Þann 13. október síðastliðinn var tekin skóflustunga að meðferðarkjarna nýs þjóðarsjúkrahúss, öflugum og tæknivæddum sjúkrahúskjarna þar sem unnt verður að veita skilvirka og margbrotna þjónustu fyrir landið allt í takt við nýjustu þekkingu í heilbrigðisvísindum. Við byggingu meðferðarkjarnans og skipulagningu starfsemi hans verður byggt á reynslu og þekkingarstarfi okkar færasta fólks og sótt til framfara á breiðu sviði heilsugæslu og bráðaþjónustu í þágu allra landsmanna. Og ekki bara þeirra, heldur líka þeirra mörgu gesta sem sækja heim landið okkar af vaxandi þunga ár hvert. Á meðferðarkjarnann verður gott að leita og þar á að vera gott að vera.
Uppbygging heilbrigðisþjónustu um allt land er eitt af forgangsmálum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Nýtt sjúkrahús mun bylta allri aðstöðu fyrir heilbrigðisþjónustuna í heild sinni, ekki einungis fyrir sjúklinga, aðstandendur og okkar góða og öfluga starfslið við Landspítalann heldur líka nemendur, kennara og rannsakendur við háskóla þjóðarinnar og starfsfólk heilbrigðisþjónustu um allt land.
Meðferðarkjarninn verður hjartað sem slær dag og nótt í nýju sjúkrahúsi. Hann helst í hendur við fjölda bygginga sem fyrir eru og margar byggingar sem á eftir koma. Fyrr í október fögnuðum við þeim áfanga að skrifað var undir samning um fullnaðarhönnun á rannsóknahúsi Landspítalans og sjúkrahótel verður tekið í notkun innan skamms. Einnig má nefna bílastæða-, tækni- og skrifstofuhús, og uppbyggingu heilbrigðisvísindasviðs HÍ í Læknagarði. Þá er í öðrum áfanga sem nú hillir undir gert ráð fyrir aukinni göngudeildarþjónustu og öflugri þjónustu við sjúklinga.
Eins og oft er með stór þjóðþrifamál í Íslandssögunni voru það konur sem tóku höndum saman og hófu snemma á síðustu öld baráttu fyrir því að reistur yrði spítali í Reykjavík, sem síðar varð Landspítalinn og tók til starfa 20. desember 1930. Umræða um þjóðarsjúkrahús, sjúkrahús sem þjónar öllu landinu hafði þá verið uppi allt frá því á 19. öld.
Þjóðarsjúkrahúsið hefur á síðustu áratugum starfað í fjölmörgum húsum á höfuðborgarsvæðinu, húsum sem flest eru hönnuð upp úr miðri síðustu öld og svara ekki lengur þeim kröfum sem nú eru gerðar til húsnæðis fyrir sjúkrahús. Um síðustu aldamót hófst fyrir alvöru umræða um uppbyggingu þjóðarsjúkrahúss á einum stað. Landspítalinn og Sjúkrahús Reykjavíkur voru sameinuð og rætt var af miklum þunga um sameinað húsnæði fyrir Landspítala í nálægð við Háskóla Íslands. Erlendir ráðgjafar lögðu fram hugmyndir um mögulegt staðarval og starfsnefnd undir forystu Ingibjargar Pálmadóttur og á vegum heilbrigðisráðuneytisins lagði svo til að meginstarfsemi sameinaðs Landspítala, Háskólasjúkrahúss, yrði við Hringbraut. Þar voru fyrir dýrmætar spítalabyggingar sem annars þyrfti að reisa á nýjum stað og þar mætast margar mikilvægustu samgönguæðar höfuðborgarsvæðisins. Þar er mestur mannfjöldi yfir daginn og helstu bækistöðvar þekkingar og vísindastarfs í landinu á næstu grösum.
Margir ráðherrar heilbrigðismála hafa átt þátt í umræðu og vinnu um nýtt sjúkrahús en það var Álfheiður Ingadóttir, þáverandi heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem setti af stað verkefnastjórn, sem síðar varð að opinbera hlutafélaginu Nýr Landspítali, til að vinna að undirbúningi og uppbyggingu Hringbrautarsvæðisins. Þar var ekki síst byggt á niðurstöðum norsku ráðgjafanna Momentum og Hospitalet frá árinu 2009 um húsnæðismál Landspítala. Með lögum samþykktum á á Alþingi 2010 hlaut verkefnið brautargengi og vinna við forhönnun bygginga og þróun skipulags fyrir svæðið gat hafist. Skipulagsferlið, samráð og hönnunarvinna tóku tímann sinn en sviptingar í efnahagsmálum og stjórnmálum áttu líka sinn þátt í að allt þetta ferli varð lengra og strangara en annars hefði orðið. Nú stöndum við loksins frammi fyrir því spennandi verkefni að ráðast í uppbygginguna sjálfa og því hljóta allir að fagna.
Meðferðarkjarninn var forhannaður á árunum 2009 til 2012 af Spital-hópnum í samvinnu við starfslið Landspítalans. Hönnunarhópurinn Corpus3 eru aðalhönnuðir hússins en að honum standa níu innlend og erlend hönnunarfyrirtæki. Spital-hópurinn sér um gatna-, veitna- og lóðahönnun vegna meðferðarkjarnans.
Kjarninn er stærsta bygging Hringbrautarverkefnisins, tæpir 70 þúsund brúttófermetrar og mun gegna lykilhlutverki í starfsemi spítalans. Þar munu fara fram sérhæfðar aðgerðir og rannsóknir þar sem stuðst verður við háþróaða tækni og sérhæfða þekkingu.
Við viljum geta boðið upp á heilbrigðisþjónustu sem stenst samanburð við það sem best gerist í heiminum og nýtt þjóðarsjúkrahús, móðursjúkrahúsið, er mikilvægur liður í því verkefni. Sjúklingar, starfsfólk spítalans og Háskóla Íslands eru hornsteinar að því samfélagi sem er hér við Hringbrautina. Við sem komum að verkefnum sjúkrahússins á annan hátt hlúum að því samfélagi og veitum því brautargengi. Þessi þáttaskil snúast ekki bara um hús heldur um nýjan kafla, draum sem er að rætast, stórhug sem hefur birst og hljómað um árabil þvert á pólitíska flokka og snertir alla flóru heilbrigðisþjónustunnar, kafla sem snýst um að hefja loksins einhverja stærstu og flóknustu byggingarframkvæmd Íslandssögunnar, byggingu sem eins og margar merkar byggingar fyrri tíðar verður hluti af traustum samfélagssáttmála um heilbrigðisþjónustu í fremstu röð og fyrir alla, ekki bara suma heldur okkur öll.
Höfundur er heilbrigðisráðherra.