Nýafgreidd fjárhagsáætlun Garðabæjar eykur álögur á barnafjölskyldur, án nokkurs sýnilegs tilefnis. Bæjarsjóður stendur vel og skuldastaðan er ekki með þeim hætti að þurfi að hafa áhyggjur af.
Meirihluti bæjarstjórnar ákvað að hækka leikskólagjöld um 3% með þeim rökum og sýn að það sé nánast óhuggulegt hve lágt hlutfall kostnaðar við rekstur leikskóla foreldrar borga og þeir sem þjónustuna nýta eigi að borga. Þar er ekki fyrir að fara þeirri sýn að styrkja þjónustu við börn og ungmenni án þess að fyrir það verði greitt eins hátt gjald og mögulegt er.
Aðferðarfræðin sem gengur út á að keyra álögur á barnafjölskyldur upp í hæstu hæðir með t.d. 3% hækkun á leikskólagjöldum hefur áhrif. Ekki bara á ungu barnafjölskyldurnar sem eru að koma sér upp heimili og hafa þar ekki úr mörgum kostum að velja. Húsnæði í boði er dýrt og efnaminni hópar ráða ekki við slík kaup, aðeins þeir sem eru betur efnum búnir. Hinn kosturinn fyrir ungt fólk sem byrjar búskap i Garðabæ er að koma sér fyrir í svokölluðum aukaíbúðum, sem eru hluti af húsnæði foreldra eða annarra sem yfir slíku húsnæði búa. Slíkt hefur víðtæk áhrif á fjölbreytileika samfélagsins. Og stuðlar að einsleitni sem er aldrei til góðs þegar til lengri tíma er litið.
Aðferðafræði sem felur í sér að takmarka aðgengi ákveðinna hópa að samfélaginu byggir markvisst upp einsleitt samfélag. Samfélag sem fer á mis við þann þroska sem fjölbreytileikinn felur í sér.
Veljum fjölbreytileikann!
Í samfélagi þar sem álögur á barnafjölskyldur eru í hæstu hæðum, húsnæði dýrara en gengur og gerist og stuðningur við íþrótta- og tómstundaiðkun barna og ungmenna takmarkaður, eru áhrifin skaðleg. Barnafjölskyldur hafa takmarkaða möguleika á að veita börnunum sínum aðgengi að íþróttum og tómstundum þar sem iðkendagjöld eru há og bæjaryfirvöld velja að beita ekki jöfnunartækifærum sem felast til dæmis í að bjóða upp á systkinaafslátt.
Það verður verðugt verkefni okkar í Garaðbæjarlistanum að tala fyrir mikilvægi fjölbreytileikans í uppbyggingu samfélagsins. Í Garðabæ eiga að vera tækifæri fyrir alla að velja sér búsetu, stofna fjölskyldu og nýta þau gæði sem þar er að finna því þau eru mikil.
Höfundur er oddviti Garðabæjarlistans.