Mynd: Magnus Frödeberg/Wikimedia Commons

„Er þetta að gerast núna?“

Hrunið áttu sér stað á nokkrum dögum snemma í október 2008. Ótrúlegir atburðir áttu sér stað, meðal annars bakvið tjöldin. Allt var breytt. Íslenska efnahagsundrið, eins og það hafði verið kallað, var horfið. Erfiðir tímar blöstu við tugþúsundum Íslendinga vegna fjárhagserfiðleika og atvinnumissis.

Þann 8. október 2008 beið ég eftir því að fá að taka viðtal við Geir H. Haarde forsætisráðherra í Iðnó eftir blaðamannafund hans og Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra. Fjölmiðlafulltrúi í utanríkisráðuneytinu beið við dyrnar upp á efri hæðina og kallaði blaðamenn inn eftir röð sem hún var með skrifaða niður á blað. Ég var síðastur í röðinni. Það olli mér nokkrum áhyggjum þar sem prentunartími var um kvöldmat. Sífellt minni tími var til stefnu eftir því sem á daginn leið. Ég hafði fjölmiðlafulltrúann grunaðan um að hafa sett mig aftast í röðina vegna atviks sem kom upp nokkrum mánuðum fyrr.
Þegar atvikið átti sér stað var ég á fyrsta degi á nýju blaði, 24 stundum, og fékk upplýsingar um það úr utanríkisþjónustunni að Ísland hefði samið bak við tjöldin um að styðja framboð Srí Lanka inn í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna (SÞ) gegn því að stjórnvöld í Srí Lanka myndu styðja framboð Íslands í öryggisráð SÞ sem hafði verið í undirbúningi frá árinu 2007. Þetta leit út fyrir að geta verið góð frétt því að Srí Lanka og mannréttindi hafa ekki alltaf verið nefnd í sömu andránni, auk þess sem framboð Íslands inn í öryggisráðið þótti um margt fífldjarft á þessum tíma. Litla Ísland átti ekkert erindi í öryggisráðið, sögðu ýmsir. Íslensk stjórnvöld sögðu framboðið mikilvægt og að gangverk SÞ gerði einmitt ráð fyrir því að litlar þjóðir gætu gegnt jafn mikilvægu hlutverki við mikilvægar ákvarðanir og stórþjóðir. „Ég segi: það er bæði heilmikill ávinningur af því að við kynnum Ísland og það sem það stendur fyrir á alþjóðavettvangi og við höfum heilmiklar skyldur að rækja á alþjóðavettvangi einnig. Ísland hefur enga afsökun fyrir því að axla ekki þessar skyldur þegar við lítum til þess að öll ríki Evrópu hafa setið í öryggisráðinu nema þau allra smæstu, örríkin. Við lítum á okkur sem þjóð meðal þjóða og þetta er í mínum huga lokahnykkurinn í okkar sjálfstæðisbaráttu, að við rækjum þessar skyldur,“ sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra um framboðið þann 4. september 2007, rúmlega þrettán mánuðum áður en efnahagur Íslands var á barmi hruns. Framboðið hafði verið í undirbúningi innan utanríkisþjónustunnar allt frá árinu 1998, en Ingibjörg Sólrún tók við framboðskeflinu þegar hún varð utanríkisráðherra vorið 2007, þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin mynduðu saman ríkisstjórn undir forystu Geirs H. Haarde.

Á þessum tíma, ekki síst á árunum 2005-2008, virtust Íslandi og Íslendingum allir vegir færir á erlendri grundu, í það minnsta í huga margra þeirra sem voru í framvarðasveit íslenskra stjórnmála og atvinnulífs. Íslenskt athafnalíf einkenndist af miklu sjálfshóli, ekkert virtist geta stöðvað Ísland eða Íslendinga, hvað sem í veginum var.

