væri „full­kom­lega óásætt­an­leg“ og að þeir „ætl­uðu sér ekki að borga“. Geir fékk upp­lýs­ingar um þetta sím­leiðis þar sem hann sat beint á móti mér, en áður hafði hann átt í form­legum sam­skiptum við bresk stjórn­völd vegna Ices­a­ve-­reikn­inga Lands­bank­ans.

Alistair Darling, þá fjármálaráðherra Bretlands, og Gordon Brown, þá forsætisráðherra landsins, voru örlagavaldar í íslenska hruninu.
Mynd: EPA

Hann bar þetta til baka sama dag og sagði Íslend­inga ætla að standa við þær skuld­bind­ingar sem þeim bæri að standa við. Hann sagð­ist jafn­framt reikna með því að leyst yrði úr mál­inu í sam­vinnu við Breta og Hol­lend­inga. Þung­inn í deil­unni var þó öllum ljós. Málið átti síðar eftir að umbreyt­ast í eina hörð­ustu milli­ríkja­deilu í Íslands­sög­unni, sem jafn­framt breytti um margt lit­rófi íslenskra stjórn­mála var­an­lega með dramat­ískum inn­gripum bæði Ólafs Ragn­ars Gríms­sonar og íslensku þjóð­ar­inn­ar. Íslend­ingar höfn­uðu í tveimur þjóð­ar­at­kvæða­greiðslum um að greiða Ices­a­ve-skuld Lands­bank­ans eftir að Ólafur Ragnar vís­aði mál­unum í þann far­veg.

Það var þarna fyrst, þegar ég ætl­aði að fara taka við­tal við Geir, sem ég skynj­aði hversu mikið gekk á fyrstu dag­ana eftir að Ísland sam­þykkti neyð­ar­lög á Alþingi til að bjarga efna­hag Íslands. Blaða­manna­fundir dag eftir dag í Iðnó hjá æðstu ráða­mönnum þjóð­ar­innar og næt­ur­fundir banka­manna gáfu vissu­lega vís­bend­ingu um að mikið gengi á. En það var ekki eins áhrifa­ríkt og að sjá for­sæt­is­ráð­herra þjóð­ar­inn­ar, með berum augum og aug­ljós­lega áhyggju­full­an, fá við­kvæmar upp­lýs­ingar sím­leiðis um þungan hug breskra ráða­manna í okkar garð. Þarna sá mað­ur, augliti til auglit­is, að Ísland var í for­dæma­lausum hremm­ingum og að mikil þjóð­hags­leg hætta var á ferð­inni. Það var ógn­vekj­andi til­hugs­un.

Þegar ég hitti Geir í Iðnó voru Glitnir og Lands­bank­inn þegar fallnir og dagar Kaup­þings voru taldir nokkrum klukku­tímum síð­ar. Bretar stóðu í umfangs­miklum björg­un­ar­að­gerðum sem Brown og Dar­l­ing hafa þegar lýst í bókum sem mestu ham­förum sem riðið hafa yfir umheim­inn frá seinna stríði. Bar­dag­inn var ekki háður í skot­gröfum víg­valla í þetta skiptið heldur bak við luktar dyr í seðla­bönk­um, á skrif­stofum ráðu­neyta, íburð­ar­miklum banka­stjóra­skrif­stofum og í þingsöl­um. Hver stór­bank­inn á fætur öðrum lenti í fang­inu á skatt­greið­endum eftir fjárinn­spýt­ingu seðla­banka og rík­is­sjóða um nær allan heim. Sjálft djá­snið í krúnu breska fjár­mála­kerf­is­ins, Royal Bank of Scotland, rambaði á barmi gjald­þrots í byrjun októ­ber og fór svo að lokum að breska ríkið yfir­tók ríf­lega 83 pró­sent hluta­fjár bank­ans eftir neyð­ar­fjár­hags­að­stoð. Heild­ar­upp­hæð björg­un­ar­á­ætl­unar rík­is­stjórnar Bret­lands nam um 500 millj­örðum punda, eða sem nemur ríf­lega 930 þús­und millj­örðum króna. Til sam­an­burðar nam lands­fram­leiðsla Íslands um 1.700 millj­örðum króna árið 2012. Þegar með­talin eru skamm­tíma­lán og allar ábyrgðir vegna aðgerða Eng­lands­banka og breska rík­is­ins nam björg­un­ar­á­ætl­unin því tæp­lega 550-faldri árlegri lands­fram­leiðslu Íslands. Víða um heim var umfang björg­un­ar­að­gerða með pen­ingum skatt­greið­enda sam­bæri­legt eða svipað að hlut­falli við stærð hag­kerf­anna. Hinar alþjóð­legu björg­un­ar­að­gerðir með fé frá skatt­greið­endum frá árinu 2007 og fram á árið 2013 hafa að miklu leyti farið fram í gegnum seðla­banka og innra skipu­lag þeirra þegar kemur að fjár­magnsinn­spýt­ingu á mörk­uð­um. Ábyrgðin á fjár­mála­kerf­unum var ekki ein­göngu á herðum hlut­haf­anna þegar illa gekk, heldur þurftu rík­is­sjóðir og seðla­bankar að koma til skjal­anna og bjarga því sem bjargað varð.

