Verkalýðshreyfingin fer nú fram undir nýrri forystu.
Þess sér merki í breyttum málflutningi, nýrri tegund kröfugerðar og víðtækari lífskjarapólitík en oft áður. Þessu fylgir einnig mikil ákveðni að hálfu leiðtoga hreyfingarinnar um að ná árangri.
Allar eru kröfurnar viðbrögð við vandamálum og göllum í samfélagi okkar og miða að því að bæta úr og skapa betra samfélag. Þetta eru snjallar, tímabærar og vel framkvæmanlegar umbætur sem að er stefnt.
Ný orðræða
Hvað málflutning varðar er nú talað tæpitungulaust um laka afkomu láglaunafólks og rætur vandans – hvort sem þær liggja í of lágum launum, of háu verðlagi framfærslunnar, of háum sköttum á lágar tekjur eða rýrnun velferðarkerfisins.
Þetta er svo sett í rökrétt samhengi stéttabaráttunnar, sem áður var orðin að hálfgerðu feimnismáli.
Þeir hafa þó ekki kallað þetta stéttabaráttu heldur talað í staðinn um „skynsamlegar leiðir”, „einföldun” og „hagkvæmni”, eins og verið væri að vinna fyrir alla samfélagsþegna en ekki bara yfirstéttina. Yfirstéttin hefur siglt undir fölsku flaggi.
Yfirstéttin hefur rekið harða kröfupólitík gagnvart stjórnvöldum, í nafni nýfrjálshyggju, sem hefur öll miðað að því að bæta hag þeirra efnameiri og oft á kostnað alls þorra almennings.
Sérhyggja og sjálfgræðisstefna þeirra betur settu hefur ráðið för.
Yfirstéttin hefur þrýst á um lækkun skatta á hæstu tekjur, fjármagnstekjur og miklar eignir. Hún hefur þrýst á um lækkun skatta á fyrirtæki sem eykur rými til arðgreiðslna eigenda út úr fyrirtækjum.
Yfirstéttin hefur þrýst á um alls konar fríðindi, frelsi og forréttindi fyrir fjármagnseigendur, til að auka tækifæri þeirra til að græða.
Atvinnurekendur hafa á skömmum tíma flutt inn tugi þúsunda af láglaunavinnuafli og oft freistað þess að halda þeim í fátæktaraðstæðum.
Fjárplógsmenn hafa jafnvel heimtað að ríkið afhendi þeim allar fasteignir sínar (frá skólum til sjúkrahúsa, frá orkuveitum til vega) og að hið opinbera verði í staðinn leiguliði hjá auðmönnum, sem geta þá makað krókinn í öruggu skjóli skattgreiðandi almennings og án samkeppni.
Stjórnvöld hafa látið undan mörgum af þessum kröfum yfirstéttarinnar.
Í staðinn hefur skattbyrði láglaunafólks og millitekjufólks verið aukin og bætur velferðarkerfisins rýrðar. Verst hefur þetta bitnað á láglaunafólki og lífeyrisþegum (sjá hér).
Þessi tími alþjóðavæddrar nýfrjálshyggju, sem ríkt hefur frá um 1980, snéri stéttabaráttunni á haus. Stéttabarátta var lengst af á 20. öldinni rekin af verkalýðshreyfingunni og skilaði öllum þorra almennings bættum kjörum, auknum réttindum og meira öryggi.
Afleiðing þessa umsnúnings stéttabaráttunnar kemur víðast á Vesturlöndum fram sem aukinn ójöfnuður, veiking velferðarríkja og rýrnun ráðningarkjara vinnandi fólks. Auður hinna ofurríku hefur vaxið á sama tíma með ógnarhraða. Pólitísk ólga eykst samhliða þessari öfugþróun.
Ný kröfugerð
Með nýrri forystu í verkalýðshreyfingunni hafa nú verið stigin stór skref til að snúa stéttasamskiptunum úr varnarleik í sóknarleik fyrir hönd almennings.
