Í framhaldi af undirskrift lífskjarasamningsins í vor hefur vaxtastigið á Íslandi lækkað nokkuð.
Seðlabankinn hefur lækkað stýrivexti sína úr 4,50% í 3,25%, eða um 1,25 %-stig. Það var einmitt eitt af markmiðum lífskjarasamningsins að skapa skilyrði til umtalsverðrar vaxtalækkunar fyrir heimilin og smærri fyrirtæki.
Þetta virðist vera að ganga eftir.
Þó eru misbrestir á að bankar og lífeyrissjóðir hafi fylgt Seðlabankanum nægilega vel í lækkunarferlinu.
Ætla verður að þessir aðilar fylgi Seðlabankanum betur á næstu vikum en verið hefur hingað til, enda hefur dregið í sundur með vöxtum af langtíma ríkisskuldabréfum og vöxtum á útlánum banka og sjóðfélagalánum lífeyrissjóða. Álag þessara lánveitenda ofan á vexti ríkisskuldabréfa hefur enda aukist, sem varla getur talist sjálfsagt við núverandi aðstæður.
Verðbólguvæntingar eru á niðurleið svo búast má við að Seðlabankinn geti haldið lækkunarferlinu áfram um sinn.
Í þeim efnahagsskilyrðum sem við nú búum við, með hægfara samdrætti og kólnun í hagkerfinu, þá er einmitt gagnlegt að örva þjóðarbúskapinn með vaxtalækkun.
Þó sagt sé að Seðlabankinn hafi staðið sig ágætlega í vaxtalækkun frá því í vor þá er rétt að hafa í huga að sú lækkun var frá mjög háu vaxtastigi í alþjóðlegu samhengi. Og þegar fyrir liggur að bankar og lífeyrissjóðir hafa í fæstum tilvikum fylgt Seðlabankanum nægilega vel eftir, þá er ljóst að betur má ef duga skal.
Nýlegur samanburður OECD á langtímavöxtum ríkisskuldabréfa í aðildarríkjunum sýnir að þrátt fyrir þróun í rétta átt þá er vaxtastigið á Íslandi enn í hæsta lagi (sjá myndina).
Ísland er með grænu súluna til hægri á myndinni, með 3,6% langtímavexti, sem eru fimmtu hæstu vextirnir í þessum hópi 38 ríkja. Einungis mun vanþróaðri lönd en Ísland búa við hærra vaxtastig en við. Tölur OECD um skammtímavexti segja sömu sögu.
Þau lönd sem við gjarnan berum okkur saman við eru með mun lægra vaxtastig en hér viðgengst, samkvæmt þessum mælingum OECD.
Raunar eru mörg hagsældarríkin í Evrópu með neikvæða vexti um þessar mundir, þar á meðal frændríkin á hinum Norðurlöndunum, að Noregi undanskildum. En við erum með meira en þrisvar sinnum hærri langtímavexti en Noregur, sem er óhóflegur munur.
En það er óheppilegt að vaxtastig sé miklu hærra hér en í öðrum hagsældarríkjum, því það dregur að kvikt fé braskara, sem ógnar fjárhagslegum stöðugleika eins og við brenndum okkur illilega á í aðdraganda hrunsins.
Það er því ljóst að vaxtastigið á Íslandi er enn óþarflega hátt og áfram þarf að halda á lækkunarbrautinni.
Sérstaklega þurfa bankar og lífeyrissjóðir að fylgja Seðlabankanum betur í lækkunarferlinu.
Höfundur er prófessor við Háskóla Íslands og sérfræðingur hjá Eflingu-stéttarfélagi í hlutastarfi.