Undanfarna daga hafa birst fréttir af lyfjaskorti í landinu. Nú um stundir virðist staðan vera sú að fordæmalaus og alvarlegur lyfjaskortur er í landinu, jafnvel er skortur á lífsnauðsynlegum lyfjum. Til að bjarga einstökum tilfellum þar sem fólk þarf nauðsynleg lyf er bent á flókið ferli undanþágulyfja. Lyfjamarkaður, stjórnsýsla lyfja, innflutningur og verðlagning lyfja lúta ákveðnum lögmálum, reglum og sjónarmiðum.
Margt af ákvörðunum um lyfjamarkað hefur verið tengt EES samningnum, en á það skal þó bent á að þó að lyfjamarkaður sé frjáls hefur skipulag hans lítið með EES samninginn að gera. Á tíunda áratug síðustu aldar var lyfjamarkaðurinn (þ.e. rekstur apóteka) gefinn frjáls. Áður ríkti skrýtið fyrirkomulag lyfsöluleyfa sem gerði marga apótekara að milljónamæringum. Samhliða því fyrirkomulagi, var hins vegar starfandi Lyfjaverslun ríkisins. Það segja mér eldri og vitrari menn að þegar sú stofnun sá um framleiðslu og innflutning lyfja, ríkti EKKI alvarlegur lyfjaskortur hér á landi.
Aftur á móti verður ríkisvaldið að sýna ábyrgð á málinu. Þegar þessi nauðsynlegi þáttur heilbrigðiskerfisins brestur verða heilbrigðisyfirvöld að grípa inn í. Ef markaðurinn bregst í að flytja inn lyf og halda uppi eðlilegu framboði á lyfjum á Íslandi, verður ríkið að grípa til aðgerða til að tryggja eðlilegt framboð. Það er ekki í boði fyrir ríkisvaldið að sitja hjá og vona að hlutirnir lagist af sjálfu sér. Ríkisvaldið getur gripið til nokkurra aðgerða til að sporna við lyfjaskorti:
- Að viðhalda öflugri stjórnsýslu lyfja á Íslandi til að tryggja að á Íslandi verði eðlilegt framboð af lyfjum.
- Ríkið getur endurvakið Lyfjaverslun Ríkisins og tryggt framboð á lyfjum sem markaðurinn vill ekki flytja inn eða sinna.
- Ríkið getur sektað lyfjaheildsala um að sinna ekki sinni skyldu við að tryggja eðlilegt lyfjaframboð.
- Síðast en ekki síst getur ríkið lagt á hilluna hugmyndir um að draga úr skilvirkri stjórnsýslu og lyfjaöryggi í landinu með því að veikja þá stjórnsýslu sem fyrir er í landinu, sem m.a. birtist í hugmyndum um að leggja niður embætti lyfjamálastjóra.
Framboð lyfja á Íslandi er ekki einkamál lyfjaheildsala. Lyf er einn veigamesti þáttur íslenskrar heilbrigðisþjónustu. Það er óboðlegt að á Íslandi ríki viðvarandi lyfjaskortur. Þetta er áskorun sem er leysanleg ef vilji er fyrir hendi.
Höfundur er heilsuhagfræðingur.