Undanfarin ár hafa stjórnvöld farið mjög illa með öryrkja og aldraða. Það er eins og við séum ekki til í þeirra huga. Mikið hefur verið skrifað um þessi mál og því miður lítið gerst til að bæta kjör okkar. Frekast að það hafi verið brotið á okkur, tekið af okkur réttindi og tekjur minnkað heldur en hitt.
Ég get ómögulega skilið hvernig er farið með fólk sem hefur skilað af sér góðum verkum hér og þar í þjóðfélaginu. Við erum manneskjur sem eigum skilið miklu meira. Öryrkjar og gamalt fólk sem er hætt að vinna eiginlega falla þannig oft í gleymskunnar dá. Það er eins og við séum ekki til lengur. Okkur er hent inn á þar til gerðar stofnanir og eigum bara helst að vera þæg og góð, þegja og gera ekki neitt. Æviskeiðið sé þar á enda og við eigum bara helst að hreyfa okkur lítið sem ekkert. Og þannig séu framfærslunrar eftir því. Stjórnvöldum er sama nema í þykjustunni fyrir kosningar þegar draga á inn atkvæðin með því að ljúga að okkur hvað eftir annað.
Það er ömurlegt til þess að hugsa hversu lítið við fáum að taka þátt í þjóðfélaginu, við sem getum það. Það er líka ömurlegt að hugsa um allar kjaraskerðingarnar. Að við sem hópur í þjóðfélaginu skulum alltaf líða fyrir og að brotið sé á okkur hvað eftir annað. Sem orsakast af litlum skilningi og oft vanvirðingu í okkar garð.
Mér var hugsað til nýgerðra kjarasamninga. Að öryrkjar og aldraðir skulu þar ekki hafa verið nefndir einu orði. Því lýsi ég frati á þessa samninga vegna þess að hægt hefði verið að taka okkur inn í samningana og ríkisstjórnin hefði vel getað sett breytingar og leiðréttingar inn í það sem kom frá henni. Nefnt okkur þar á nafn. Ég vil þó nota tækifærið að þakka fyrir það sem vel er gert fyrir hina hópana og skil vel að þar er mjög mikil vinna að baki.
Hvernig væri að taka sig á í þessum málum fyrir alvöru? Með því að leiðrétta strax sem hefur verið brotið af okkur? Einnig að við fáum kjarabætur til jafns við aðra hópa í þjóðfélaginu?
Þið verðið að skilja að öryrkjar og aldraðir eru starfshópur eins og aðrir, bara öðruvísi. En það er möguleiki að gefa okkur tækifæri til beinnar vinnu sem geta það. Hægt væri að setja í gang sérstakt átak til atvinnusköpunar fyrir okkur. Það er vel hægt.
Ég beini þessum orðum til stjórnvalda. Endilega takið ykkur á í þessum málum. Við ættum þannig líka að vera með í öllum kjarabótum í framtíðinni. Hvernig væri að losa burtu þetta vandamál fyrir fullt og allt með því að setja í gang sérstaka kjarabót fyrir öryrkja og aldraða? Samningar til fjögurra ára. Hann mætti kalla til dæmis „kjaragætur”.
Væri ekki fínt og gáfulegt að búa til samninga sem byggja á því að öryrkjar og aldraðir fari strax inn í aðra kjarasamninga? Þá þarf ekki að lenda í sömu vandamálum í þessum málaflokki aftur og aftur.
Við óskum eftir virðingu og trausti.