Ég hringdi í marga starfsmenn ráðuneytisins í þeirri von að einhver þeirra kynni að koma mér á sporið eða staðfesta að þessar upplýsingar væru réttar. Þetta olli nokkrum titringi og hringdi fjölmiðlafulltrúinn meðal annars í Ólaf Stephensen, sem þá var yfirritstjóri Árvakurs, útgáfufélags 24 stunda og Morgunblaðsins, og kvartaði sáran yfir þessum hringingum mínum í starfsmenn ráðuneytisins. Ólafur tók þessu létt en fréttin fékkst því miður ekki staðfest og var þar með ekki birt. Ég var 90 prósent viss um að heimildir mínar væru réttar, en það var ekki nóg. Það var ekki fyrr en nokkrum árum síðar að ég fékk ég það síðan endanlega staðfest frá heimildarmanni úr utanríkisþjónustunni að íslensk stjórnvöld höfðu samið um stuðning við framboð Srí Lanka gegn stuðningi stjórnvalda þar við framboð Íslands. Þetta voru sem sagt alvanaleg alþjóðapólitísk hrossakaup eftir allt saman.

Þegar biblían var afhent páfanum

En dagurinn var 8. október 2008 og loks kom röðin að mér. Ég fór upp á aðra hæð og byrjaði á því að heilsa starfsfólki Geirs, Grétu Ingþórsdóttur aðstoðarkonu hans og Bolla Þór Bollasyni, ráðuneytisstjóra, en þau sátu fundinn sem ég átti með honum. Ég hafði hitt þau stuttlega áður þegar ég fór sem blaðamaður til Rómar, en þá var Geir að afhenda páfanum, Benedikt XVI, nýja þýðingu af Biblíunni í Vatíkaninu. Íslenskir kirkjumenn höfðu deilt töluvert um þýðinguna áður en til þessa atburðar kom og fór Gunnar Þorsteinsson í Krossinum þar mikinn: „Þetta eru dýrðartímar sem við lifum. Nokkrir hafa haft samband við mig vegna væntanlegrar biblíuþýðingar og uggur er í mönnum. Þær raddir sem gera kröfu um „kristna” Biblíu eru háværar og skal engan undra. Bæði leikum sem lærðum ofbýður meðferð manna á helgum texta,“ sagði Gunnar í grein á vefsíðu Krossins um hina nýju þýðingu. Ritdeilur höfðu sprottið upp í aðdraganda ferðar Geirs í Vatíkanið vegna þessa en minna fór fyrir áhyggjum af því að efnahagur landsins væri fallvaltur og að bankakerfið riðaði til falls. Hlutabréfamarkaðurinn íslenski var byrjaður að gefa verulega eftir frá miðju sumri 2007 og voru teikn á lofti um að loftið væri farið að leka úr íslensku efnahagsbólunni, að minnsta kosti úr hlutabréfamarkaðnum.

Gunnar Þorsteinsson, þá kenndur við krossinn, gagnrýndi nýja þýðingu á biblíunni harðlega.
Mynd: Úr safni

Þetta var helgina 25. til 27. október 2007, sömu helgi og það spurðist út að Seðlabanki Íslands hefði neitað Kaupþingi um að gera upp rekstur sinn í evrum. Forsvarsmenn Kaupþings höfðu sótt það stíft að fá að gera upp í evrum, en um 80 prósent af starfsemi bankans var alþjóðleg á þessum tíma og evran var þar ráðandi sem lánsmynt í eignasafninu og efnahagsreikningnum.