Ein mesta efna­hags­bóla sög­unnar

Með tím­anum hefur ýmis­legt komið upp á yfir­borðið sem skýrir hvernig á því stóð að ein mesta efna­hags­bóla sög­unnar mynd­að­ist á Íslandi á árunum 2003 og fram á árið 2008 og sprakk síðan með látum þegar við­skipta­bank­arnir þrír, Glitn­ir, Kaup­þing og Lands­bank­inn, féllu eins og spila­borg dag­ana 7. til 9. októ­ber 2008.

Ævin­týra­legur vöxtur íslensku bank­anna hafði ekki aðeins áhrif á efna­hag þjóð­ar­innar heldur ekki síður á sál­ar­tetur henn­ar, við­mið og gildi, hug­arró og yfir­sýn. Á árunum frá 2002 og fram á árið 2008 stækk­aði íslenska banka­kerfið úr því að vera tvisvar sinnum stærra en árleg lands­fram­leiðsla í að vera tíu sinnum stærra. Gríð­ar­lega hröð stækkun banka­kerf­is­ins var keyrð áfram af miklum umsvifum erlendis og með lánum til erlendra og inn­lendra félaga. Þrátt fyrir það var hlutafé bank­anna meira en 90 pró­sent í eigu Íslend­inga og íslenskra eign­ar­halds­fé­laga. Ræt­urnar voru því áfram íslenskar þrátt fyrir að skuld­bind­ing­arnar væru að mestu leyti í erlendri mynt, einkum evrum og pund­um.

Bank­arnir urðu að þremur risum í atvinnu­líf­inu sem sog­uðu til sín vel menntað fólk, einkum á sviði verk­fræði, hag­fræði og við­skipta­fræði, og borg­uðu því góð laun. Raunar voru launin í fjár­mála­geir­anum algjör­lega úr takti við raun­hag­kerfið sem alla tíð hafði verið stoð og stytta íslensks efna­hags. Hin alþjóð­legu ein­kenni fjár­mála­geirans, sem rætur átti á Wall Street í New York og í City-hverf­inu í London, sáust greini­lega. Háar bón­us­greiðsl­ur, glæsi­bif­reiðar og lífs­stíll banka­manna og fjár­festa settu svip sinn á íslenskt þjóð­líf á þessum árum. Sá svipur teygði anga sína inn í stjórn­málin og menn­ing­ar­lífið þar sem bank­arnir greiddu stærstu fram­lögin í kosn­inga­sjóði stjórn­mála­flokk­anna. Sér­stak­lega voru greiðslur þeirra til stjórn­mála­starfs háar í aðdrag­anda kosn­ing­anna árið 2007, bæði í próf­kjörum ein­staka flokka og einnig til flokk­anna sjálfra. Stjórn­málin voru þannig háð bönk­unum fjárhags­lega.„Guð blessi Ísland“

Í þessum aðstæðum var efna­hagur Íslands keyrður fram af hengiflugi en bjargað með for­dæm­lausri neyð­ar­laga­setn­ingu að kvöldi mánu­dags­ins 6. októ­ber 2008. Þá flutti Geir H. Haarde þjóð­inni ávarp í beinni sjón­varps­út­send­ingu klukkan 16:00 á RÚV. Nær allir lands­menn, hvar sem þeir voru, horfðu á Geir flytja alvar­leg tíð­indi: „Rík­is­stjórn Íslands, Seðla­bank­inn og Fjár­mála­eft­ir­litið hafa síð­ustu daga og vikur unnið baki brotnu að lausn á þeim gríð­ar­legu erf­ið­leikum sem steðja að íslensku bönk­unum í góðu sam­starfi við þá sjálfa. Að þeirri vinnu hafa ýmsir aðilar kom­ið, til að mynda líf­eyr­is­sjóðir og aðilar vinnu­mark­að­ar­ins.
Geir H. Haarde flutti frægasta ávarp Íslandssögunnar í beinni útsendingu 6. október 2008.

Af hálfu rík­is­stjórn­ar­innar hefur allt kapp verið lagt á að íslensku bank­arnir seldu erlendar eignir sínar og minnk­uðu umsvif sín svo að íslenska rík­ið, svo smátt í sam­an­burði við íslensku bank­anna, hefði bol­magn til að styðja við bakið á þeim. Við skulum hafa í huga í því sam­hengi að þær risa­stóru aðgerðir sem banda­rísk yfir­völd hafa ákveðið til bjargar þar­lendu banka­kerfi eru um fimm pró­sent af þeirra lands­fram­leiðslu. Efna­hagur íslensku bank­anna er hins vegar marg­föld lands­fram­leiðsla Íslend­inga,“ sagði Geir í ávarp­inu. Hann lagði þunga áherslu á að aðstæð­urnar sem höfðu skap­ast fælu í sér raun­veru­lega hættu á þjóð­ar­gjald­þroti ef ekk­ert yrði að gert. „Nú reynir á ábyrg og fum­laus við­brögð. Ég mun nú á eftir mæla fyrir frum­varpi á Alþingi sem mun gera rík­is­sjóði kleift að bregð­ast við því ástandi sem nú er á fjár­mála­mörk­uð­um. Ég hef rætt við for­ystu stjórn­ar­and­stöð­unnar í dag og fengið góð orð um að frum­varpið verði afgreitt í dag. Þakka ég þeim sam­starfið í því efni. Með laga­breyt­ingum þessum munum við aðlaga banka­kerfið aðs­lenskum aðstæðum og end­ur­reisa traust erlendra aðila á banka- og fjár­mála­starf­semi á Íslandi. Verði lögin sam­þykkt í dag má gera ráð fyrir að þessar heim­ildir verði virkar strax í kjöl­far­ið. Ég vil taka af öll tví­mæli um að inn­stæður Íslend­inga og sér­eigna­sparn­aður í íslensku bönk­unum öllum er tryggur og rík­is­sjóður mun sjá til þess slíkar inn­eignir skili sér til spari­fjár­eig­enda að fullu. Um þetta þarf eng­inn að efast. Þá munu stjórn­völd sjá til þess að atvinnu­líf lands­ins hafi aðgang að fjár­magni og banka­þjón­ustu eftir því sem frekast er unn­t.“Allt var breytt. Íslenska efna­hagsund­rið, eins og það hafði verið kall­að, var horf­ið. Erf­iðir tímar blöstu við tug­þús­undum Íslend­inga vegna fjár­hags­erf­ið­leika og atvinnu­miss­is. Geir lauk ávarpi sínu á því að stappa stáli í lands­menn. Sagði þá þurfa að halda í góð gildi sem geti staðið af sér „gjörn­inga­veð­ur“ eins og það sem hrunið kall­aði fram. „Verk­efni stjórn­valda á næstu dögum er skýrt: að koma í veg fyrir að upp­lausn­ar­á­stand skapist, ef íslensku bank­arnir verða óstarf­hæfir að ein­hverju marki. Til þess hafa stjórn­völd marg­vís­leg úrræði og þeim verður beitt. Á hinum póli­tíska vett­vangi, jafnt sem ann­ars stað­ar, er mik­il­vægt að slíðra sverðin við þessar aðstæð­ur. Miklu skiptir að við sýnum bæði still­ingu og yfir­vegun þá erf­iðu daga sem nú fara í hönd, látum ekki hug­fall­ast og styðjum hvert annað með ráðum og dáð. Á þann hátt, með íslenska bjart­sýni, æðru­leysi og sam­stöðu að vopni, munum við standa storm­inn af okk­ur.

Guð blessi Ísland.“

Texti pistils­ins birt­ist að mestu í bók­inni Ísland ehf. - Auð­menn og áhrif eftir hrun eftir Magnús Hall­dórs­son og Þórð Snæ Júl­í­us­son sem kom út árið 2013.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiÁlit