Jafnlaunavottun var fest í lög á árinu 2017 og samkvæmt lögunum eiga fyrirtæki með 250 starfsmenn eða fleiri að vera komin með jafnlaunavottun í lok árs 2019. Þá skulu fyrirtæki með 150-249 starfsmenn öðlast jafnlaunavottun fyrir árslok 2020 og fyrirtæki með 90-149 starfsmenn skulu öðlast vottun fyrir árslok 2021. Fyrirtæki með 25-89 starfsmenn hafa frest til ársloka 2022. Opinberar stofnanir með fleiri en 25 starfsmenn skulu hafa fengið vottun fyrir árslok 2019. Jafnframt ber öllum fyrirtækjum og stofnunum með 25 eða fleiri starfsmenn að setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu (Lög nr. 10/2008).
Í rannsókn sem gerð var meðal fyrirtækja og stofnana hér á landi síðla árs 2018 var spurt um jafnréttismál (Arney Einarsdóttir og félagar, 2019). Rannsóknin er hluti af CRANET-rannsókninni sem er alþjóðlegt samstarfsverkefni yfir 50 háskóla í jafnmörgum löndum. Rannsóknin er gerð meðal mannauðsstjóra og annarra forsvarsmanna mannauðsmála í fyrirtækjum og stofnunum með 70 eða fleiri starfsmenn. Alls eru 359 fyrirtæki og stofnanir þeirrar stærðar á Íslandi og tóku 125 þeirra þátt í rannsókninni.
Niðurstöður rannsóknarinnar leiða í ljós að 88% fyrirtækja og stofnana hafa sett sér jafnréttisáætlun. Það þýðir að 12% fyrirtækja og stofnana hafi ekki sett sér jafnréttisstefnu, þrátt fyrir lagaskyldu þess efnis. Í rannsókninni voru þátttakendur jafnframt spurðir hver staðan væri hjá fyrirtækinu eða stofnuninni varðandi innleiðingu jafnlaunavottunar samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST-85.
Mikill meirihluti fyrirtækja og stofnana var ýmist byrjaður í ferlinu, langt kominn eða kominn með jafnlaunavottun. Meirihluti þeirra (61%) var kominn af stað í ferlinu og áætlaði vottun innan 6-12 mánaða og 20% svarenda höfðu þegar fengið vottun samkvæmt jafnlaunastaðlinum. Einungis lítill hluti fyrirtækja og stofnana (4%) sagðist ekki byrjaður að skoða jafnlaunavottun, eins og mynd 1 sýnir.
Þegar jafnlaunavottun er skoðuð út frá atvinnugrein má sjá að fyrirtæki í verslun og þjónustu eru komin hvað lengst í innleiðingu jafnlaunastaðalsins, 29% þeirra voru komin með jafnlaunavottun og 31% voru langt komin í ferlinu og áætluðu vottun innan 6 mánaða (sjá mynd 2). Í ljósi kvaða í reglugerð kemur ekki á óvart að stofanir hjá hinu opinbera hafi þegar hafið ferlið og var algengast að áætluð vottun væri innan árs hjá opinberum stofnunum, eða í 58% tilfella.
Eins og áður segir fer gildistaka ákvæða um jafnlaunavottun eftir stærð fyrirtækja og má glöggt sjá á mynd 3 að stærri fyrirtækin voru komin nær jafnlaunavottun en þau sem minni eru. Þannig voru 25% fyrirtækja og stofnana með fleiri en 300 starfsmenn þegar komin með jafnlaunavottun og 46% áætluðu að þau myndu fá vottun innan 6 mánaða. Önnur fyrirtæki hafa lengri frest til að fá jafnlaunavottun.
Það er ákveðinn ávinningur fólginn í því að fyrirtæki og stofnanir taki jafnréttismálin föstum tökum. Niðurstöður nýlegrar rannsóknar benda til þess að staða þeirra þegar kemur að jafnrétti hafi áhrif á það hvernig starfsfólk upplifir kynjajafnrétti á vinnustaðnum (Arney Einarsdóttir, Katrín Ólafsdóttir og Laura Nesaule, 2018). Séu fyrirtæki virk í jafnréttismálum getur það haft jákvæð áhrif á upplifun starfsfólks, m.a. á starfi og aðgerðum æðstu stjórnenda og hvernig staðið er að ráðningarmálum og framgangi í starfi með tilliti til jafnréttismála (Arney Einarsdóttir o.fl., 2018). Það er því jákvæð þróun á vinnumarkaði að fyrirtæki og stofnanir séu almennt að vinna markvisst að innleiðingu jafnlaunavottunar.
Heimildir:
Arney Einarsdóttir, Katrín Ólafsdóttir og Ásta Bjarnadóttir (2019). Mannauðsstjórnun á Íslandi 2018: Cranet rannsóknin í 15 ár. Háskóli Íslands: Viðskiptafræðideild.
Arney Einarsdóttir, Katrín Ólafsdóttir og Laura Nesaule. (2018). The relationship between gender equality activity in organizations and employee perceptions of equality. Tímarit um viðskipti og efnahagsmál, 15(1), 37–53. doi:10.24122/tve.a.2018.15.1.2
Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.
Greinin birtist fyrst í Vísbendingu. Önnur grein Katrínar Ólafsdóttur, sem birtist nýlega, fjallaði um rannsóknir á MeToo og hvernig fyrirtæki og stofnanir hafa brugðist við. Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.