Þeir báru því við að greinendur og aðilar á markaði, bæði eftirlitsstofnanir og fjárfestar, ættu erfitt með að átta sig á áhrifunum á efnahagsreikninginn og uppgjör þegar krónan væri sífellt að sveiflast upp og niður. Af þessum sökum vildu þeir fá heimild til að gera upp í evrum svo að reksturinn væri stöðugri og einfaldari í framsetningu á erlendum vettvangi. Seðlabankinn hafnaði Kaupþingi um að gera upp í annarri mynt en krónunni, sem olli mikilli gremju hjá stjórnendum og stærstu hluthöfum Kaupþings. Samband stjórnenda Kaupþings og þáverandi formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, Davíðs Oddssonar, hafði ekki verið traust og styrktist ekki við þetta. Uppákoma frá 21. nóvember 2003 hafði verið vendipunktur í því samhengi. Davíð fór þá í útibú Kaupþings/Búnaðarbanka, sem þá hét KB banki, við Austurstræti og tók út 400 þúsund króna innstæðu til að mótmæla ofurlaunum og kauprétti æðstu stjórnenda bankans. Hann sagði í viðtali við RÚV sama dag og hann tók út fé sitt að allir sem væru í viðskiptum við bankann hlytu að velta fyrir sér hvort þeir gætu hugsað sér að vera í viðskiptum við stofnun sem hegðaði sér með þeim hætti sem birtist í samningum sem starfandi stjórnarformaður bankans, Sigurður Einarsson, og annar forstjóri hans, Hreiðar Már Sigurðsson, höfðu gert um hlutafjárkaup í bankanum. Þeir tveir höfðu keypt hluti í bankanum fyrir um 950 milljónir króna á gengi sem þá var langt undir markaðsgengi. Frá því var greint eftir að samningarnir komust í hámæli að hagnaður mannanna tveggja næmi um 365 milljónum króna vegna fyrrnefndra samninga, þ.e.a.s. ef þeir seldu hlutabréfin. Stirt sambandið á milli stjórnenda Kaupþings og Davíðs varð enn stirðara eftir þennan atburð. Hann leiddi þó ekki til þess að stjórnendur Kaupþings slökuðu á, heldur þvert á móti. Bankinn meira en tvöfaldaðist að stærð á hverju ári frá árinu 2003 og fram til ársins 2007 og launagreiðslur til æðstu stjórnenda hækkuðu mikið á milli ára. Þegar Kaupþing féll nam heildarefnahagsreikningur bankans um 55 milljörðum evra, sé miðað við upplýsingar úr birtum ársreikningum. Sé einungis litið til Kaupþings þá var stærð bankans margföld á við árlega landsframleiðslu Íslands árið 2007.

Landsbankinn flaug Víkingi Heiðari inn

Í Róm þurfti Geir því að svara spurningum frá mér og Héðni Halldórssyni, fréttamanni RÚV, um neitun Seðlabankans gagnvart Kaupþingi eftir fund á vegum Ítalsk-íslenska viðskiptaráðsins á Grand Hotel de la Minerva í miðborg Rómar. Þangað kom meðal annars Emma Bonino, sem þá var utanríkisviðskiptaráðherra Ítalíu, og ræddi um viðskiptasamband Ítalíu og Íslands. Hún vildi meina að Ísland gæti lagt mikið til alþjóðasamfélagsins með kunnáttu sinni á sviði jarðhitanýtingar við raforkuframleiðslu. Fjármálastarfsemi var henni ekki ofarlega í huga. 

Geir svaraði spurningum okkar um neitunina með fremur almennum orðum. Hann sagði málið í höndum Seðlabankans en að Kaupþing væri mikilvægt fyrirtæki fyrir Ísland í ljósi þess að það væri stærsta fyrirtæki landsins. Hann sagðist treysta Seðlabankanum til að meta hvað væri rétt að gera í stöðunni.

Skömmu áður en hann svaraði spurningum okkar höfðu Geir og kona hans Inga Jóna Þórðardóttir þakkað Víkingi Heiðari Ólafssyni píanóleikara fyrir leik sinn á fundi verslunarráðsins. Landsbankinn hafði flogið honum sérstaklega til Rómar frá New York þar sem hann var í námi við hinn virta listaháskóla Juillard. Víkingur Heiðar spilaði tvö stutt lög og það síðara var Ave Maria eftir Sigvalda Kaldalóns, sem hann sagði að væri „perla“ sem samnemendur hans í Juillard héldu vart vatni yfir. Á þessari stundu var fátt eins fjarri manni og það að íslensku bankarnir stæðu á brauðfótum. Þeir gátu meira að segja flutt einn efnilegasta píanóleikara heimsins heimsálfa á milli til að spila á stuttum kvöldverðarfundum.

Fyrr um daginn fórum við með fylgdarliði Geirs á fund Benedikts páfa XVI og fengum að heilsa honum í bókasafnsálmunni. „Hafið þið lesið Angels and Demons?“ spurði Geir að því loknu og hló við en sögusvið þeirrar bókar, sem metsöluhöfundurinn Dan Brown skrifar, er hið leyndardómsfulla Vatíkan og ekki síst bókasafnsálman. Slegið var á létta strengi með mörg af stórkostlegustu myndlistarverkum heimsins á veggjum og brjóstmyndastyttur undir þeim á göngum Vatíkansins.

