Mér finnst skrítið að ekki fleiri úr röðum stjórnmálafólks hafi stigið fram til að lýsa yfir afdráttarlausum stuðningi við kröfu okkar um 425.000 króna lágmarkslaun. Ef ég væri stjórnmálamanneskja myndi ég ekki getað hugsað mér annað, þrátt fyrir að hafa eflaust margt annað að hugsa um, en að standa með verka- og láglaunafólki á íslenskum vinnumarkaði í baráttu sinni fyrir því að hér verði farið í að útdeila gæðunum með sanngirni að leiðarljósi.
Ég myndi gera það af mörgum ástæðum, auðvitað fyrst og fremst af réttlætis-ástæðum; það er einfaldlega óréttlátt að láta sumt fólk búa við skert kjör á meðan annað fólk lifir í vellystingum.
Ég myndi gera það af „barnslegum“ ástæðum; samfélag sem virðir framlag allra mikils og sýnir öllu fólki virðingu er samfélag sem lætur börnum líða vel, sýnir þeim að þau mega og eiga að fá að lifa góðu og fallegu lífi.
Ég myndi gera það af umhverfis-ástæðum; ef það er raunverulegur vilji til þess að takast á við loftslagsvána verður að takast á við stéttskiptinguna og misskiptinguna sem liggur eins og mara á veröldinni; það er td. ekki alvöru lausn að skattleggja eldsneyti og kjöt á meðan sumt fólk þarf aldrei að hugsa um útgjöld vegna gríðarmikilla ráðstöfunartekna og önnur þurfa að velta hverjum þúsundkalli fyrir sér; slíkt mun aðeins ýkja stéttaandstæðurnar enn frekar og þau sem minnst hafa munu einfaldlega hafa enn minna. (Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að vegna þess að það hefur þótt sjálfsagt mál að nota lífskjör alþýðunnar í samfélagslegum tilraunaverkefnum valdastéttarinnar er ekki skrítið að stjórnmálafólk vilji halda áfram á þeirri braut; að nú skuli gera lágtekjuhópunum enn erfiðara að komast af til að reyna að bæta fyrir umhverfisglæpi kapítalismans).
Svo myndi ég gera það af raunsæi og skynsemi; vegna þess að stöðugleiki er ekki mögulegur í samfélagi þar sem ekkert er gert til þess að jafna kjör fólks, að í dýrasta landi Evrópu er bókstaflega óumflýjanlegt að verka- og láglaunafólk uni ekki sátt við sitt þegar það ekki aðeins fær lág laun, heldur þarf jafnframt að bera óeðlilega þunga skattbyrði (láglaunafjölskyldur á Íslandi bera nú einna hæstu skattbyrðina ef litið er til OECD rikjanna). Það er ótrúlega óskynsamlegt að halda að hægt sé að hóta fólki og þröngva því til að sætta sig við að tilvera þeirra eigi að vera sem erfiðust á meðan tilvera annara á að vera sem auðveldust. Stjórnmálafólk sem sækist eftir samfélagslegum stöðugleika getur ekki litið fram hjá þessari staðreynd um mannlegt eðli.
Og ekki síst myndi ég gera það í nafni kvenréttinda. Ég myndi t.d. ekki getað hugsað mér sem stjórnmálamanneskja að taka annars vegar þátt í baráttu fyrir þeim grundvallarmannréttindum að konur fái að lifa frjálsar undan hverkonar ofbeldi en líta á sama tíma fram hjá því undirstöðuatriði sem efnahagsleg afkoma er. Það er algjörlega augljóst öllum sem sjá vilja að kona sem hefur aðgang að mjög litlum tekjum, kona sem hefur verið dæmd til að selja vinnuaflið sitt á útsöluverði í samfélagi þar sem allt kostar og það ekkert smáræði er kona sem oft á ekki annara kosta völ en að þola hluti sem enginn á að þola.
Kven-vinnuaflið á Íslandi er mjög mikilvægt, satt best að segja bráðnauðsynlegt. Verka og láglaunakonur vinna í ferðamannaiðnaðinum; á hótelum eru þær ómissandi og því hægt að fullyrða að ekki er hægt að græða á hótelrekstri nema vegna vinnu kvenna. Þær vinna við að þrífa þjóðfélagið; án vinnu þeirra er ekki mögulegt að halda stofnunum og fyrirtækjum opnum. Þær vinna í sjávarútvegi; án kvenvinnuaflsins er hér ekki hægt að flaka fisk til að selja til útlanda. Og þær vinna störf sem samfélagið einfaldlega kemst ekki af án en hefur komist upp með að verðleggja af fádæma kaldlyndi og áhugaleysi; þau störf sem voru áður ólaunuð og á verksviði kvenna inn á heimilum, svokölluð umönnunarstörf, á leikskólum, hjúkrunarheimilum, spítölum og skólum. Ef að þessar konur vinna ekki sína vinnu stoppar allt.
Þessvegna er bæði fáránlegt og ógeðslegt að sætta sig við að þær uppskeri lítið sem ekkert fyrir gundvallarmikilvægi vinnuframlags síns.
Konur munu græða á því að lágmarkslaun hækki. Konur munu hafa betri möguleika á því að standa á eigin fótum ef að lágmarkslaun hækka. Konur munu eiga meiri möguleika á því að láta drauma sína rætast ef að lágmarkslaun hækka. Konur munu þurfa að vinna minna ef að lágmarkslaun hækka og af þeim sökum búa við betri andlega og líkamlega heilsu. Konur munu geta eytt meiri tíma með börnunum sínum ef að lágmarkslaun hækka. Konur munu hafa það betra ef að lágmarkslaun hækka, það er einfaldlega staðreynd sem ekki er hægt að líta fram hjá.
Ef ég væri stjórnmálamanneskja myndi ég hiklaust styðja kröfur verka- og láglaunafólks um 425.000 króna lágmarkslaun, af fjölmörgum ástæðum. Og ein mikilvægasta ástæðan væri þessi: Það er bókstaflega ólíðandi að árið 2019, í landi sem kennir sig við kvenréttindi, sé konum ennþá haldið niðri í efnahagslegum skilningi. Það er bókstaflega ólíðandi að kapítalískt hagkerfið komist ekki af án kven-vinnuaflsins en komist á sama tíma upp með að greiða laun sem ekki er hægt að komast af á.
Það er ekki í boði að tala fjálglega um jafnrétti, mannréttindi, kvenfrelsi og bjarta framtíð á meðan konur eru enn látnar vinna undirstöðustörf fyrir laun sem ekki duga til að tryggja efnahaglsega afkomu. Þau sem vilja skreyta sig með fjöðrum kvennabaráttunnar eiga að sýna smá hugrekki og lýsa yfir afdráttarlausum stuðningi við baráttu láglaunakvenna fyrir efnahagslegu réttlæti.
Ef ég væri stjórnmálamanneskja myndi ég gera það ekki seinna en núna.
Höfundur er formaður Eflingar.