Nú er rætt um að ríkið selji Landsbankann, eða amk. eignarhluta í honum og hefur nokkur umræða verið um að finna heppilegan kaupanda. Ekki legg ég neitt til málanna í því efni, heldur minni á ýmislegt í starfsemi bankans, sem vert er að skoða. Ef af sala bankans verður að veruleika, er mikilvægt að ekki verði endurtekning á fyrri óförum þegar gamli ríkisbankinn, Landsbanki Íslands, var seldur einkaaðilum í árslok 2002. Afleiðingar þeirra viðskipta, sem enduðu með hruni bankans, og yfirtöku ríkisins haustið 2008, þekkja allir.
Fyrir hrun Landsbankans, voru hugmyndir um að byggja nýjar höfuðstöðvar í miðbæ Reykjavíkur. Svo kom hrunið, og öllu slíku var ýtt út af borðinu. Nú eru þessi byggingaráform aftur komin á dagskrá, og enn á ný í miðbæ Reykjavíkur á dýrustu lóð landsins. Áætlað er að þessi bygging muni kosta um það bil níu milljarða króna að minnsta kosti. Þörf fyrir að sameina stoðdeildir bankans og alla bakvinnslu á einum stað, er réttlætingin fyrir þessari framkvæmd. Ég spyr.: Hvaða rök eru fyrir því að velja dýrustu lóð landsins fyrir nýjar höfuðstöðvar bankans? Er aftur komið 2007?
Þessa dagana er íslenskur almenningur agndofa yfir rausnarlegum hækkunum í stíl við 2007, á launum bankastjóra Landsbankans, á þeim tíma þegar stærstu verkalýðssamtökin standa í hörðum samningaviðræðum til að ná fram þeirri kröfu að launakjör vinnandi láglaunafólks dugi fyrir nauðþurftum, þ.e. fæði, klæði og húsnæði. Þetta er ekkert skárra, þótt launin séu hærri hjá bankastjóranum í Íslandsbanka, eða Arion banka. Allt sama ruglið í 2007 stíl!
Eitt vandamál sem þarf að útkljá er ekki hefur farið hátt í fjölmiðlum: Lífeyrissjóður bankamanna, á í málaferlum við bankann. Einnig eiga Seðlabankinn, Reiknistofa Bankanna og Valitor, aðild að þessu máli, sem hinir stefndu, en Landsbankinn er langstærsti aðilinn (stefndi), í þessu máli, en að baki Lífeyrissjóðs bankamanna er lífeyrisfólk, um þúsund manns, þar af tæplega sjö hundruð konur (miðað við árið 2017), allt fyrrverandi starfsmenn Landsbanka Íslands, og núverandi eftirlaunamenn hjá Lífeyrissjóði bankamanna.
Þetta fólk hefur orðið fyrir lækkun á eftirlaunum og kjaraskerðingu á síðustu tveimur árum, og það stefnir í frekari lækkun eftirlaunagreiðslna úr lífeyrissjóðnum á næsta ári. Ástæðan er vanefndir aðildarfyrirtækjanna (og þar er Landsbankinn stærstur). Þetta eru vanefndir á samkomulagi um uppgjör á skuldbindingum Landsbankans og hinna aðildarfyrirtækjanna, sem gert var þegar Landsbankinn gamli, var einkavæddur, auk uppsagna umfram það sem gert var ráð fyrir, eftir að ríkið yfirtók bankann, að loknu hruni. Þeim sem sagt var upp störfum, tók lífeyrissjóðurinn við, fyrr en ráð var fyrir gert, og oftast gegn vilja viðkomandi starfsmanna. Þau eiga það sameiginlegt að þau voru alls ekkert hálaunafólk, en unnu sem þjónustufulltrúar, gjaldkerar, og einnig í ýmsum stoðdeildum bankans. Bankastjórar og æðstu yfirmenn eru ekki í þessum hópi, þeirra kjör voru tryggð, og því er vonandi að jafnræðisreglan gildi. Núverandi bankastjóri og bankaráð Landsbankans, hafa hafnað samningaviðræðum í þessu máli, og því var málshöfðun óumflýjanleg.
Sem fyrrverandi starfsmaður, núverandi eftirlaunaþegi, ber ég sorg í hjarta yfir núverandi stöðu míns gamla vinnustaðar, Landsbankans.