Fyrir skömmu var haldinn athyglisverður fundur í Valhöll, höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins. Fundurinn bar yfirskriftina „Framtíð íslenska fjármálakerfisins.“ Raunveruleg ástæða fundarins var kannski hinsvegar að ræða fyrirhugaða sölu tveggja stóru bankanna á Íslandi; Landbankans og Íslandsbanka, en einnig var rædd ítarleg og vönduð skýrsla um þessi málefni, svokölluð ,,Hvítbók“ enda má segja að hún sé snævi þakin, með mynd af fallegu íslensku fjalli á forsíðunni.
Ríkið sat uppi með bankana
Eftir einhverja geggjuðustu einkavæðingartilraun í sögu mannkyns (2003-2008), sem endaði með einu stærsta gjaldþroti heimssögunnar, var íslenska ríkið svo ,,óheppið“ að fá bankana tvo í hendurnar (kapítalistar, sem margir hverjir eru á móti ríkisvaldi, hlaupa yfirleitt hinsvegar til þess þegar á bjátar). Þannig að segja má að almenningur hafi setið uppi með rústirnar af þessari geggjun.
Íslenska ríkið er því búið að eiga þessa tvo banka í um áratug og þykir nú ráðamönnum nóg komið. Það sé kominn tími til þess að ,,losa“ ríkið við þessar eignir og koma þeim í ,,réttar“ hendur. Það er nefnilega eins og það sé bannorð að ríkisvaldið eigi banka, sé bara ,,tabú“ eins og það er kallað. Einnig er talið mikilvægt að láta þetta fjármagn ,,vinna“, eins og sagt er um fjármagn sem er ,,dautt“ – en þarf að lífga við.
Dýrðardagar á enda?
Hins vegar kom fram á Valhallarfundinum að þessir dýrðardagar væru senn á enda, hagnaður bankanna myndi minnka í framtíðinni og það væri meðal annars ástæðan fyrir því að ríkið ætti að losa sig við þá. Fyrir væntanlega kaupendur eru þetta bæði góðar og slæmar fréttir; þeir geta krafist afsláttar á kaupverði og síðan eru væntanlegir kaupendur ef til vill að fá eignir sem gefa ekki mikið af sér (samkvæmt þessu) og hvað er varið í það? Þetta er því ákveðin þversögn.
Á fundinum var farið ítarlega í Hvítbókina um bankakerfið og lögð á það áhersla að það væri búið að breyta lögum um fjármálastarfsemi gríðarlega mikið og búið að reisa það sem kalla má ,,girðingar“ – til þess að hörmungin frá 2008 endurtaki sig ekki. Þ.e.a.s. að búið sé að ganga úr skugga um að við höfum lært af sögunni og hrunið muni aldrei gerast aftur. Við vonum svo sannarlega að svo verði raunin. Þetta var í raun lögð mikil áhersla á. En tryggingarnar fyrir því að við höfum lært af reynslunni eru hins vegar engar.
Íslensk kennitala
Í áætlunum um sölu bankann er þeirri hugmynd haldið á lofti að selja eigi Íslandsbanka að öllu leyti til erlendra aðila, en enginn hefur lýst yfir áhuga (enn sem komið er). Í sambandi við Landsbankann hefur því verið fleygt að selja hann til ,,traustra fjárfesta“ og að ríkið ætti að eiga um 30-40% hlut, til þess að hafa bankann á íslenskri kennitölu og til að tryggja að höfuðstöðvar bankans (væntanlega þessar nýju, sem er byrjað að byggja fyrir um 10 milljarða) haldist hér á landi.
Þetta var meðal annars efnislega það sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins sagði á fundinum. Hann nefndi reyndar einnig að hann væri til í selja Landsbankann í ,,smábitum“ um 5% á ári. Það tæki því talsverðan tíma. Spurning hvort þarna var talað af alvöru? Furðu lítið hefur verið fjallað um þennan fund og mér vitanlega var hann ekki sendur út með neinum hætti, því þetta er risastórt mál, sem varðar allan almenning á Íslandi um nánast alla framtíð.
Hér eru menn að taka mjög stór, mikilvæg og jafnvel afdrifarík skref fyrir íslenskt samfélag. Einnig vekur það furðu mína hvað lítið hefur heyrst frá VG-fólki um þetta mál. Ætlar VG bara að segja ,,pass“ í málinu? Eða samþykkir flokkurinn þessar áætlanir um sölu bankanna í einu og öllu? Er einhver umræða um málið innan VG?
Af hverju er samfélagsbanki tabú?
Í þessum hugmyndum er hins vegar ekkert pláss fyrir nýsköpun (ef svo mætti kalla) í sambandi við bankana, hér er ekkert hugsað út fyrir boxið. Heldur ræður íhaldssemin ferðinni. Í umræðu um bankamál hefur hugmyndin um samfélagsbanka verið töluvert rædd síðustu misseri. Hún gengur í raun út að slíkur banki veiti öllum hagnaði aftur í starfsemi sína, en moki ekki arði í vasa eigenda sinna. Fyrirlitnustu menn hrunsins voru einmitt aðilar sem höfðu gert það. Samfélagsbankar styðja við og bakka upp starfsemi lítilla og meðalstórra fyrirtækja og eru í raun til fyrir sitt nærsamfélag, eru einskonar kjarni þess. Eilítið svipað og gamla sparisjóðakerfið var (sem okkur tókst jú að eyðileggja líka).
Bankakerfi með þessu samfélagssniði er burðarásinn í stærsta og öflugasta hagkerfi Evrópu, Þýskalandi (Sparkassen). En þessi hugmynd virðist vera ,,tabú“ hér á landi, eins og það megi einfaldlega ekki ræða hana. Hvers vegna er það? Það er líka þannig að almannahagsmunir eiga mjög erfitt uppdráttar í þessari umræðu. Hvers vegna, spyr ég aftur? Skipta hagsmunir almennings engu máli í þessu samhengi? Af hverju afskrifa menn hér á landi svo eindregið hugmynd sem hefur svínvirkað í Þýskalandi í um 250 ár?
Það er líka þannig (einnig tilfinning) að það einfaldlega eigi að koma bönkunum aftur í ,,réttar hendur“ – að þeir skuli enda hjá einkaaðilum, þannig á völd og áhrif þeirra yfir þessum mikilvægu stofnunum samfélagsins verði tryggð. Og því fyrr - því betra!
Höfundur er MA í stjórnmálafræði (og kúnni hjá Landsbankanum)