Fyrst pælingarnar ... Kári Stefánsson forstjóri skrifar um orkumál í Fréttablaðið 24. aríl síðastliðinn. Hann byrjar á því að fara í hvíta sloppinn; nefnir Einstein og jöfnuna hans góðu, segir svo umræðuna um 3. orkupakkann hafa fram til þessa verið deilu um keisarans skegg en útskýrir svo fyrir okkur hvernig þetta eigi að vera. Landsvirkjun eigi að selja íslenskum almenningi orku á framleiðsluverði og hún skuli svo notuð til uppbyggingar á atvinnulífi hér í landbúnaði og gagnaverum.
Þetta hljómar vel og aldrei að vita nema hægt hefði verið að komast að þessum niðurstöðum án atbeina Einsteins. Við í Samfylkingunni höfum til dæmis talað á Alþingi um nauðsyn þess að innlend grænmetisframleiðsla njóti lægra rafmagnsverðs, þó að meginrök okkar snúist að vísu um loftslagsvána, sem Kára láist alveg að nefna þó að þar sé um að ræða stærsta úrlausnarefni okkar tíma – og raunar helsta viðfangsefni allra þessara orkupakka. Kári áréttar hins vegar mynduglega það meginatriði jafnaðarstefnunnar að Landvirkjun beri að hafa hag almennings að leiðarljósi en ekki hugsa eins og hvert annað einkafyrirtæki – þó að ég hafi ekki frétt af 30% hækkunaráformum fyrirtækisins sem hann talar um.
(Svona í framhjáhlaupi: hljómsveitir frá síðustu öld eru að koma saman og skemmta þeim sem þær kunna að meta – nú síðast Duran Duran. Einhvern veginn verður mér hugsað til þessara næntís-banda með kombökk nú þegar ekki er þverfótað fyrir foringjum tíunda áratugarins að leggja okkur lífsreglurnar í Orkupakkamálinu, meira að segja dúkka upp formenn löngu látinna stjórnmálaflokka ...)
Sem sagt: gott. Eitt vefst þó fyrir mér. Ég átta mig ekki alveg á því að það sé endilega áhyggjuefni í sjálfu sér að hærra verð kunni að fást fyrir íslenska orku til stórkaupenda en nú tíðkast. Er það andstætt almannahagsmunum að Landvirkjun fái góðan arð af orkusölu ef slíkt orkusala færi um sæstreng til útlanda fremur en til álbræðslu og kísilverksmiðju á Íslandi? Ég hefði haldið að það gæti jafnvel verið í almannaþágu að selja íslenska orku á góðu verði (að ekki sé talað um loftslagsmálin), fari svo ólíklega að lagður verði sæstrengur frá Íslandi til Evrópu. Slík risaframkvæmd borgar sig þó trauðla nema eitthvað mikið breytist og framþróun er hröð í orkulausnum næstu ára hjá þjóðum Evrópu sem almennt eru komnar miklu lengra í viðbrögðum við vandanum en við hér.
Það kann sem sé að vera ólíklegt að þessi sæstrengur verði nokkurn tímann lagður – en það er líka óviturlegt að útiloka hann um aldur og ævi.
En þessi ótti við hátt orkuverð – minnir hann ekki svolítið á það þegar Íslendingar þverskölluðust við að leggja stund á síldveiðar, sem væri bara einhver útlenskur vitleysisgangur? Þessi andúð á arðsemi – er þetta eitthvað úr Passíuálmunum?
Skili orkusala til evrópskra heimila og atvinnurekstrar góðum arði og komi í stað kolabrennslu og olíuausturs í þeim löndum, fæ ég ekki annað séð en að það sé þjóðþrifamál og hægt sé að nota hluta af þeim arði til að niðurgreiða rafmagnsverð til íslenskra heimila, og bæta almenn lífskjör, sé þess grundvallaratriðis gætt að þessi auðlind sé í þjóðareigu, rétt eins og Norðmenn hafa haft vit á að gera með olíuna sína.
Hvað sem öðru líður er mikilvægt að láta umræðuna um 3. orkupakkann snúast um það sem þar er en ekki hitt sem löngu er afgreitt. Það væri misráðið að segja skilið við EES, eins og er yfirlýst markmið sumra með baráttunni gegn 3. orkupakkanum og almennt talað er óþarfi að líta á ríki Evrópu sem óvinaríki, þó að sjálfsagt sé að fara að öllu með gát.
Við megum ekki láta stjórnast um of af tortryggni og ótta við við aðrar lýðræðisþjóðir enda verður ekki tekist á við loftslagsvána öðruvísi en með samstarfi þjóða og væntanlegir orkupakkar munu snúast um þau mál öðru fremur. Og við megum ekki láta neinn telja okkur trú um að þau mál séu ekki á dagskrá.
Svo eru það spælingarnar. Í lok greinarinnar víkur Kári að Alþingi. Hann skrifar:
„En ef Alþingi samþykkir orkupakkann þriðja held ég að við lifum það svo sem af vegna þess að við erum öll, 350 þúsund, orðin atvinnumenn og konur í því að takast á við þau bjánasköp kjörinna fulltrúa þjóðarinnar sem þeir fremja gjarnan í nágrenni Austurvallar, þau afdrifaríku inni í hlöðnu steinhúsi sem blasir við Jóni Sigurðssyni, þau sem eru næstum takmarkalaust eymdarleg í depurð sinni í öðrum húsum þar í nágrenninu.“
Þetta er nokkuð samanrekinn texti og kemur sér nú vel að hafa reynslu af því að taka saman dróttkvæði þegar maður les hann, en mér virðist sem sé að höfundur vísi hér í Klausturmál þar sem fimm eða sex skoðanasystkini Kára í orkupakkaspursmálinu komu við sögu. Klausturmál voru náttúrlega ekki til þess fallin að auka hróður þeirra og þá ekki Alþingis heldur. En vandséð er hvernig þau koma orkumálum þjóðarinnar við. Og þau gefa ekki nokkra mynd af starfi eða framgöngu þingmanna almennt. Eiginlega er ekki hægt að draga víðtækari ályktanir af Klausturmálum en þær að áfengi gerir hvern mann að bjána sem þess neytir í óhófi – og hefur svo lengi verið, svo að jafnvel má tala um lögmál í því sambandi, án þess að ég hyggist nefna Einstein til sögunnar máli mínu til stuðnings.
Kári er náttúrlega kjaftfor, sem er meðal þess sem gerir hann ástsælan og er góður eiginleiki. En sé nú Alþingi skipað tómum bjánum sem fremji tóm „bjánasköp“ sem séu „takmarkalaust eymdarleg í depurð sinni“ og fylliröftum sem ekki sé treystandi fyrir nokkrum hlut – tja, hvað þá? Sé Íslendingum svona fyrirmunað að kjósa frambærilegt fólk til þingstarfa er þá ekki málið bara að fá einhvern kláran kall til að finna út úr þessu öllu saman fyrir okkur; íslenskan Pútín? Á Fasebooksíðu Kára sér maður að sumir viðlækendur hans fara einmitt að hugsa svona við lesturinn, og vilja gera hann að Forstjóra Íslands.
Það er hættuleg hugmynd. Fulltrúalýðræðið hefur sína ókosti, sem fylgja óhjákvæmilega kostum þess; á þingum sitja kjörnir fulltrúar ólíkra menningarhópa, deila þar rými og takast á um mál eftir ákveðnum settum reglum og venjum, þannig að ólík sjónarmið koma til álita við afgreiðslu. Það getur verið þreytandi fyrir þá sem allt vita en gagnlegt fyrir okkur hin.
Á Alþingi situr með öðrum orðum ósköp einfaldlega það fólk sem við höfum kosið þangað. Þessu fólki er ætlað að setja sig inn í flókin mál fyrir hönd kjósenda sinna, með eigin samvisku að leiðarljósi og þær hugsjónir sem það deilir með kjósendum sínum. Þetta fólk er hvorki betra né verra en gerist og gengur, það kemur úr þjóðardjúpinu, fulltrúar kjósenda sinna sem eru af ýmsu tagi. Þingmenn geta reynst latir, duglegir, drykkfelldir, bindindissamir, mælskir, dauflegir, málefnalegir, ómálefnalegir. Við getum haft skömm á þingmönnum og við getum haft skömm á kjósendum þeirra. Það má alveg – og sú skömm virkar áreiðanlega í allar áttir með stigmagnandi gagnkvæmni; en sú skömm má ekki ná til sjálfrar stofnunarinnar Alþingis og sjálfs fyrirkomulagsins sem við nefnum þingræði.
Því öflugra sem fjölflokkalýðræðið er, þeim mun líklegra er að vandað sé til ákvarðana og horft til margvíslegra ólíkra sjónarmiða þegar mál eru skoðuð.
Eins og Orkupakkamálið.
Að sjálfsögðu snýst mótun orkustefnu um lífskjör í landinu og atvinnuuppbyggingu eins og Kári nefnir. Hún snýst líka um náttúruvernd og neytendavernd.
Við megum ekki láta stjórnast um of af tortryggni og ótta við aðrar lýðræðisþjóðir enda verður ekki tekist á við loftslagsvána öðruvísi með samstarfi þjóða og væntanlegir orkupakkar munu snúast um þau mál öðru fremur; og við megum ekki láta neinn telja okkur trú um að þau mál séu ekki á dagskrá.
Við megum ekki afhenda yfirþjóðlegum risafyrirtækjum – innlendum lukkuriddurum og kvótafurstum eða öðrum auðvaldsfyrirtækjum – yfirráð yfir auðlindum okkar. Við megum ekki framselja valdið yfir því hvar virkja megi og hvar ekki.
Við megum ekki hafa að leiðarljósi hagsmuni stóriðjunnar, sem vill sitja ein að orkukaupum í stórum stíl hér á landi og hafa sjálfdæmi um orkuverð. Við megum ekki útiloka um aldur og ævi að orkan sem þegar hefur verið virkjuð verði seld eitthvað annað en í álbræðslur og kísilverksmiðjur, jafnvel á hagstæðu verði.
Við megum ekki ljá máls á öðru en að orkuauðlindir okkar séu og verði þjóðareign og að almannahagur verði hafður að leiðarljósi við nýtingu þeirra.
Ógnir blasa við landsmönnum en þær felast ekki í samstarfi evrópskra þjóða um regluverk í orkumálum. Ógnin sem að okkur steðjar er fyrst og fremst fólgin í lífsháttum okkar og andvaraleysi um afleiðingar þeirra.
Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.