Árið 1983 gengu fjórir dómar í Hæstarétti um kröfur fjögurra manna, en þrír þeirra höfðu sætt 105 daga gæsluvarðhaldi og einn 90 daga að ósekju árið 1976. Sátu mennirnir í gæsluvarðhaldi í Síðumúlafangelsi eins og þá tíðkaðist. Þeir höfðuðu bótamál á hendur ríkinu, sem lauk með dómum Hæstaréttar. Um fjölmiðlaumræðu um gæsluvarðhaldsfangana sagði Hæstiréttur í dómsforsendum að þeir hefðu orðið fyrir barðinu á einstæðri umræðu í ýmsum fjölmiðlum sem hafi vegið að mannorði þeirra með getsökum og hleypidómum. Húsakynnunum í Síðumúlafangelsi lýsti Hæstiréttur þannig að þau hafi ekki verið forsvaranleg til svo langrar vistunar. Í málinu lágu ekki fyrir gögn um áhrif gæsluvarðhaldsins á andlega og líkamlega heilsu fanganna, en Hæstiréttur mat áhrifin sjálfur með þeim orðum, að vistunin hafi reynst föngunum fáheyrð andleg og líkamleg raun.
Héraðsdómur dæmdi mönnunum bætur úr hendi ríkisins, sem ríkið sætti sig ekki við og áfrýjaði því ákvörðun héraðsdómsins um fjárhæð bótanna til lækkunar. Ríkið hafði ekki erindi sem erfiði enda hækkaði Hæstiréttur bæturnar verulega. Bæturnar sem Hæstiréttur ákvað þeim sem sátu í 105 daga í gæslu nema á núvirði miðað við breytingar á vísitölu, neysluverðs u.þ.b. kr. 56.000.000 eða u.þ.b. kr. 535.000 á dag samkvæmt útreikningum endurskoðenda.
Á sama tíma árið 1976 og lengi síðan þannig að í árum telst sátu nokkrir sakborningar í einangrun út af sama sakarefni í sama fangelsi grunaðir um að bera ábyrgð á ýmist einu eða tveimur mannshvörfum. Einangrunarvist þeirra varði í hundruð daga þannig að til pyndinga telst og áhrifin varanleg og óafturkræf. Þeir urðu fyrir barðinu á einstæðri umræðu í ýmsum fjölmiðlum sem vó að mannorði þeirra með getsökum og hleypidómum. Húsakynnin í Síðumúla voru ekki forsvaranleg til hinna áralöngu vistar sakborninganna að mati Hæstaréttar. Reyndist vistin sakborningunum fáheyrð andleg og líkamleg raun.
Sakborningar þessir sátu árum saman í einangrun i gæsluvarðhaldi og afplánun að ósekju því í ljós kom að lokum að þeir voru saklausir af þeim mannshvörfum sem þeir voru dæmdir sekir um í Hæstarétti í febrúar 1980. Þeir voru sýknaðir með dómi Hæstaréttar í september 2018 eða tæpum 40 árum síðar. Hafa verður í huga að sakborningarnir voru sviptir nánast öllum réttindum sakborninga á tímabilinu 1976 til 1980. Áður hefur verið getið um aðstæður í fangelsinu, en hvorki þær aðstæður né meðferð sakborninganna samræmdist lögum á þeim tíma og reglunni um vernd mannlegar reisnar. Þeir höfðu afar takmarkaðan aðgang að verjendum sínum og hvorki þeim né verjendum þeirra gafst kostur á að spyrja og gagnspyrja aðila sem lögregla og sakadómur yfirheyrðu. Sakadómur og rannsóknarlögregla héldu blaðamannafund áður en ákærur voru gefnar út og lýstu sakborninga sannanlega seka. Dómsmálaráðherra sagði eftir blaðamannafundinn að þungu fargi væri létt af þjóðinni. Eftir þetta var útilokað að sakborningar gætu notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi.
