Fyrr á þessu ári benti greinarhöfundur á að árstekjur Landsvirkjunar (LV) vegna 2018 hefðu líklega verið hærri en nokkru sinni í sögu fyrirtækisins til þessa. Þegar LV svo tilkynnti nýverið um uppgjör sitt vegna 2018, kom í ljós að umrædd spá greinarhöfundar var rétt.
Taflan hér að ofan sýnir hvaðan LV fékk tekjurnar. Vegna þess að hér eru allar tölur námundaðar í næsta hálfa eða heilan milljarð eru vikmörkin í töflunni nokkur og þeim mun meiri sem viðskiptavinirnir eru smærri. Taflan veitir lesendum engu að síður all skýra mynd af því hverjir eru mikilvægustu viðskiptavinir LV. Hér skal að auki tæpt á nokkrum atriðum til nánari skýringar:
Um 26 milljarðar króna af 49 koma frá tveimur álverum
Samtals námu tekjur LV vegna 2018 tæpum 444 milljónum dollara, þ.e. um 49 milljörðum króna miðað við meðalgengi ársins. Eins og sjá má af töflunni var meira en helmingur teknanna vegna tveggja álvera; alls greiddu álver ISAL í Straumsvík (Rio Tinto) og Fjarðaáls á Reyðarfirði (Alcoa) um 26 milljarða króna eða meira en 50% allra tekna LV. Þriðji stærsti tekjuliður LV er svo vegna almennrar heildsölu, sem er fyrst og fremst orka sem önnur raforkufyrirtæki kaupa frá LV og selja áfram til viðskiptavina sinna.
Álverin þrjú nota um 75% af allri raforku sem framleidd er á Íslandi. Hafa má í huga að mögulega fór hluti af raforkunni sem seld var í almennri heildsölu líka til álvera. Þ.e. til Norðuráls, því bæði Orka náttúrunnar (ON í eigu OR) og HS Orka selja Norðuráli raforku og kaupa talsvert af raforku frá LV. Tekjur LV vegna álvera kunna því í reynd að hafa verið aðeins meiri en það sem endurspeglast í beinni sölu fyrirtækisins til álveranna. Um leið þarf að hafa í huga að hluti af tekjum LV vegna stóriðjunnar eru flutningstekjur sem renna til Landsnets, en LV er reyndar stærsti eigandi Landsnets.
Um 2/3 af tekjuaukningunni kom frá álverunum og Elkem
Tekjur LV árið 2018 voru um u.þ.b. sex milljörðum hærri í krónum talið en árið á undan (2017). Af þessum auknu sex milljörðum króna komu um tveir milljarðar af tekjuaukningunni frá áðurnefndum tveimur álverum á Reyðarfirði og í Straumsvík. Og af milljörðunum sex komu alls u.þ.b. fjórir milljarðar sem auknar tekjur frá stóriðjufyrirtækjunum fjórum, þ.e. frá álverunum þremur og járnblendiverksmiðju Elkem. Álverin þrjú og járnblendiverksmiðja Elkem skiluðu sem sagt um 2/3 af allri tekjuaukningu LV árið 2018.
Um 1/3 af tekjuaukningunni kom frá öðrum viðskiptavinum LV
Almennar heildsölutekjur LV jukust um u.þ.b. einn milljarð króna. Sá milljarður sem eftir stendur af tekjuaukningunni hjá LV vegna 2018 fékkst vegna raforkusölu til annarra smærri viðskiptavina, sem eru kísilver PCC á Bakka, Becromal við Eyjafjörð og nokkur gagnaver. Þessi síðastnefndi viðskiptavinahópur er því smám saman að verða mikilvægari fyrir LV. Það eru samt auðvitað stóriðjufyrirtækin fjögur sem skipta mestu máli fyrir orkufyrirtækið. Sem endurspeglast í því að einungis um 1/3 af tekjuaukningu LV árið 2018 kom vegna raforkusölu til annarra en stóriðjufyrirtækjanna fjögurra. Og til framtíðar litið verður stóriðjan líklega ennþá mikilvægari fyrir tekjuaukningu LV. Vegna hækkandi raforkuverðs LV til stóriðjunnar.
Hækkun á raforkuverði til Fjarðaáls myndi snarauka tekjur LV
Eins og áður sagði kemur rúmlega helmingur tekna LV frá tveimur álverum og þar er álver Fjarðaáls (Alcoa) í efsta sætinu. Miðað við hlutfall tekna og raforkumagns, er þó samningurinn við álverið í Straumsvík hlutfallslega mikilvægasti samningur LV í dag. En til framtíðar, þ.e. eftir 2028, er mögulegt og reyndar nokkuð líklegt að álver Fjarðaáls á Reyðarfirði verði hryggjarstykkið í tekjum, hagnaði og arðgreiðslum LV. Því það ár (2028) kemur raforkuverðið í þeim viðskiptum til endurskoðunar.
Raforkuverðið samkvæmt upprunalegum samningi LV og Alcoa (Fjarðaáls) frá 2003 er hlutfallslega mjög lágt. Um leið er þetta langstærsti orkusamningur LV; Fjarðaál kaupir um þriðjung af allri raforkuframleiðslu orkufyrirtækisins meðan ISAL (Rio Tinto) í Straumsvík kaupir mun minna eða um fjórðung orkunnar sem LV framleiðir. Raforkuverðið til ISAL hækkaði mikið með nýjum samningi árið 2010 og sennilega gerir LV ráð fyrir mikilli hækkun á raforkuverðinu til Fjarðaáls við endurverðlagninguna 2028.
Verður Kárahnjúkavirkjun hryggjarstykki Auðlindasjóðs?
Mögulega gerir LV ráð fyrir því að eftir 2028 muni árlegar tekjur fyrirtækisins frá Fjarðaáli hækka um ca. 9-10 milljarða króna á einu bretti (frá því sem nú er). Sú hækkun ein og sér myndi jafngilda um fimmtungi af öllum tekjum LV á síðasta ári! Það blasir sem sagt við að fyrir LV skiptir miklu að vel takist til við endurverðlagninguna gagnvart Alcoa 2028. Sú raforkusala gæti orðið hryggjarstykki í uppbyggingu Auðlindasjóðs.
Hagnaður LV vegna langtímasamningsins við ISAL í Straumsvík gæti líka skilað miklu í Auðlindasjóð. Og sennilega einnig hagnaður af raforkusölunni til Elkem og Norðuráls, en þar er raforkuverðið til lengri tíma litið þó enn óvíst. Allt eru þetta vísbendingar um það hversu gríðarstór fyrirhugaður auðlindasjóður Íslands gæti orðið. Og það vel að merkja allur í erlendum gjaldeyri, því þannig greiðir stóriðjan hér fyrir raforkuna (mest í bandaríkjadölum; USD).
Ennþá er enginn Auðlindasjóður orðinn til. En slíkur sjóður gæti orðið eitthvert mikilvægasta fjárhagslega fjöregg Íslands. Um leið er rétt að hafa í huga að þó svo raforkuverðið í orkusamningnum við Alcoa (Fjarðaál) frá 2003 hafi í upphafi verið mjög lágt, eru horfur á að sá samningur og Kárahnjúkavirkjun (Fjótsdalsstöð) geti skilað okkur Íslendingum miklum arði til framtíðar. Auk þess sem virkjunin sú, þessi stærsta vatnsaflsstöð Evrópu (utan Rússlands) langt inni í fjalli innst í Fljótsdalnum, er auðvitað sannkallað verkfræðiundur.
Höfundur er lögfræðingur og MBA.