Það var undarleg tilfinning að lesa frásagnir fjölmiðla af hlutafjárkaupum nokkurra fjárfesta í Arion banka. Ekki það að þeir hafi borið afkáraleg nöfn eða ritháttur þeirra verið óvenjulegur. Eitthvað var það sem ýtti við hugskoti mínu. Ég kannaðist við öll þessi nöfn. Hvaðan? Jú, úr aðdraganda og eftirmála Hrunsins. Nöfnin voru títt í opinberri umræðu bæði fyrir og eftir 2008. Þetta voru kunnugir áburðarjálkar útrásarinnar, þess Hrunadans sem setti efnahag landsins á annan endann og leiddi miklar hörmungar yfir heimilin, þegar krónan snarféll og fjármálastofnanir ásamt fyrirtækjum urðu gjaldþrota.
Nú eru þeir aftur komnir á kreik. Hvernig mátti þetta gerast? Urðu þessir sporgöngumenn hruninna spilaborga með almannafé ekki líka gjaldþrota? Þeir sátu þó undir stýri. Eða höfðu þeir tímanlega komið eigin fjármunum í skjól? Þeir virðast a.m.k. nú, eiga fúlgur fjár. Það er ein að þeim ráðgátum sem almenningur hefur ekki fengi nægilega skýringar á, hvernig tókst að koma öllum þessum fjármunum undan án eðlilegrar vitundar yfirvalda. Miklir fjármunir hafa streymt inn í landið á vegum innlendra fjárfesta allt frá því Seðlabankinn ívilnaði með sérstöku gengi þeim til handa.
Viðskipti í einhæfu samfélagi
Gleymum þeim miklu millifærslum með erlent sparifé sem þöndu út og sprengdu að lokum markaðina. Horfum framhjá nánast óendanlegum leikfléttum með fjármuni sem búnir voru til af bönkunum og af bíræfinni spákaupmennsku. Þetta hefði aldrei getað gerst nema íslensk lög hefðu haldið skattundankomuleiðum opnum. Þekkt eru tilvik þar sem íslensk fyrirtæki og einstaklingar sem störfuðu einnig á erlendri grund, skiluðu engum ársreikningum yfir félög sín erlendis. Íslenska eigandanum bárust engar tekjur að utan.
Grunnur íslensku skattalöggjafarinnar er lagður á þeim tímum þegar efnahagslífið hér var afar einhæft og einfalt. Viðskiptin voru milli bænda og kaupfélaganna með mjólk og lambskrokka. Sjómenn lögðu upp aflann á föstu verði og kaupmenn keyptu vöru sem þeir endurseldu fljótlega. Allt einfaldar athafnir. Söluhagnaður af eignum var lítt þekkt fyrirbæri. Klunnalegir feluleikir á millistríðsárunum með saltfisk til Ítalíu voru það bíræfnasta sem þekktist. Viðskipti með sprelllifandi peninga óþekkt. Félagaformið einfalt. Annaðhvort hlutafélög eða samvinnufélög. Með tilkomu kvótakerfisins (1984/5) og síðan EES samningsins (1995) gjörbreyttist viðskiptaumhverfi landsins. Á skömmum tíma urðu til miklir fjármunir og sum kvótasalan færði eiganda sínum ofsagróða. Opnun viðskipta til 500 milljóna manna markaðar, umturnaði ávöxtunarkröfum, viðskiptatækifærum og skóp nýjar leiðir með flóknari fjármálagjörningum.
Handhæg hlutafélög
Til að auðvelda viðskipti og draga úr áhættu voru sett lög um einkahlutafélög. Sem slík voru þau áþekk erlendum fyrirmyndum. Lagalegur og viðskiptalegur grunnur þeirra var hins vegar allt annar. Hann hvíldi á fyrrnefnda einhæfa viðskiptasamfélaginu. Ekki voru gerðar strangar kröfur um upplýsingaskyldu, skil á ársreikningum eða eignarhaldi. Skattaleg meðferð mismunandi forma söluhagnaðar og fjármálavafninga var óljóst, því einkahlutafélögin höfðu þá eiginleika að feta fjölgað sér sjálf eins og amöbur. Engin takmörk voru sett um stofnun nýrra einkahlutafélaga sem hvert átti annað.
Þannig varð til nánast endalaus röð félaga sem gerði fjarlægum eigendum mögulegt að koma fjármunum síum í skjól, sem yfirvöldum heima var ógerlegt að finna. Óframtalinn hagnaður hvarf. Skattskyldir peningar urðu ósýnilegir. Þeir enduðu í ráðgátufyrirtækjum í framandi löndum, þar sem engin skylda hvíldi á yfirvöldum að gera grein fyrir og íslensk skattalögsaga náði ekki til. Íslenskir bankar runnu á blóðslóðina, stofnuðu útibú í Lúxemborg til að aðstoða flóttann. Sumir eigendur felufyrirtækjanna klifruðu síðan upp í æðstu stöður þjóðfélagsins, eins og helgir menn til himna.