Nýtt frumvarp dómsmálaráðherra um birtingu dóma og myndatökur í dómhúsum hefur komið af stað umræðu sem segja má að sé tímabær, ekki síst er varðar mörkin milli réttar til upplýsingar annars vegar og réttar til friðhelgis einkalífs hins vegar. Í frumvarpinu, sem nú er til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda, eru ýmis nýmæli sem ætla má að ríki breið sátt um, svo sem að samræma birtingu dóma milli dómstiga. En síðan eru ákveðin atriði í frumvarpinu sem þarfnast frekari umræðu. Má þar nefna heimild til dómstólasýslunnar að setja reglur um myndatökur í dómhúsum og takmörkun á birtingu héraðsdóma, en einnig þá tillögu að allir dæmdir menn njóti nafnleyndar, sem er viðfangsefni þessarar greinar.
Mismunandi vernd
Í ljósi meginreglunnar um að þinghöld skuli háð í heyranda hljóði mun nafnleyndin vera takmörkuð að því leytinu til að fjölmiðlar (eða almenningur) geta eftir sem áður fylgst með þinghöldum og þar með nafngreint dæmda brotamenn. Þetta á hins vegar ekki við í kynferðisbrotamálum og heimilisofbeldismálum, en þinghöld í þeim málum eru alla jafna lokuð, svo sem oft er rík ástæða til með vísan til hagsmuna brotaþola. Hins vegar hefur takmörkuð umræða farið fram um hvort sú regla eigi að vera algild. Dómarar gætu til dæmis nýtt heimild til að loka hluta þinghalds og verndað þannig hagsmuni brotaþola, að því gefnu að ekki séu fjölskyldutengsl milli brotaþola og geranda. Einföld og algild regla kann að vera þægilegri í framkvæmd, en einfaldasta leiðin er ekki alltaf sú besta. Þannig er það svo að verði frumvarpið að lögum mun það veita dæmdum kynferðisbrotamönnum betri vernd en til dæmis dæmdum fíkniefnabrotamönnum eða morðingjum, þar sem þeir síðarnefndu gætu þurft að sæta því að fjölmiðlar fylgist með réttarhöldunum.
Birting dóma og nafnbirtingar eru með afar ólíkum hætti í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Spyrja má hvort samasemmerki eigi að vera á milli opinberrar birtingar og birtingar á netinu þar sem nöfn og ítarleg lýsing á málavöxtu situr um ókomna tíð. Það er fullmikil einföldun að rökstyðja nafnleynd með því einu að annars sæti sakamenn tvöfaldri refsingu, það er af hálfu réttarkerfisins annars vegar og dómstóls götunnar hins vegar. Engu að síður þarf að huga að réttindum brotamanna til að byggja líf sitt upp að nýju og hvort og þá hvernig „rétturinn til að gleymast“ gæti átt við gagnvart leitarvélum dómstólanna.
Rétturinn til að vita
Í þessu sambandi þarf líka að huga að því að það getur reynst mörgum þolendum þungbært að grafískar lýsingar á því ofbeldi sem þeir máttu þola sé aðgengilegt á heimasíðu Hæstaréttar, jafnvel þótt nafnleyndar sé gætt. En þar sem þau brot sem hér um ræðir ganga afar nærri brotaþolum – og reyndar samfélaginu almennt – þarf að fjalla um að hvaða marki upplýsingar um brotamenn eiga að vera aðgengilegar almenningi. Til dæmis má velta því upp hvort það varði fjölskyldufólk að dæmdur barnaníðingur búi í stigaganginum eða í næsta húsi eða hvort það varði konur yfirleitt að dæmdur nauðgari sé fastagestur á hverfisbarnum.
Í Bretlandi hefur verið farin sú leið að heimila lögreglu að veita upplýsingar til fólks sem þess óskar um hvort maki þeirra eða mögulegur maki hafi orðið uppvís að heimilisofbeldi eða kynferðisofbeldi. Voru þessi lög sett í framhaldi af baráttu föður konu sem var myrt af kærasta sínum, en faðirinn vill meina að hefði konan vitað af ofbeldissögu mannsins hefði verið hægt að afstýra þessum óhugnaði. Nánustu aðstandendur geta einnig sent inn fyrirspurnir. Rétturinn til upplýsingar er þannig talinn ganga framar rétti meintra og dæmdra brotamanna til friðhelgi.
#metoo og viðbrögð við ofbeldi
Sem samfélag stöndum við frammi fyrir aðkallandi spurningum – ekki síst í kjölfar #metoo bylgjunnar sem afhjúpaði kerfisbundið ofbeldi og áreitni gegn konum í öllum lögum íslensks samfélags – það er hvernig við ætlum að takast á við ofbeldi og áreitni í nærumhverfinu. Í þessu samhengi þarf að þróa fleiri leiðir en réttarkerfið hefur upp á að bjóða, því ofbeldi gegn konum og börnum er menningarmein sem þarf að uppræta sem slíkt. Réttarkerfið er engu að síður mikilvægt og þær lagabreytingar sem ráðist er í þurfa að hafa það að leiðarljósi að efla traust á réttarkerfinu, ekki draga úr því.
Réttarkerfið er í eðli sínu ólíkt öðrum meginstoðum samfélagsins. Við eigum til dæmis öll mikla snertifleti við heilbrigðiskerfið og menntakerfið í gegnum lífið, en blessunarlega þurfum við ekki öll að leita til réttarkerfisins á einhverjum tímapunkti. En ef til þess kemur, þá viljum við að það virki sem skyldi. Þróun réttarkerfisins er þess vegna ekki einkamál þeirra sem starfa innan þess eða hafa þurft á því að halda. Þessi þróun varðar okkur öll. Umræðan um nafnbirtingar og birtingar dóma er aðeins lítill angi af stærri mynd. Sú umræða er á fyrstu metrunum og vonandi fá sem flestar raddir að heyrast.
Höfundur er ráðgjafi forsætisráðherra í jafnréttismálum.