Þetta kemur glögglega fram í frumlegri og metnaðarfullri kröfugerð fyrir komandi kjarasamninga.
Sótt er fram í nafni víðtækrar kjarastefnu. Lært er að þeirri reynslu að ekki duga launahækkanir einar ef stjórnvöld koma í bakið á launafólki og klípa af umsömdum kjarabótum með skattahækkunum, rýrnun bóta og græðgisvæðingu húsnæðismarkaðarins.
Kröfur beinast því bæði að atvinnurekendum og stjórnvöldum, með markvissari hætti en áður.
Svigrúm til launahækkana er nýtt hlutfallslega betur fyrir lægri launahópana, með flatri krónutölu-hækkun launa, sem sparar atvinnurekendum stigvaxandi hækkun heildarlaunakostnaðar.
Að stjórnvöldum beinast kröfur um tilfærslu á skattbyrðinni frá lægri tekjuhópum til hærri hópa, samhliða eflingu þess bótakerfis sem hefur stórlega rýrnað á undanförnum árum.
Að mörgu leyti beinast kröfur í húsnæðismálum að því að knýja stjórnvöld til að efna eigin loforð um úrbætur, sem á hefur staðið. Til viðbótar þarf að stórefla félagsleg úrræði í húsnæðismálum, reglubinda leigumarkað og auka verulega húsnæðisstuðning, ekki síst við ungt fólk.
Fjármálakerfið þarf að sveigja til hlýðni við samfélagið svo það skili mun lægri vaxtakostnaði fyrir heimilin og smærri fyrirtæki og reisa þarf örugga varnarmúra gegn því að auðmenn braski með gengi krónunnar gegn hagsmunum alls almennings.
Úrtölumenn og hagsmunaþjónar yfirstéttarinnar kalla þetta „óraunhæfar kröfur” og hafa jafnvel líkt þeim við „sturlun”.
En það er einkenni á allri kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar nú, að hún er raunsæ og vel framkvæmanleg án nokkurrar kollsteypu efnahagslífsins.
Hættan af kollsteypum liggur nú á dögum miklu frekar hjá fjármagnseigendum og bröskurum en hreyfingu launafólks, eins og reynslan af bólunni og hruninu sýndi svo glögglega.
Ný lífskjarapólitík
Meðalhækkun launa samkvæmt kröfugerðinni er um 6,5% á ári og atvinnurekendur hafa það í hendi sér að hækka laun þeirra hæst launuðu minna ef þeim finnst þung byrði af því að hækka lægstu laun um 42 þúsund krónur, þrjú ár í röð.
Stjórnvöld hafa ágætt svigrúm til að færa öllum þorra þeirra sem hafa lægstu og lægri millitekjur umtalsverðar skattalækkanir. Þau þurfa ekki að tapa heildarskatttekjum ef þau einfaldlega hækka álagningu á hæstu laun og fjármagnstekjur í átt til þess sem tíðkast hjá slíkum hópum á hinum Norðurlöndunum.
Það er líka auðvelt að koma böndum á húsnæðismarkaðinn og fjármálageirann sem leika lausum hala á kostnað samfélagsins.
Slíkar hækkanir lægstu launa, skattalækkanir og húsnæðisumbætur geta farið langleiðina með að gera þeim lægst launuðu kleift að lifa af dagvinnulaunum. Lífeyrisþegar myndu njóta sambærilegra kjarabóta.
Að koma vel til móts við kröfur verkalýðshreyfingarinnar er ekki aðeins mögulegt heldur væri það mikið þjóðþrifaverk sem gerði samfélagið allt betra, stöðugra og samkeppnishæfara gagnvart grannríkjunum.
Lífskjarapólitík verkalýðshreyfingarinnar er því í senn raunhæf og auðveldlega framkvæmanleg, bæði það sem snýr að atvinnurekendum og stjórnvöldum.
Vilji er allt sem þarf.
Höfundur er prófessor við HÍ og starfar í hlutastarfi sem sérfræðingur hjá Eflingu stéttarfélagi.