„Totally unacceptable“

Við Geir vorum nýbyrjaðir að spjalla í Iðnó þegar GSM-síminn hjá honum hringdi. Hann svaraði, sagði ekkert í fyrstu og horfði niður, en sagði síðan, nokkuð hvasst: „Er þetta að gerast núna? Segir hann það, totally unacceptable [algjörlega óviðunandi]?“. Síðan hlustaði Geir í nokkra stund á þann sem var á hinni línunni. Svo skellti hann á. „Ég verð því miður að þjóta, afsakaðu það,“ sagði Geir við mig, brúnaþungur og alvörugefinn. Síðan gekk hann hröðum skrefum út úr Iðnó og í átt að Alþingishúsinu með Grétu og Bolla sér við hlið. Þau þögðu þunnu hljóði og fylgdu Geir eftir eins og skuggar.

Ég tók leigubíl upp á ritstjórn í Hádegismóum og hugsaði með mér að eitthvað mikið hlyti að ganga á í samskiptum stjórnvalda við Breta, miðað viðhvernig Geir tók til orða. Hvað var eiginlega að gerast? Síðar kom í ljós að Alistair Darling, fjármálaráðherra, og Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, höfðu tjáð sig við breska ríkisútvarpið BBC með þeim hætti að hegðun íslenskra stjórnvalda í Icesave-deilunni væri „fullkomlega óásættanleg“ og að þeir „ætluðu sér ekki að borga“. Geir fékk upplýsingar um þetta símleiðis þar sem hann sat beint á móti mér, en áður hafði hann átt í formlegum samskiptum við bresk stjórnvöld vegna Icesave-reikninga Landsbankans.

Alistair Darling, þá fjármálaráðherra Bretlands, og Gordon Brown, þá forsætisráðherra landsins, voru örlagavaldar í íslenska hruninu.
Mynd: EPA

Hann bar þetta til baka sama dag og sagði Íslendinga ætla að standa við þær skuldbindingar sem þeim bæri að standa við. Hann sagðist jafnframt reikna með því að leyst yrði úr málinu í samvinnu við Breta og Hollendinga. Þunginn í deilunni var þó öllum ljós. Málið átti síðar eftir að umbreytast í eina hörðustu milliríkjadeilu í Íslandssögunni, sem jafnframt breytti um margt litrófi íslenskra stjórnmála varanlega með dramatískum inngripum bæði Ólafs Ragnars Grímssonar og íslensku þjóðarinnar. Íslendingar höfnuðu í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum um að greiða Icesave-skuld Landsbankans eftir að Ólafur Ragnar vísaði málunum í þann farveg.

Það var þarna fyrst, þegar ég ætlaði að fara taka viðtal við Geir, sem ég skynjaði hversu mikið gekk á fyrstu dagana eftir að Ísland samþykkti neyðarlög á Alþingi til að bjarga efnahag Íslands. Blaðamannafundir dag eftir dag í Iðnó hjá æðstu ráðamönnum þjóðarinnar og næturfundir bankamanna gáfu vissulega vísbendingu um að mikið gengi á. En það var ekki eins áhrifaríkt og að sjá forsætisráðherra þjóðarinnar, með berum augum og augljóslega áhyggjufullan, fá viðkvæmar upplýsingar símleiðis um þungan hug breskra ráðamanna í okkar garð. Þarna sá maður, augliti til auglitis, að Ísland var í fordæmalausum hremmingum og að mikil þjóðhagsleg hætta var á ferðinni. Það var ógnvekjandi tilhugsun.