Ekki eru í íslenskum lögum önnur úrræði fyrir þá sem ríkið sviptir frelsi og réttindum en að krefja ríkið um skaðabætur fyrir fjárhagslegt og ófjárhagslegt tjón (miskabætur). Ekki er að finna i lögum leiðbeiningar um hvernig ákveða eigi fjárhæð miskabóta og hefur löggjafinn því falið dómstólum að móta slíkar reglur. Þeir dómar Hæstaréttar, sem einkum ber að styðjast við sem fordæmi Hæstaréttar eru dómarnir frá 1983, sem að framan eru raktir Þeir komast næst því að haf beint fordæmisgildi, enda fjalla þeir um sama sakarefni, sama tímabil og sama fangelsi. Munurinn er helst sá, að gæsluvarðhaldstíminn var margfalt styttri í þeim dómum og ekki var ranglega felld sök á þá sem í hlut áttu, þannig að þeir þurftu ekki að bera sekt á öxlum sínum um áratuga skeið. Þeir voru lausir allra mála varðandi sekt er þeim var sleppt úr gæslu. Ríkið gæti hugsað sér að færa fram þau rök fyrir lægri bótum til hinna sýknuðum, að þeir hafi setið svo lengi í fangelsi og svo miklu lengur en fjórmenningarnir að ríkið geti krafist eins konar magnafsláttar í þeim skilningi, að því lengur sem ríkið sviptir menn frelsi að ósekju því lægri verði bætur fyrir hvern dag. Efast verður um að ríkið treysti sér sóma síns vegna að tefla fram þess háttar rökum, enda verða neikvæð áhrif frelsissviptingar æ meiri eftir því sem hún varir lengur. Það myndi hins var reynast ríkinu léttbært að finna rök fyrir hærri bótum en í dómi Hæstaréttar 1983. Nefna má hina löngu einangrunarvist, ólöglegar aðferðir við að reyna að fá fram játningar (t.d. lyfjagjöf, sefjun), pyndingar, brot á réttaröryggisreglum, brot á reglunni um réttláta málsmeðferð og vernd mannlegrar reisnar, takmörkun á undirbúningi varnar fyrir dómi m.a. með. því að hindra samráð sakborninga við verjendur, lausn úr fangelsi á skilorði um árabil og brennimerkingu sem manndrápsmenn í tæp 40 ár eftir dóm Hæstaréttar o.s.frv.
Ef ríkið hugsar sér að sniðganga fordæmisáhrif dómsins frá 1983 í samningum við hina sýknuðu stendur ríkið frammi fyrir því að sýna fram á að staða hinna sýknuðu sé önnur og þeir hafi orðið fyrir hlutfallslega miklu minna tjóni og miska en aðilar dómsins 1983. það verður brött ganga fyrir ríkisstjórnina að sannfæra aðra, þegar að samningaviðræðum kemur, um að dómurinn frá 1983 hafi ekkert fordæmisgildi. Takist ríkisstjórninni að víkja þeim dómi til hliðar þá taka nýrri fordæmi við eins og t.d. nýr dómur Landsréttar þar sem dæmdar voru kr. 200.000 fyrir hvern dag í gæsluvarðhaldi í átta daga sem jafngildir kr. 72.000.000 á ári og sambærilega dómsátt sem ríkislögmaður gerði, en þá verður að hafa í huga að hin alvarlegustu áhrif gæsluvarðhalds í einangrun verða eftir fyrstu 15 dagana samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum, enda þótt þau geti komið fram fyrr. Jafnræðisregla er lögfest í stjórnarskrá.
Ekki leikur vafi á að dómurinn 1980 í máli þeirra sem grunaðir voru um ábyrgð á mannshvörfunum er alvarlegasta dómsmorð okkar tíma hér á landi. Fyrir slíkt athæfi ríkisins verður ekki bætt. Réttarkerfið skaðast og trúin á réttláta málsmeðferð og dóma verður fyrir áfalli auk tjóns hinna saklausu af meðferðinni. Stjórnvöld verða að leitast við að bæta skaðann og lögin bjóða ekki upp á önnur úrræði gagnvart brotaþolunum en skaðabætur. Vilji stjórnvalda til að bæta úr hinum stórfelldu mistökum birtist því í því eina úrræði sem nefnt hefur verið. Því hærri bætur því meiri varnaðaráhrif munu þær hafa á lögreglu og dómstóla. Aðhald að réttarkerfinu er í þágu almennings, sem á kröfu á réttlátri málsmeðferð fyrir sjálfstæðum og óháðum dómstólum. Almenningur mun þess vegna fylgjast með því hvort stjórnvöld vilja í raun axla ábyrgð á misgerðum sínum og sýna það í verki og hafa þannig áhrif til langs tíma, ekki aðeins á velferð hinna saklausu og fjölskyldna þeirra, heldur einnig á réttarkerfið og reyna að tryggja að slíkir atburðir gerist ekki aftur.
Höfundur er lögmaður eins þeirra sem krefur ríkið um bætur fyrir rangan refsidóm, ólöglega frelsissviptingu o.fl.