Alþingismenn hafa talað nokkuð lengi um orkulagabálkinn. Þótt umræðan sé löng í klukkustundum talið er ekki um eintómar endurtekningar eða merkingarleysu að ræða. Málið er furðu flókið og á sér marga anga. Sífellt koma fleiri þættir upp á yfirborðið og fleiri spurningar sem er ósvarað. Skynsamlegast er að hætta við málið en að öðrum kosti að fresta því til hausts. Í því sambandi ætti Alþingi að hafa eftirfarandi í huga:
1. Fjölmargar spurningar hafa komið fram á Alþingi að undanförnu, bæði að degi til og að næturlagi. Spurningarnar lúta að margháttuðum afleiðingum þess að gangast undir orkulagabálk Evrópusambandsins, afleiðingum hans í orkumálum fyrir atvinnu, náttúru og umhverfi, utanríkisviðskipti og íslenskt samfélag í heild sinni. Þá eru meintir fyrirvarar sveipaðir dulúð svo vægt sé til orða tekið. Stjórnvöld sem vilja láta taka sig alvarlega hljóta að reyna að svara þeim spurningum sem er ósvarað áður en tekið er skref sem erfitt verður að stíga til baka.
2. Mikill meirihluti þeirra Íslendinga sem afstöðu taka er andvígur því að orkubálkurinn verði leiddur í lög. Gjáin milli þings og þjóðar er með dýpsta móti í þessu máli. Þann hnút má leysa með því að blása til þjóðaratkvæðagreiðslu. Séu á því annmarkar er lágmarkskrafa að málinu verði frestað til hausts svo stjórnvöldum gefist tími til að sannfæra þjóðina um að málstaður þeirra sé góður.
3. Samþykkt orkulagabálksins í norska Stórþinginu verður tekin fyrir 23. september n.k. Verði sú samþykkt dæmd ólögmæt bendir allt til að málið gufi upp, Ísland og Noregur verði utan raforkubandalags Evrópu, öllum að meinalausu og mörgum til góðs. Gott ráð er því að bíða úrskurðarins í Noregi.
Höfundur er einn forsvarsmanna Orkunnar okkar og formaður Heimssýnar.