Þegar ég hitti Geir í Iðnó voru Glitnir og Landsbankinn þegar fallnir og dagar Kaupþings voru taldir nokkrum klukkutímum síðar. Bretar stóðu í umfangsmiklum björgunaraðgerðum sem Brown og Darling hafa þegar lýst í bókum sem mestu hamförum sem riðið hafa yfir umheiminn frá seinna stríði. Bardaginn var ekki háður í skotgröfum vígvalla í þetta skiptið heldur bak við luktar dyr í seðlabönkum, á skrifstofum ráðuneyta, íburðarmiklum bankastjóraskrifstofum og í þingsölum. Hver stórbankinn á fætur öðrum lenti í fanginu á skattgreiðendum eftir fjárinnspýtingu seðlabanka og ríkissjóða um nær allan heim. Sjálft djásnið í krúnu breska fjármálakerfisins, Royal Bank of Scotland, rambaði á barmi gjaldþrots í byrjun október og fór svo að lokum að breska ríkið yfirtók ríflega 83 prósent hlutafjár bankans eftir neyðarfjárhagsaðstoð. Heildarupphæð björgunaráætlunar ríkisstjórnar Bretlands nam um 500 milljörðum punda, eða sem nemur ríflega 930 þúsund milljörðum króna. Til samanburðar nam landsframleiðsla Íslands um 1.700 milljörðum króna árið 2012. Þegar meðtalin eru skammtímalán og allar ábyrgðir vegna aðgerða Englandsbanka og breska ríkisins nam björgunaráætlunin því tæplega 550-faldri árlegri landsframleiðslu Íslands. Víða um heim var umfang björgunaraðgerða með peningum skattgreiðenda sambærilegt eða svipað að hlutfalli við stærð hagkerfanna. Hinar alþjóðlegu björgunaraðgerðir með fé frá skattgreiðendum frá árinu 2007 og fram á árið 2013 hafa að miklu leyti farið fram í gegnum seðlabanka og innra skipulag þeirra þegar kemur að fjármagnsinnspýtingu á mörkuðum. Ábyrgðin á fjármálakerfunum var ekki eingöngu á herðum hluthafanna þegar illa gekk, heldur þurftu ríkissjóðir og seðlabankar að koma til skjalanna og bjarga því sem bjargað varð.

Ein mesta efnahagsbóla sögunnar

Með tímanum hefur ýmislegt komið upp á yfirborðið sem skýrir hvernig á því stóð að ein mesta efnahagsbóla sögunnar myndaðist á Íslandi á árunum 2003 og fram á árið 2008 og sprakk síðan með látum þegar viðskiptabankarnir þrír, Glitnir, Kaupþing og Landsbankinn, féllu eins og spilaborg dagana 7. til 9. október 2008.

Ævintýralegur vöxtur íslensku bankanna hafði ekki aðeins áhrif á efnahag þjóðarinnar heldur ekki síður á sálartetur hennar, viðmið og gildi, hugarró og yfirsýn. Á árunum frá 2002 og fram á árið 2008 stækkaði íslenska bankakerfið úr því að vera tvisvar sinnum stærra en árleg landsframleiðsla í að vera tíu sinnum stærra. Gríðarlega hröð stækkun bankakerfisins var keyrð áfram af miklum umsvifum erlendis og með lánum til erlendra og innlendra félaga. Þrátt fyrir það var hlutafé bankanna meira en 90 prósent í eigu Íslendinga og íslenskra eignarhaldsfélaga. Ræturnar voru því áfram íslenskar þrátt fyrir að skuldbindingarnar væru að mestu leyti í erlendri mynt, einkum evrum og pundum.

Bankarnir urðu að þremur risum í atvinnulífinu sem soguðu til sín vel menntað fólk, einkum á sviði verkfræði, hagfræði og viðskiptafræði, og borguðu því góð laun. Raunar voru launin í fjármálageiranum algjörlega úr takti við raunhagkerfið sem alla tíð hafði verið stoð og stytta íslensks efnahags. Hin alþjóðlegu einkenni fjármálageirans, sem rætur átti á Wall Street í New York og í City-hverfinu í London, sáust greinilega. Háar bónusgreiðslur, glæsibifreiðar og lífsstíll bankamanna og fjárfesta settu svip sinn á íslenskt þjóðlíf á þessum árum. Sá svipur teygði anga sína inn í stjórnmálin og menningarlífið þar sem bankarnir greiddu stærstu framlögin í kosningasjóði stjórnmálaflokkanna. Sérstaklega voru greiðslur þeirra til stjórnmálastarfs háar í aðdraganda kosninganna árið 2007, bæði í prófkjörum einstaka flokka og einnig til flokkanna sjálfra. Stjórnmálin voru þannig háð bönkunum fjárhagslega.

„Guð blessi Ísland“

Í þessum aðstæðum var efnahagur Íslands keyrður fram af hengiflugi en bjargað með fordæmlausri neyðarlagasetningu að kvöldi mánudagsins 6. október 2008. Þá flutti Geir H. Haarde þjóðinni ávarp í beinni sjónvarpsútsendingu klukkan 16:00 á RÚV. Nær allir landsmenn, hvar sem þeir voru, horfðu á Geir flytja alvarleg tíðindi: „Ríkisstjórn Íslands, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hafa síðustu daga og vikur unnið baki brotnu að lausn á þeim gríðarlegu erfiðleikum sem steðja að íslensku bönkunum í góðu samstarfi við þá sjálfa. Að þeirri vinnu hafa ýmsir aðilar komið, til að mynda lífeyrissjóðir og aðilar vinnumarkaðarins.
Geir H. Haarde flutti frægasta ávarp Íslandssögunnar í beinni útsendingu 6. október 2008.

Af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur allt kapp verið lagt á að íslensku bankarnir seldu erlendar eignir sínar og minnkuðu umsvif sín svo að íslenska ríkið, svo smátt í samanburði við íslensku bankanna, hefði bolmagn til að styðja við bakið á þeim. Við skulum hafa í huga í því samhengi að þær risastóru aðgerðir sem bandarísk yfirvöld hafa ákveðið til bjargar þarlendu bankakerfi eru um fimm prósent af þeirra landsframleiðslu. Efnahagur íslensku bankanna er hins vegar margföld landsframleiðsla Íslendinga,“ sagði Geir í ávarpinu. Hann lagði þunga áherslu á að aðstæðurnar sem höfðu skapast fælu í sér raunverulega hættu á þjóðargjaldþroti ef ekkert yrði að gert. „Nú reynir á ábyrg og fumlaus viðbrögð. Ég mun nú á eftir mæla fyrir frumvarpi á Alþingi sem mun gera ríkissjóði kleift að bregðast við því ástandi sem nú er á fjármálamörkuðum. Ég hef rætt við forystu stjórnarandstöðunnar í dag og fengið góð orð um að frumvarpið verði afgreitt í dag. Þakka ég þeim samstarfið í því efni. Með lagabreytingum þessum munum við aðlaga bankakerfið aðslenskum aðstæðum og endurreisa traust erlendra aðila á banka- og fjármálastarfsemi á Íslandi. Verði lögin samþykkt í dag má gera ráð fyrir að þessar heimildir verði virkar strax í kjölfarið. Ég vil taka af öll tvímæli um að innstæður Íslendinga og séreignasparnaður í íslensku bönkunum öllum er tryggur og ríkissjóður mun sjá til þess slíkar inneignir skili sér til sparifjáreigenda að fullu. Um þetta þarf enginn að efast. Þá munu stjórnvöld sjá til þess að atvinnulíf landsins hafi aðgang að fjármagni og bankaþjónustu eftir því sem frekast er unnt.“

Allt var breytt. Íslenska efnahagsundrið, eins og það hafði verið kallað, var horfið. Erfiðir tímar blöstu við tugþúsundum Íslendinga vegna fjárhagserfiðleika og atvinnumissis. Geir lauk ávarpi sínu á því að stappa stáli í landsmenn. Sagði þá þurfa að halda í góð gildi sem geti staðið af sér „gjörningaveður“ eins og það sem hrunið kallaði fram. „Verkefni stjórnvalda á næstu dögum er skýrt: að koma í veg fyrir að upplausnarástand skapist, ef íslensku bankarnir verða óstarfhæfir að einhverju marki. Til þess hafa stjórnvöld margvísleg úrræði og þeim verður beitt. Á hinum pólitíska vettvangi, jafnt sem annars staðar, er mikilvægt að slíðra sverðin við þessar aðstæður. Miklu skiptir að við sýnum bæði stillingu og yfirvegun þá erfiðu daga sem nú fara í hönd, látum ekki hugfallast og styðjum hvert annað með ráðum og dáð. Á þann hátt, með íslenska bjartsýni, æðruleysi og samstöðu að vopni, munum við standa storminn af okkur.

Guð blessi Ísland.“

Texti pistilsins birtist að mestu í bókinni Ísland ehf. - Auðmenn og áhrif eftir hrun eftir Magnús Halldórsson og Þórð Snæ Júlíusson sem kom út árið 2013.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiÁlit